Gjaldskrá Landsnets er útbúin til að innheimta tekjur í samræmi við þau tekjumörk sem Orkustofnun setur Landsneti á hverjum tíma og gildir annars vegar fyrir almenna notendur og hins vegar fyrir stórnotendur. Gjaldtaka fyrir flutning er óháð þeirri vegalengd sem rafmagnið fer um kerfi Landsnets eða þeirri fjarlægð sem er á milli innmötunar- og úttektarstaðar. 

Flutningsgjaldið er að mestu grundvallað á þeirri raforku sem dreifiveitur og stórnotendur taka út af flutningskerfinu á einstökum afhendingarstöðum. Um er að ræða þrenns konar gjald, afhendingargjald, aflgjald og orkugjald.

Að auki er innheimt sérstaklega fyrir flutningstöp og kerfisþjónustu.

Landsnet semur um kaup á raforku vegna flutningstapa á þriggja mánaða fresti að undangengnu útboði og ákvarðast gjaldið af kostnaði við útboð Landsnets. Kaup og sala flutningstapa er hreinn gegnumstreymisþáttur í starfsemi félagsins og ræðst af innkaupsverði Landsnets hverju sinni auk 1,5% þóknunar Landsnets vegna umsýslu. Gjaldskrá vegna flutningstapa er endurskoðuð eftir hvert útboð þar sem verð flutningstapa er endurspeglað í rauntíma út á markaðinn.

Kerfisþjónusta innifelur í sér kaup Landsnets á reiðuafli, reglunaraflstryggingu og varaafli. Langtímsamningar eru gerðir um kaup á reiðuafli, samningar um reglunaraflstryggingu eru gerðir að undangengdu úboði til eins árs í senn og samningar um varaafl eru til langs tíma.

Útreikningur

Innheimt er fast árlegt afhendingargjald fyrir alla afhendingarstaði sem tengjast flutningskerfinu, hvort sem um er að ræða innmötun á kerfið eða úttekt. 

Aflgjaldið er reiknað út frá meðaltali fjögurra hæstu 60 mínútna mánaðarafltoppa ársins fyrir sérhvern afhendingarstað á meðan orkugjaldið reiknast af hverri MWst. sem flutt er um kerfi Landsnets.

Að auki er innheimt fyrir kerfisþjónustu og flutningstöp og er það fast gjald fyrir hverja kWst. í úttekt. Því gjaldi er ætlað að standa straum af innkaupsverði Landsnets fyrir þessa þjónustu á hverjum tíma.

Gjaldskrá Landsnets fyrir úttekt stórnotenda er í USD en aðrir liðir gjaldskrárinnar eru í íslenskum krónum.

Afslættir

Í gjaldskrá Landsnets er heimild til að gefa afslátt vegna flutnings sem leiðir til betri nýtingar á flutningskerfinu, svo sem vegna skerðanlegs flutnings til notenda sem tengdir eru um dreifiveitu. Þetta á einnig við um afhendingu og flutning á hærri spennu en 66 kV til dreifiveitna. Landsneti er heimilt að skerða afhendingu hjá notendum á skerðanlegum flutningi án bóta ef rekstrartruflanir verða í kerfinu. 

Rafmagnsreikningur heimilanna

Á rafmagnsreikningi einstaklinga og fyrirtækja er kostnaður vegna flutnings tilgreindur sérstaklega og er gjarnan um 10% af heildarfjárhæðinni sem samanstendur af orkuverði og kostnaði við flutning og dreifingu.