Þjóðhagslegur ábati af virkum raforkumarkaði


12.04.2024

Framkvæmd

Miklar breytingar standa yfir og eru framundan í orkukerfum heimsins. Flestar þjóðir heims hafa sett sér metnaðarfull markmið um umbreytingu orkukerfa sinna til að koma í veg fyrir alvarlegar og óafturkræfar breytingar á loftslagi og vistkerfum jarðarinnar. Heimurinn stendur frammi fyrir fjölbreyttum áskorunum til að ná þessu markmiði og þarf hver þjóð að finna sína leið að settu markmiði. Eitt er þó sameiginlegt með þeim öllum; alls staðar þurfa breytilegir og endurnýjanlegir orkugjafar að koma í stað jarðefnaeldsneytis og hámarka þarf nýtingu þeirra. Markaðslausnir gegna lykilhlutverki í hámörkun nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa, þar sem neytendur fá hagkvæmasta verð sem völ er á hverju sinni. Virkir raforkumarkaðir eru því í lykilhlutverki við að ná loftslagsmarkmiðum heimsins - sama á við hér á landi.

Við hjá Landsneti vorum að gefa út nýja skýrslu þar sem farið var yfir helstu atriði um hlutverk og ábata af virkum raforkumarkaði og vitnað til skrifa Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og orkustefnu stjórnvalda.  Í skýrslunni kemur fram að virkur raforkumarkaður er nauðsynleg forsenda þess að ná fram skilvirkara raforkukerfi og auka þannig þjóðhagslegum ábata, öllum til hagsbóta. Ábati sem mun á endanum nema tugum milljarða árlega.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.

Aftur í allar fréttir