Skrifað undir einn stærsta samning í sögu Landsnets


05.09.2024

Framkvæmd

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets skrifaði í gær undir samning við Takeshi Yokota, forstjóra Hyosung frá Suður-Kóreu, um nýjan rofabúnað fyrir tengivirki Landsnets á Klafastöðum í Hvalfirði, tengivirki við Sigölduvirkjun og nýtt tengivirki sem mun rísa við Ferjufit. Samningurinn markar upphaf nýrra tíma í rekstri Landsnets en nýja tengivirkið við Ferjufit mun m.a. tengja nýtt vindorkuver, Búrfellslund,  inn á flutningskerfið.  Er það fyrsta vindorkuverið sem  tengist inn á flutningskerfið.

2,3 milljarða samningur

Samningurinn sem skrifað var undir er einn stærsti samningur sem Landsnet hefur gert vegna uppbyggingar á tengivirkjum. Nýju tengivirkin sem öll eru yfirbyggð breyta miklu þegar kemur að afhendingaröryggi og falla vel að umhverfis- og öryggissjónarmiðum.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets er ánægður með samninginn við Hyosung og segir hann mikilvægt skref í átt að auknu orkuöryggi og orkuskiptunum. Nýja tengivirkið við Ferjufit á Suðurlandi muni gegna lykilhlutverki í framtíðaráformum Landsnets á svæðinu.

„Samningurinn sem við skrifuðum undir í gær er tímamótasamningur í okkar sögu en við vorum að skrifa undir samning um kaup á búnaði fyrir þrjú stór tengivirki. Það skilar okkur töluverðu hagræði á sama tíma og við erum að taka stór skref þegar kemur að auknu afhendingaröryggi með yfirbyggðum tengivirkjum þar sem vandamál tengd óveðrum, seltu og ísingu verða úr sögunni. Við erum líka að bregðast við þörfinni fyrir nýjan orkugjafa eins og vindorkuna og verður nýja tengivirkið okkar við Ferjufit fyrsta tengivirkið sem tengist þeim áformum. Þannig að það eru spennandi tímar fram undan hjá þjóðinni og við hjá Landsneti erum á fullri ferð inn í framtíðina “ segir Guðmundur Ingi.

Aftur í allar fréttir