Siðareglur Landsnets
Við hjá Landsneti viljum vera heiðarleg, réttsýn og sanngjörn hvert við annað og við leggjum okkar af mörkum til að vera áreiðanleg og traust í samskiptum við samfélagið sem við vinnum fyrir. Til að styðja við það höfum gert með okkur siðareglur sem við köllum samskiptasáttmála og er ætlað að efla traust og tiltrú okkar á milli, á okkur og okkar verkefnum. Sáttmálinn er viðbót við opinbert regluverk og verklagsreglur og leiðbeinandi á þeim sviðum sem lög, reglur og leiðbeiningar ná ekki til.
Siðareglur Landsnets ná til alls starfsfólks Landsnets, þar með talið stjórnarmanna og forstjóra. Samfélagssáttmálinn okkar er leiðarljós í okkar störfum. Það er mikilvægt að við séum öll meðvituð um það sem þar kemur fram og að haft sé í huga hvort ákvarðanir og hegðun standist þau viðmið sem við vinnum eftir og hvort það hafi áhrif á orðspor fyrirtækisins.
Ekki hika við að leita ráðgjafar ef eitthvað er óljóst – Saman berum við ábyrgð, virðum sáttmálann og vinnum saman að framgangi hans.
Leiðsögn til starfsfólks:
- Íhugaðu hvort tiltekin ákvörðun eða hegðun standist þau viðmið sem fram koma í siðareglum Landsnets. Frekari leiðsögn kann að felast í öðrum og sérhæfðari reglum og stefnum hjá félaginu sem, eftir atvikum, er vísað til í siðareglunum.
- Íhugaðu hvernig þú myndir rökstyðja tiltekna ákvörðun eða hegðun í samtali við fjölskyldu, vini eða fjölmiðla. Myndi orðspor þitt eða Landsnets bíða hnekki? – Þætti þér verjandi að ráðleggja öðrum að breyta eins og þú?
- Ekki hika við að leita ráðgjafar hjá samstarfsfólki þínu eða ábyrgðaraðilum tiltekinna málaflokka ef þú þarft.
Virðing, ábyrgð og samvinna
Tileinkum okkur jákvæða og umburðarlynda afstöðu gagnvart skoðunum og störfum annarra, vinnum sem liðsheild og hlustum á ólík sjónarmið. Sinnum störfum okkar af ábyrgð og í samræmi við það mikilvæga samfélagslega hlutverk sem Landsnet gegnir með gildi Landsnets að leiðarljósi.
- Við gætum þess að framkoma og hegðun sé í samræmi við hlutverk og framtíðarsýn Landsnets.
- Við kynnum okkur og virðum reglur um réttindi, skyldur og vinnulag sem skilgreint er í lögum, reglum, leiðbeiningum og stjórnkerfum Landsnets.
- Við leggjum áherslu á fagleg vinnubrögð, gagnrýna hugsun og málefnalegan rökstuðning.
- Við gagnrýnum með uppbyggilegum hætti og beinum ábendingum til þeirra er málið varðar.
- Við gætum trúnaðar um öll málefni sem við fáum vitneskju um í störfum okkar fyrir fyrirtækið og förum með persónuupplýsingar af varfærni.
Starfsumhverfi og menning
Jafnrétti er eitt af leiðarljósunum í okkar starfi og grundvöllur fjölbreytni og virðingar á vinnustaðnum. Vinnubrögð sem skapa traust og trúverðugleika eru lykillinn að góðum árangri og áhersla er lögð á kurteisi, réttsýni, virðingu og samvinnu.
- Við misnotum ekki valdastöðu okkar.
- Við leggjum okkur fram um að styðja og efla menningu sem byggir á jafnrétti, fjölbreytileika og gagnkvæmri virðingu.
- Við tökum ekki með nokkrum hætti þátt í einelti, áreitni eða öðru ofbeldi og erum á varðbergi gagnvart slíkri háttsemi.
- Við styðjum við jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun félagsins
- Við gagnrýnum með uppbyggilegum hætti og beinum ábendingum til þeirra er málið varðar.
- Við gætum að orðspori Landsnets í samskiptum bæði í vinnu og utan hennar.
Hagkvæmni og kostnaðaraðgát
Höfum hagkvæmni og kostnaðaraðgát að leiðarljósi í störfum okkar og förum vel með þau verðmæti sem okkur er trúað fyrir.
- Við leitum alltaf hagkvæmustu leiða í ákvörðunum fyrir félagið byggt á kröfum um öryggi og gæði.
- Við horfum til hagsmuna félagsins umfram okkar eigin í samskiptum við birgja, viðskiptavini og hagaðila og þiggjum ekki gjafir sem kunna að hafa áhrif á ákvarðanir okkar.
- Við gætum þess að fara vel með fjármuni og önnur verðmæti sem okkur er trúað fyrir og er óheimilt að nýta eignir fyrirtækisins til einkanota nema slíkt sé sérstaklega heimilað.
- Við erum sterkasti hlekkurinn í kostnaðaraðgát og upplýsum yfirmann ef eitthvað má betur fara í rekstri félagsins.
Samskipti, upplýsingagjöf og gagnsæi
Við vinnum að því að skapa sátt um hlutverk og starfsemi okkar með stöðugu samtali við hagsmunaaðila, samtali sem einkennist af hreinskilni, ábyrgð, víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja. Við sýnum frumkvæði í upplýsingagjöf og orðræða okkar um Landsnet á opinberum vettvangi einkennist af gildum okkar, samvinnu, virðingu og ábyrgð.
- Við upplýsum á gagnsæjan hátt forsendur og mat stærri fjárfestingakosta hjá félaginu og eigum góð samskipti við hagaðila.
- Við eigum faglegt og uppbyggilegt samstarf við stjórnvöld, eftirlitsstofnanir, opinberar stofnanir, hagsmunasamtök og aðra aðila sem við vinnum með og veitum upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins.
- Gagnsæi skal tryggt með því að hafa upplýsingar um starfsemina, hlutverk og framtíðarsýn aðgengilegar á heimasíðu félagsins og samfélagsmiðlum.
- Við vinnum með öll okkar gögn á öruggan máta og erum meðvituð um upplýsingatækniáhættur.
Heilindi og hagsmunatengsl
Hugum að hagsmunaárekstrum sem geta orðið vegna beinna eða óbeinna hagsmuna í tengslum við ákvörðun sem þarf að taka.
- Við gætum hlutleysis í samskiptum við viðskiptavini, birgja, hluthafa og aðra sem félagið hefur samskipti við.
- Okkur er skylt að gera yfirmanni fyrir fram grein fyrir því ef hugsanleg hætta er á hagsmunaárekstri í framtíðinni, t.a.m. ef ljóst er að fjölskyldumeðlimur er einn af viðskiptavinum fyrirtækisins, samkeppnisaðili eða ráðgjafi.
- Við leitum ekki upplýsinga um samstarfsfólk, hagaðila eða viðskiptavini í gagnasöfnum nema þörf krefjist starfsins vegna.
- Við munum meðhöndla trúnaðarupplýsingar sem slíkar.
Umhverfisvitund
Vinnum í sátt við samfélagið og leggjum áherslu á samfélagsábyrgð þar sem lágmörkun umhverfisáhrifa er í fyrirrúmi.
- Við göngum vel um náttúruna og leggjum okkur fram við að lágmarka áhrif á umhverfið af okkar verkum í rekstri.
- Við höfum sjálfbærni að leiðarljósi, forðumst sóun og lágmörkum neikvæð áhrif framkvæmda og reksturs á umhverfi og náttúru.
- Við sýnum gott fordæmi í daglegri umgengni við vinnu.
- Við leggjum áherslu á uppbyggingu og rekstur raforkuflutningskerfis til hagsbóta þjóðarinnar en horfum ekki til hagsmuna einstakra aðila eða hópa.
Samkeppni og hömlur
Landsnet er ekki í samkeppni á sviði raforkuflutnings og því þurfum við að vera vakandi fyrir því að beita ekki markaðsvaldi, misnota markaðsupplýsingar eða viðhafast nokkuð annað sem getur hamlað samkeppni á raforkumarkaði. Gætum trúnaðar um upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.
- Okkur ber að vernda trúnaðarupplýsingar sem við verðum áskynja um í starfi okkar og koma í veg fyrir að þær komist í hendur aðila sem gætu nýtt sér þær í eigin hagsmunaskyni.
- Okkur er óheimilt að nýta trúnaðarupplýsingar í eigin ágóðaskyni og skiptir engu máli hvernig við komumst yfir slíkar upplýsingar.
Persónuöryggi, heilsa og vinnuumhverfi
Tryggjum samfelldan rekstur og stjórnum okkar verkum út frá áhættu og tökum aldrei áhættu varðandi persónuöryggi.
- Við hefjum hvern dag og hvert verk með öryggi og heilsu í huga.
- Við stöðvum vinnu ef verkið er ekki öruggt eða heilsusamlegt.
- Við bendum hvert öðru á það sem betur má fara í öryggismálum.
Viðbrögð við háttsemi og erindum
Forsenda þess að sáttmálinn sé virkur og gegni hlutverki sínu er að við séum vakandi yfir því að siðareglunum sé fylgt.
Ef við teljum okkur hafa grun um óreiðu eða misgjörðir í starfsemi félagsins, eða siðferðislega ámælisvert eða ólögmætt athæfi, s.s. sviksemi, brot á lögum eða reglum, leggjum við fram ábendingu um slíkt. Slíkar ábendingar ber að tilkynna til næsta yfirmanns, framkvæmdastjóra, mannauðsstjóra, forstjóra eða stjórnar. Landsnet hf. lítur á allar ábendingar sem verðmæti, enda geti þær leitt til bættrar þjónustu, samskipta eða lágmarkað hugsanlegan skaða. Starfsfólk geldur ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum eða fyrir að leita réttar síns telji það á sér brotið.
- Við fylgjum framangreindum siðareglum af kostgæfni og störfum í anda þeirra enda vitum við að ekki er hægt að setja fram tæmandi siðareglur um öll atvik sem upp geta komið í starfseminni.
- Við erum, í samræmi við stöðu okkar og hlutverk, ábyrg fyrir athöfnum okkar og gjörðum og gætum að því fyrir okkar leyti að farið sé eftir reglunum.
- Yfirmenn kynna starfsfólki reglur sem um starfið gilda og ganga á undan með góðu fordæmi.
Samþykktar af stjórn Landsnets þann 15. júní 2022