Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 í biðstöðu


21.08.2025

Framkvæmd

Framkvæmdir við loftlínuhluta Suðurnesjalínu 2 eru nú í biðstöðu á meðan beðið er niðurstöðu í dómsmálum sem tengjast verkefninu.

Framkvæmdir við loftlínuhluta Suðurnesjalínu 2 eru nú í biðstöðu á meðan beðið er niðurstöðu í dómsmálum sem tengjast verkefninu. Búið er að reisa 69 af 86 möstrum og leiðari hefur verið strengdur á milli 50 þeirra. Nánast allri vinnu á línuleiðinni er því lokið nema á þeim jörðum þar sem eignarnám og dómsmál standa yfir.  

Samningar hafa náðst við um 96% landeigenda en ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála hefur heimilað eignarnám á þeim jörðum þar sem samkomulag hefur ekki tekist. Í eignarnámsmálinu voru Landsnet og ríkið sýknuð í Héraðsdómi en málinu var áfrýjað til Landsréttar, þar sem það bíður nú niðurstöðu Hæstaréttar.  

Í máli sem varðar framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Voga voru Landsnet og Vogar sýknuð í Héraðsdómi og landeigendum gert að greiða málskostnað. Málinu hefur verið áfrýjað beint til Hæstaréttar og er niðurstöðu að vænta í nóvember.  

Þá er aðfararbeiðni vegna umráðatöku til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness og er líklegt að því máli verði áfrýjað á öll dómsstig.  

Framkvæmdir eru því í biðstöðu þar til niðurstöður liggja fyrir í dómsmálum en unnið er að strenglögn í Hafnarfirði á um 1,5 km kafla.  

Suðurnesjalína 2 er mikilvægur liður í að styrkja flutningskerfið og mæta vaxandi þörf fyrir raforku á Suðurnesjum. Í dag flytur Suðurnesjalína 1 ein raforku til og frá svæðinu og fylgir því talsverð áhætta fyrir íbúa og atvinnulíf. Nýja línan verður alls 29 kílómetra löng, frá Hamranesi í Hafnarfirði að nýrri spennistöð á Njarðvíkurheiði, þaðan sem hún tengist við Reykjaneslínu 1.

Aftur í allar fréttir