Ísland sem og heimurinn allur stendur frammi fyrir miklum áskorunum við að reyna að koma í veg fyrir óafturkræfar og stórfelldar loftslagsbreytingar tilkomnar vegna losunar á gróðurhúsalofttegundum. Áskoranir sem felast í miklum breytingum á orkunotkun heimsbyggðarinnar með útfösun jarðefnaeldsneytis. Þrátt fyrir að við Íslendingar stöndum betur en margar aðrar þjóðir þar sem raforkuframleiðsla okkar fer nær einungis fram með endurnýjanlegum orkugjöfum, stendur eftir að um 15% af frumorkunotkun okkar kemur frá jarðefnaeldsneyti.

Við höfum nú sett stefnuna á að hætta allri þessari notkun jarðefnaeldsneytis og miðast áætlanir stjórnvalda við að því markmiði verði náð á árinu 2040 og verði þá eingöngu notast við innlenda og endurnýjanlega orkugjafa á landinu.

Þetta mun þýða aukna áraun á raforkukerfið og kröfur til afkastagetu þess og afhendingaröryggis munu vaxa hratt næstu árin, óháð því hvaða leið verður farin í orkuöflun. Erfitt er að reikna út nákvæmlega hve mikið þörfin fyrir raforku mun aukast við orkuskiptin en hún mun að einhverju leyti fara eftir því hvaða tækni verður fyrir valinu og/eða verður í boði og eins hvernig neysluvenjur okkar munu verða í framtíðinni. Mesta nýtnin felst í því að nota raforkuna beint á vélar og tæki eins og gert er í rafmagnsbílum, en verst nýtist orkan við að búa til svokallað rafeldsneyti sem er byggt á vetni sem er búið til með rafgreiningu, svokallað grænt vetni. Það er þó talið að bein nýting raforkunnar sé ekki möguleg að öllu leyti og því þurfi alltaf að koma til framleiðslu á rafeldsneyti t.d. fyrir stór skip og flugvélar í millilandaflugi. Greiningar orkufyrirtækja á Íslandi benda til þess að stærðargráðan á orkuþörf fyrir útskipti á jarðefnaeldsneyti geti legið í kringum 15 TWst á ári. Til að setja þetta í samhengi er heildarraforkunotkun á landinu öllu í dag í kringum 20 TWst.

Hver sem orkuþörfin verður svo nákvæmlega eða hvernig henni verður mætt er ljóst að flutningskerfi raforku mun spila stórt hlutverk í því að áætlanir um orkuskipti geti gengið eftir. Þeir flöskuhálsar sem við búum við í dag þegar kemur að flutningi á raforku á milli svæða er eitthvað sem við getum ekki búið við og eins þarf afhendingaröryggi raforku að standast þær kröfur sem nútímasamfélag gerir til þess. Því er mikilvægt að áætlanir okkar um uppbyggingu á kerfinu nái fram að ganga til þess að lélegir innviðir verði ekki til þess að hægja á orkuskiptunum og koma þannig í veg fyrir að þjóðin nái sínum markmiðum í þessu mikilvæga málefni.