Rekstur raforkukerfisins í truflunum
Truflanir eru hluti af daglegum rekstri raforkukerfisins en notendur verða allajafnan ekki varir við þær. Þó geta orðið truflanir sem eru umfangsmeiri og hafa í för með sér flutningstakmarkanir eða skerðingar til notenda.
Stjórnstöð Landsnets stýrir aðgerðum í truflanarekstri og er í samskiptum við framleiðendur, dreifiveitur og stórnotendur eftir því sem við á. Stjórnstöð kemur upplýsingum á framfæri til sinna viðskiptavina um TETRA fjarskiptakerfið. Einnig er hægt að fylgjast með atburðum í rekstri eftir öðrum leiðum.
Fyrstu viðbrögð
Þegar truflun á sér stað eru fyrstu viðbrögð stjórnstöðvar ávallt að tryggja stöðugleika kerfisins sem enn er starfhæft, draga úr áhættu á frekari truflunum og upplýsa um atburðinn.
Til að meta umfang og alvarleika truflana er til viðmiðunar notast við flokkunarkerfi sem byggir á skilgreiningum Samtaka evrópskra flutningsfyrirtækja (ENTSO-E incident classification scale methodology) en með viðbótum sem taka til séraðstæðna í íslenska raforkukerfinu. Alvarleikastig er flokkað eftir sama litakóða og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra notar, þ.e. grænt, gult, rautt og svart stig.