Til þess að ráðast í svo viðamikið verkefni að byggja upp flutningskerfi fyrir rafmagn þarf kerfisáætlun að liggja fyrir. Í kerfisáætlun er tekið tillit til raforkuspár og fyrirséðra breytinga á inn- og útmötun einstakra viðskiptavina.

En hvað er kerfisáætlun og hvers vegna er hún mikilvæg? Sérfræðingar okkar útskýra í stuttu máli fyrir okkur kerfisáætlun og hlutverk hennar.

 

Yfirlit yfir framkvæmdir

Tilgangurinn er að gefa yfirlit yfir framkvæmdir sem ráðgerðar eru á næstu árum til að styrkja og stækka flutningskerfið. Einnig er gert grein fyrir helstu eiginleikum flutningskerfisins, svo sem aflgetu, áreiðanleika, tapi, styrkleika á afhendingarstöðum, líkum á aflskorti og helstu takmörkunum kerfisins.  

Áætlanagerð

Gerð kerfisáætlunar er meðal þeirra leiða sem við nýtum okkur til að viðhalda og tryggja örugga og hagkvæma raforkuafhendingu til viðskiptavina. 

Með útgáfu kerfisáætlunar upplýsum við viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila um þróun flutningskerfisins og markaðar í stórum dráttum. Áætlunin er ekki bindandi heldur er hún tæki til að kynna þau verkefni sem við teljum mikilvæg til að stuðla að öflugu raforkuflutningskerfi til framtíðar.

Forsendur áætlanagerðar

Kerfisáætlun gengur út frá hámarksaflnotkun landsins fremur en heildarorkunotkun þar sem orkunotkun dreifist ekki jafnt yfir daga, vikur eða mánuði. Álagsþróun er áætluð út frá raforkuspá sem unnin er af raforkuhópi Orkuspárnefndar, gildandi stóriðjusamningum á tímabilinu sem áætlunin nær yfir, auk sérstakra áherslna Landsnets.