Umfangsmikill varnarbúnaður ver raforkukerfið okkar  fyrir utanaðkomandi áhrifum. Búnaðurinn greinir bilanir og öll frávik frá eðlilegu rekstrarástandi og aftengir einstaka rekstrareiningar ef hann skynjar óeðlilegt ástand sem ógnar raforkukerfinu. 

Ef til dæmis eldingu slær niður í línu greinir búnaðurinn atvikið og aftengir línuna samstundis. Varnarbúnaður raforkukerfisins er í raun mörg samtengd og samhæfð varnarkerfi en sérstök kerfi eru fyrir flutningslínur og önnur fyrir spenna. Þá þjónustar Landsnet sams konar varnarbúnað fyrir rafala, spenna og annan rafbúnað í aflstöðvum Landsvirkjunar. 

Víðtækt samstarf

Rekstur þessa búnaðar kallar á víðtækt og náið samstarf við stórnotendur raforkukerfisins, bæði orkuframleiðendur og stóriðjufyrirtækin. Vegna þess hve búnaðurinn er skjótvirkur verða almennir notendur sjaldnast varir við það þótt truflanir verði í kerfinu. 

Af hálfu okkur er gerð sú krafa að það taki varnarbúnaðinn innan við 0,1 sekúndu að greina truflun og aftengja viðkomandi einingu frá kerfinu og dreifa álaginu á aðrar færar leiðir. Þegar það hefur verið gert sendir búnaðurinn viðvörun í stjórnstöð Landsnets um hvaða eining hafi verið aftengd þannig að strax sé hægt að byrja að greina truflunina og afleiðingar hennar og leggja mat á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að tryggja áframhaldandi rekstur raforkukerfisins.