Á útboðsþingi á dögunum kynnti Unnur Helga Kristjánsdóttir, forstöðumaður verkefnastjórnunar framkvæmda, helstu verkefni og útboð ársins 2026. Á árinu er áætlað að fjárfesta í flutningskerfinu fyrir um 14 milljarða króna.
Framkvæmdir í flutningskerfinu eru lykilforsenda aukins afhendingaröryggis og áreiðanleika raforkukerfisins og eru verkefni ársins öll miðuð að því að styrkja innviði samfélagsins til langs tíma.
Áætlað er að bjóða út verk fyrir rúma 7 milljarða og skiptist sú fjárhæð nokkuð jafnt milli jarðvinnu og bygginga annars vegar og rafbúnaðar og uppsetningar hins vegar.
Á meðal verkefna sem fara í útboð á árinu eru:
· Ísallínur 3 og 4
· Þorlákshafnarlína 2 og stækkun tengivirkis í Þorlákshöfn
· Tengivirki við Hryggstekk
· Loftlínur við Hvamm, Ferjufit og Sigöldu
Fram undan eru spennandi tímar við að byggja upp og styrkja flutningskerfið og hvetjum við verktaka og birgja til að fylgjast vel með verkefnum okkar á útboðsvefnum.
Sterkara flutningskerfi og aukið afhendingaröryggi
Á síðasta ári var fjárfest í flutningskerfinu fyrir um 13 milljarða og boðin út verk fyrir um 7 milljarða. Ný tengivirki voru tekin í notkun á Breiðadal við Önundarfjörð og við Vegamót á Snæfellsnesi. Nýr jarðstrengur var lagður í Kópaskerslínu 1 með tilheyrandi breytingum á tengivirkinu á Þeistareykjum. Í lok árs var nýr jarðstrengur, Rimakotslína 2, tekinn í notkun og tveir nýir sæstrengir voru lagðir til Vestmannaeyja, Vestmannaeyjastrengir 4 og 5, sem breyta raforkuöryggi í Eyjum til muna.
Hér er hægt að nálgast kynninguna frá útboðsþinginu.