Ertu nýr aðili á raforkumarkaðnum, það er að mörgu að huga og hér eru upplýsingar sem gætu hjálpað þér
- Hverju þarf að huga að þegar tengjast á flutningskerfi Landsnets.
- Uppfyllir þú þær kröfur sem settar eru fram til að þú getir tengst flutningskerfi Landsnets.
Tengiliðir
Íslenska raforkukerfið
Íslenska raforkukerfið samanstendur af tveimur kerfum, flutningskerfinu og dreifikerfum. Landsnet rekur flutningskerfið (220-66 kV) á meðan mismunandi dreifiveitur reka dreifikerfin um allt land (66-11 kV).
Grunnþjónusta okkar er örugg afhending raforku frá og til viðskiptavina okkar. Í frammistöðuskýrslu okkar er hægt að kynna sér mælikvarða og gæði raforku t.d. á mismunandi landshlutum.
Ef tenging nýs viðskiptavinar kallar á fjárfestingar í flutningskerfinu getur tími frá ákvörðun fram að tengingu verið misjafn. Fjárfestingar í flutningskerfinu krefjast allar leyfis frá Orkustofnun. Leyfisferlið er unnið í gegnum kerfisáætlun Landsnets þar sem þriggja ára framkvæmdaáætlun flutningskerfisins er gefin upp, ásamt framtíðaráformum til næstu tíu ára. Einnig geta fjárfestingar verið háðar skipulagsbreytingum, mati á umhverfisáhrifum sem og samningum við landeigendur.
Hverjir geta tengst flutningskerfinu
Þeir sem geta tengst flutningskerfinu eru dreifiveitur, virkjanir og stórnotendur.
Stórnotandi er skilgreindur sem aðili sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári og getur hann tengst flutningskerfinu beint. Orkuminni notendur tengjast hinsvegar beint við dreifiveitu.
Virkjanir sem eru stærri en 10 MW ber að tengjast flutningskerfi Landsnets en virkjunum undir 10 MW er heimilt að tengjast beint við dreifiveitu. Öllum dreifiveitum ber að tengjast flutningskerfinu beint.
Kröfur og skilmálar Landsnets
Nýjar tengingar við flutningskerfið verða að uppfylla kröfur sem settar eru fram í netmála Landsnets. Netmáli eru skilmálar sem Landsnet setur til að uppfylla ákvæði raforkulaga um meðal annars flutningsgetu, öryggi og gæði flutningskerfisins. Netmálar Landsnets tryggja einnig jafnræði meðal viðskiptavina okkar og skilgreina réttindi og ábyrgðir bæði Landsnets og viðskiptavina. Mikilvægt er að kynna sér tilheyrandi skilmála Landsnets þar sem tekið er á kröfum og fyrirkomulagi tengingar, viðskipta og reksturs.
Ósk um tengingu við flutningskerfið krefst umsóknar
Hægt er að senda inn umsókn um forathugun á tengimöguleikum við flutningskerfi Landsnets á neðangreindum tenglum:
Þegar fyrirspurn hefur borist með öllum tilheyrandi gögnum og upplýsingum er farið í forathugun á því hvort tenging uppfylli tilsettar kröfur og hvað þarf til að tengja nýjan viðskiptavin við flutningskerfið. Á þessu stigi (1. skref) eru niðurstöður án skuldbindinga af hálfu Landsnets en þær gefa grófa hugmynd að möguleikum.
Þegar verkefnið er talið fýsilegt af báðum aðilum, tæknilega, fjárhagslega og vegna annarra þátta eins og leyfisveitinga og skipulags geta formlegar samningaviðræður hafist. Unnið hefur verið að því að einfalda samninga með því að færa samningsákvæði í netmála Landsnets, en netmáli Landsnets er hluti af samningi milli aðila. Því er mikilvægt að kynna sér netmálann vel. Það er gert til að auka gagnsæi og tryggja jafnræði meðal viðskiptavina okkar.
Landsnet fer ekki í neinar fjárhagslegar skuldbindingar fyrr en öllum fyrirvörum í flutningssamningi hefur verið aflétt. Þá er hafist handa við framkvæmdir og í kjölfarið er gangsett og rekstur getur hafist.
Landsnet getur ekki ábyrgst nákvæman tíma sem það tekur að tengja aðila við flutningskerfið fram að gangsetningu. Það er margt sem getur haft áhrif og hvert verkefni er skoðað sérstaklega. Staða verkefnis og kröfur hjá nýjum aðila hefur mikil áhrif og einnig hvaða ráðstafanir flutningsfyrirtækið þarf að gera.
Kostnaðarþættir við tengingu nýs viðskiptavinar og rekstur
Hluti viðskiptavinar af tengikostnaði er metinn samkvæmt aðferðafræði um kerfisframlag sem er tiltekin í viðeigandi netmála D3. Kerfisframlag skal greiðast fyrir gangsetningu og haga skal greiðslum í takt við framvindu framkvæmda. Hér að ofan til hægri er tengill í netmála Landsnets.
Þegar samningaviðræður hefjast (2. skref) gengst viðskiptavinur undir áreiðanleikakönnun (e. due diligence) og viðskiptavin ber að leggja fram ábyrgð fyrir kostnaði við að tengjast við flutningskerfið.
Eftir að rekstur hefst greiðir viðskiptavinur fyrir flutning samkvæmt gildandi gjaldskrá Landsnets hverju sinni. Flutningsgjöld skiptast í afl-, orku- og afhendingargjald. Einnig er greitt fyrir flutningstöp og kerfisþjónustu.
Stórnotandi sem óskar fetir afhendingu á lægri spennu en 132 kV greiðir svokallað niðurspenningarálag sem leggst á flutningsgjöld (afl- og orkugjald) í gjaldskrá Landsnets og reiknast álagið skv. netmála B9.
Viðskiptavin ber að greiða 85% af samningsbundu magni hvort sem afl og orka eru afhent til viðskiptavinar eða ekki. Nánar er hægt að kynna sér það í netmála B4 um afhendingu rafmagns til stórnotenda.
Helstu samningsákvæði ná yfir t.d. umsamið afl og orku, tímalínur, samningslengd, kröfur um afhendingaröryggi og heimildir til skerðinga vegna aðstæðna í flutningskerfinu. Þetta er ekki tæmandi listi og er mjög háð kröfum og óskum viðskiptavina, staðsetningu, aðstæðum í flutningskerfinu og öðrum þáttum eins og leyfisveitingum og samningum við þriðja aðila.