Framkvæmd

Eitt stærsta viðgerðarverkefni í sögu Landsnets, viðgerð á Vestmannaeyjastreng 3, mun hefjast um næstu mánaðamót.

Undirbúningur fyrir viðgerðina hefur gengið vel. Búið er að kaupa 3 km langan streng og tengibúnað og samið hefur verið við danskan verktaka, JD Contractor A/S,​ sem þekkir vel til aðstæðna á Íslandi. Fyrirtækið kom m.a. að viðgerð á Vestmannaeyjastreng 2 árið 2008 og hefur lagt vatnslagnir til Eyja.  Notaður verður prammi sem er sérútbúinn til strenglagna og -viðgerða. Íslenskir verktakar munu koma að undirbúningsvinnu á sjó og vinnu í landi.

Strengurinn bilaði 31. janúar og mælingar sýndu að bilunarstaður er um 5 km frá tengivirkinu Rimakoti við Landeyjasand, þ.e. um 1 km frá landi.  Aðstæður á bilunarstað eru krefjandi og erfitt er að koma viðgerðarskipi að staðnum.​ Bilunin er rétt við sandrif sem er á mikilli hreyfingu til og frá ströndinni​. Talsverður straumur er meðfram ströndinni og mikill öldugangur þar sem bilunin er þannig að allar aðgerðir þar eru veruleg áskorun.

Eftir talsverða yfirlegu og mat á áhættu við viðgerðina var ákveðið að fara þá leið að fleyta inn nýjum streng og tengja við þann gamla um 2 km frá landi. Svipuð aðferð og var notuð þegar strengurinn var lagður árið 2013.

Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets segir að það þurfi margt að falla með Landsneti á meðan á viðgerð stendur.

„Straumþungi er meðfram ströndinni og mikill öldugangur og munu aðstæður til vinnu ráðast mikið til af vindátt og öldu. Viðgerðin hefst á því að skorið er á gamla strenginn um 2 km frá fjöruborði, nýjum streng fleytt í land og hann dreginn upp í fjöruna þar sem hann verður tengdur við landstrenginn sem fyrir er. Þá verður núverandi streng lyft upp í viðgerðarskip þar sem hann verður tengdur við nýja strenginn. Sú vinna tekur hátt í 48 klukkustundir og þarf ölduhæð að vera minni en 1,1 metri á meðan á henni stendur. Að því loknu er honum slakað aftur niður á hafsbotn. Við reiknum með að við bestu aðstæður taki viðgerðin um tíu daga.“

Vestmannaeyjastrengur 1 og samtengdir Vestmannaeyjastrengir 2 og 3 hafa séð Vestmannaeyjum fyrir rafmagni á meðan strengurinn hefur verið bilaður og hefur Landsnet ekki þurft að keyra varaafl um nokkurt skeið. Enn eru fimm varaaflsvélar Landsnets í Eyjum sem geta framleitt 6 MW.

Ljósmynd: Frá þeim tíma þegar Vestmannaeyjastrengur 3 var lagður.

 

Aftur í allar fréttir