Árshlutareikningur Landsnets fyrir janúar – júní 2025 var lagður fram í dag.
Rekstur Landsnets gekk vel á fyrstu sex mánuðum ársins og er í samræmi við áætlanir. Hagnaður félagsins á tímabilinu nam 11,5 milljónum USD. Endurgreiðslur á innmötunargjaldi höfðu áhrif á niðurstöður ársins.
Ragna Árnadóttir forstjóri Landsnets:
„Það eru krefjandi tímar framundan við að styrkja og byggja upp flutningskerfið til framtíðar. Árshlutauppgjörið sem nú er lagt fram endurspeglar góða fjárhagslega stöðu Landsnets. Á fyrri helmingi ársins eru tekjur félagsins lægri en á sama tímabili í fyrra og koma þar fram áhrif af endurgreiðslu innmötunargjalds í kjölfar dóms Hæstaréttar. Áætlanir gera ráð fyrir að rekstrarniðurstaða félagsins í lok árs verði í takti við niðurstöður fyrri ára.
Verkefni ársins eru mörg og flestöll á áætlun. Þau hafa snúið að eldsumbrotum á Reykjanesi og stórum fjárfestingum sem tryggja afhendingaröryggi raforku til framtíðar. Suðurnesjalína 2 er nú komin í biðstöðu vegna dómsmála. Þrír nýir sæstrengir voru lagðir í sumar, tveir til Vestmannaeyja og einn yfir Arnarfjörð, strengir sem allir munu bæta afhendingaröryggi til muna. Áfram eru áskoranir í aðfangakeðjunni sem tengjast bæði verðhækkunum og mikilli samkeppni um aðföng á heimsvísu.“
Helstu atriði árshlutareiknings:
Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 11,5 millj. USD (1.534,8 millj.kr) [1] fyrstu 6 mánuði ársins 2025 samanborið við 21,1 millj. USD (2.805,3 millj.kr) á sama tímabili árið 2024. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 28,0 millj. USD (3.726,8 millj.kr) samanborið við 34,9 millj. USD (4.650,5 millj.kr) árið áður.
Heildareignir félagsins í lok tímabilsins námu 1.250,1 millj. USD (151.677,5 millj.kr) samanborið við 1.236,2 millj. USD (149.984,0 millj.kr) í lok árs 2024. Heildarskuldir námu í lok tímabilsins 681,7 millj. USD (82.713,1 millj.kr) samanborið við 661,2 millj. USD (80.226,1 millj.kr) í lok árs 2024.
Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 45,5% samanborið við 46,5% í lok ársins 2024. Eigið fé í lok tímabilsins nam 568,4 millj. USD (68.964,5 millj.kr) samanborið við 574,9 millj. USD (69.758,0 millj.kr) í lok árs 2024.
Handbært fé í lok júní nam 48,8 millj. USD (6.490,8 millj.kr) og handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 28,2 millj. USD (3.754,7 millj.kr).
Hér er hægt að nálgast ársreikninginn í heild.
Helstu niðurstöður rekstrarreiknings, lykiltölur efnahagsreiknings og kennitölur (fjárhæðir eru í þúsundum bandaríkjadala)
Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is.
[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við meðaltal miðgengis Seðlabanka fyrir tímabilið USD/ISK 133,08 fyrir rekstrartölur en lokagengi miðgengis Seðlabanka þann 30. júní 2025 USD/ISK 121,33 fyrir efnahagstölur.
Um Landsnet
Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.