Framkvæmd

Undanfarnar vikur höfum við hjá Landsneti verið í góðu samtali við fjölmarga sérfræðinga, vísindamenn og Sveitarfélagið Voga um tjónnæmi vegna jarðvár á Reykjanesi. Nú liggur fyrir skýrsla, Greining á tjónnæmi,  en niðurstöður hennar sýna að loftlína er ákjósanlegasti kosturinn með tilliti til raforkuöryggis á Suðurnesjum.

Jarðskjálftar og jarðhreyfingar eru mun líklegri vá á línuleið á Suðurnesjum en hraunflæði á yfirborði vegna eldsumbrota.  Ljóst er að loftlína mun standa mun betur af sér jarðskjálfta og aðrar jarðhreyfingar. Góðar líkur eru á því að loftlínan muni geta staðið af sér hóflegt hraunrennsli verði gerðar ráðstafanir varðandi hraunflæðivarnir á völdum stöðum og staðsetning mastra valin með tilliti til staða sem margar gossprungur myndu leiða hraun að, sbr. rennslisleið að Vogavík og Vatnsleysuvík.

Allar fyrirbyggjandi aðgerðir er varða varnir jarðstrengja gegn náttúruvá, þarf að undirbúa á hönnunar- og framkvæmdatíma. Erfitt er að afmarka aðgerðir við þá staði þar sem hættan á eftir að raungerast. Varnaraðgerðir vegna jarðstrengs um jarðskjálftasvæði geta því orðið flóknar og kostnaðarsamar.

Skýrslan var unnin af sérfræðingum frá EFLU og Landsneti sem hafa þekkingu á hönnun og rekstri raforkumannvirkja og þeim áhrifum sem vá gæti haft á afhendingaröryggi þeirra. Einnig voru fengnir í teymið sérfræðingar í áhættumati og hraunrennslisgreiningum frá Verkís sem unnu í starfshópi um varnir mikilvægra innviða á vegum Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og sitja einnig í starfshópi forsætisráðuneytis um afhendingaröryggi orku og vatns á Reykjanesi. Jafnframt var leitað til Veðurstofu Íslands og  Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá eftir  umsögn  sem og nánari upplýsingum og gögnum.

Hjá Sveitarfélaginu Vogum liggur nú til afgreiðslu umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir aðalvalkost loftlínu sem valin var út frá mörgum þáttum, þar með talið áhættu vegna jarðvár. Önnur sveitarfélög á línuleiðinni, Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær, hafa nú þegar samþykkt framkvæmdaleyfi aðalvalkostar.  

Hér er hægt að nálgast skýrsluna

Aftur í allar fréttir