1. gr.
Nafn félagsins er Landsnet hf. Erlent hjánafn þess er Icegrid, en um rithátt þess, notkun og framsetningu fer eftir ákvörðun fyrirsvarsmanna félagsins hverju sinni.

2. gr.
Heimilisfang félagsins er að Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík. Útibú félagsins eru engin en heimilt er að stofna til þeirra.

3. gr.
Tilgangur félagsins er að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003 og stunda þá starfsemi sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf. Þá er félaginu heimilt að reka raforkumarkað.

4. gr.
Hlutafé félagsins er kr. 5.902.732.671,--krónurfimmmilljarðarníuhundruðog tværmilljónirsjöhundruðþrjátíuogtvöþúsundsexhundruðsjötíuogein00/100-. Hlutafé skiptist í einnar krónu hluti eða margfeldi þeirrar fjárhæðar. Gefa má út eitt hlutabréf fyrir öllu hlutafé hluthafa í félaginu og gildir það sama við aukningu hlutafjár.

5. gr.
Hlutabréf veita hluthafa full réttindi sem samþykktir þessar og lög um hlutafélög mæla fyrir um. Hlutabréf félagsins eru gefin út með rafrænum hætti samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignaskráningu fjármálagerninga. Félagsstjórn skal halda hlutaskrá í löggiltu formi. Eignarskráning í verðbréfamiðstöð skoðast fullgild sönnun fyrir eignarrétti að hlutum í félaginu og fullnægjandi grundvöllur skráningar í hlutaskrá. Hlutaskráin skal geymd á skrifstofu félagsins og eiga allir hluthafar aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar.

6. gr.
Um hlutabréf í hlutafélaginu gilda venjulegar reglur viðskiptabréfa.

7. gr.
Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra hluthafafunda.

Heimil er notkun rafrænna skjalasamskipta og rafpósts í samskiptum milli félagsins og hluthafa í stað þess að senda eða leggja fram skjöl rituð á pappír. Nær heimildin til hvers kyns samskipta milli félagsins og hluthafa svo sem um boðun hluthafafunda eða annarra tilkynninga sem félagsstjórn ákveður að senda skuli til hluthafa. Eru slík rafræn samskipti jafngild samskiptum á pappír. Skal félagsstjórn setja reglur um framkvæmd rafrænna samskipta, þ.m.t. hvar hluthafar geta fundið upplýsingar um framkvæmd rafrænna samskipta og þær kröfur sem gerðar eru til tæknibúnaðar.

8. gr.
Hluthafafundi skal boða með ábyrgðarbréfi eða á annan sannarlegan hátt, með minnst einnar viku fyrirvara. Til aðalfundar skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Stjórn er heimilt að ákveða að hluthafi geti tekið þátt í fundarstörfum hluthafafunda með rafrænum hætti án þess að vera á fundarstað. Ákveði stjórn að nýta þessa heimild skal þess sérstaklega getið í fundarboði.

Heimilt er að halda hluthafafundi aðeins rafrænt. Skal tryggt að hluthafinn geti tekið þátt í fundarstörfum og atkvæðagreiðslu. Í fundarboði skal taka fram hvernig hluthafi tilkynni þátttöku sína í fundinum og aðrar nauðsynlegar upplýsingar vegna þátttökunnar.

9. gr.
Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok marsmánaðar ár hvert.

10. gr.
Á aðalfundi félagsins skulu þessi mál tekin fyrir :
1. Skýrsla stjórnar félagsins.
2. Staðfesting efnahagsreiknings og rekstrarreiknings fyrir næstliðið
rekstrarár.
3. Hvernig skuli fara með hagnað eða tap félagsins á næstliðnu rekstrarári.
4. Kosning stjórnarmanna.
5. Kosning endurskoðanda.
6. Ákvörðun um þóknun stjórnarmanna fyrir störf þeirra á næstliðnu starfsári.
7. Starfskjarastefna í samræmi við ákvæði 79. gr. a hlutafélagalaga nr. 2/1995 með síðari breytingum.
8. Önnur mál.

11. gr.
Eitt atkvæði fylgir hverri einni krónu í hlutafé.

Hluthafi getur með skriflegu eða rafrænu umboði veitt umboðsmanni heimild til að sækja hluthafafund og fara þar með atkvæðisrétt sinn.

Á hluthafafundi ræður afl atkvæða, nema öðruvísi sé fyrir mælt í landslögum eða samþykktum þessum.

12. gr.
Fundagerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á hluthafafundum.

13. gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund.

14. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur varamönnum. Við stjórnarkjör skal tryggt að bæði kynin eigi fulltrúa í aðalstjórn. Náist lögbundin kynjahlutföll ekki við kosningu stjórnar á hluthafafundi skal sá er fékk flest atkvæði af þeim sem náðu ekki kjöri, og er af því kyni sem hallar á, taka sæti þess er fæst atkvæði fékk af þeim sem náðu kjöri, og er af fjölmennara kyninu. Hafi slík kynjahlutföll enn ekki náðst skal sá er fékk næstflest atkvæði af þeim sem ekki náðu kjöri, og er af því kyni sem hallar á, taka sæti þess er næstflest atkvæði fékk af þeim sem náðu kjöri og er af fjölmennara kyninu.

Endurskoðandi félagsins skal vera löggiltur endurskoðandi eða félag löggiltra endurskoðenda, sbr. þó ákvæði 18. gr. samþykkta þessara.

Kjörtímabil stjórnarmanna og endurskoðanda er eitt ár.

15. gr.
Þrír stjórnarmenn rita félagið fullkominni ritun.

Stjórn félagsins veitir prókúruumboð fyrir félagið.

Stjórn félagsins hefur heimild til að skuldbinda það, þar á meðal til veðsetningar eigna félagsins. Ef selja á eða veðsetja, meiri háttar eignir félagsins þannig að það muni hafa veruleg áhrif á starfsemi og rekstur fyrirtækisins, þarf til þess samþykki meiri hluta hluthafa.

Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða afgreiðslu mála samkvæmt einföldum meiri hluta. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Halda skal fundargerð um stjórnarfundi.

16. gr.
Stjórn Landsnets hf. skal í einu og öllu vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku.

Stjórn Landsnets hf. skal kappkosta að gætt sé í hvívetna jafnræðis við starfrækslu félagsins og fyllsta trúnaðar sé gætt um alla meðferð upplýsinga sem varða viðskiptahagsmuni o.s.frv.

Stjórnarmenn mega ekki vera fjarhagslega háðir einstökum eigendum í þeim skilningi að afkoma þeirra má ekki í neinu verulegu ráðast af fjárhagslegri afkomu viðkomandi eiganda eða greiðslum frá honum í einni eða annarri mynd.

Stjórn félagsins skal setja sér skriflegar starfsreglur. Stjórn skal taka starfsreglur til upprifjunar og endurskoðunar árlega. Starfsreglurnar skal birta á heimasíðu félagsins.

Þá skal stjórn Landsnets hf. sjá um að settar verði verklagsreglur um stjórnun upplýsingaöryggis.

17. gr.
Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans.

Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum..

18. gr.
Á aðalfundi félagsins skal kjósa löggiltan endurskoðanda og einn til vara, eða endurskoðendafyrirtæki, sem endurskoðanda félagsins. Ríkisendurskoðandi skal hafa rétt til að tilnefna þann endurskoðanda sem er í kjöri ef ákvæði c. liðar 4. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga eiga við. Endurskoðandi skal endurskoða ársreikninga félagsins fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund.

19. gr.
Engin sérréttindi fylgja hlutum í félaginu. Hluthafi þarf ekki að sæta innlausn hluta sinna, nema félaginu verði slitið eða hlutaféð löglega lækkað. Hluthafi þarf að sæta því að eigendur flutningsvirkja sem leigð eru félaginu leggi þau fram sem hlutafé í félaginu en þó þannig, að skuldsetning þeirra eigna verði sú sama og skuldsetning félagsins verður á þeim tíma.

20. gr.
Samþykktum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi eða aukafundi með 2/3 hlutum greiddra atkvæða, svo og með samþykki hluthafa sem ráða yfir a.m.k. 2/3 hlutum af því hlutafé í félaginu sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum, enda sé mætt fyrir a.m.k. helming hluthafa á fundinum og annað atkvæðamagn ekki áskilið í samþykktum eða landslögum.

21. gr.
Tillögur um slit eða skipti á félaginu má taka fyrir aðalfundi eða aukafundi, enda sé tillagna getið í fundarboði. Til þess að ákvörðun um slit eða skipti sé gild þarf samþykki hluthafa sem ráða yfir a.m.k. 2/3 hlutum of heildarhlutafé félagsins.

Hluthafafundur, sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit eða skipti félagsins, skal einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda.

22. gr.
Að því leyti sem ekki er kveðið á um í  samþykktum þessum gilda ákvæði hlutafélagalaga, nú laga nr. 2/1995, með síðari breytingum, svo og önnur ákvæði laga er við geta átt.Þannig samþykkt á stofnfundi Landsnets hf., Reykjavík, 25. júní 2004.
Með breytingum samþykktum þann 24. september 2004 (breytingar á 1. gr.),
10. desember 2004 (breytingar á 4., 14. og 16. gr.) og
17. desember 2004, (breytingar á 2., 8.,9.,14., 15., og 19. gr.)
21. desember 2005 (breytingar á 4. gr.)
24. september 2007 (breytingar á 4. gr.)
29. september 2009 (breytingar á 1. mgr. 14. gr.)
19. mars 2013 (breytingar á 8. gr., 9. gr., 10. gr., 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 14. gr.)
14. desember 2016 (breytingar á 1. mgr. 14. gr.)
31. mars 2017 (breyting á 18. gr.)
26. júní 2018 (breytingar á 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 15. gr.)
25. mars 2021 (breytingar á 7., 8, 5. mgr. 15. og 4. mgr. 16. gr.)
17. mars 2022 (breytingar á 5. gr.)
24. mars 2023 (breyting á 1. mgr. 14. gr.)