Aukið afhendingaröryggi skapar tækifæri: Vestmannaeyjastrengir 4 og 5 komnir í rekstur


17.12.2025

Framkvæmd

Í dag var stigið stórt skref í raforkusögu Vestmannaeyja þegar Vestmannaeyjastrengir 4 og 5 voru teknir í rekstur. Með tilkomu nýju strengjanna eykst afhendingaröryggi raforku til Vestmannaeyja og sjá nú þrír öflugir sæstrengir Vestmannaeyjum fyrir rafmagni.

„Ég vil óska íbúum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum til hamingju með þennan mikilvæga áfanga. Nýju strengirnir tryggja Vestmannaeyjum aukið afhendingaröryggi og skapa sterkan grunn fyrir áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs og samfélags í Eyjum.“ segir Ragna Árnadóttir forstjóri Landsnets. 

Lagning nýrra strengja til Eyja hafði lengi verið til umræðu en eftir bilun í Vestmannaeyjastreng 3 árið 2023 var ákveðið að flýta framkvæmdum.  

Eftir útboð var samið við Hengtong Submarine Cable um framleiðslu og lagningu  strengjanna, en Seaworks, sem undirverktaki, sá um lagningu þeirra. Lagning strengjanna fór fram sumarið 2025 og gengu framkvæmdir vel, veðurskilyrði voru hagstæð og viljum við þakka öllum sem komu að verkefninu fyrir frábæra samvinnu.   

Verkefnið fól í sér að endurnýja og stækka tengivirkið Rimakot í Landeyjafjöru og settur var upp nýr búnaður í Vestmannaeyjum ásamt því að leggja tvo nýja strengi þar á milli.

Nýju strengirnir eru alls um 36 km að lengd, 10 km á landi og 26 km í sjó og auka flutningsgetu til Eyja um allt að 120 MVA og tryggja Vestmannaeyjum örugga orkutengingu til framtíðar. 

Rimakotslína 2, hluti af styrkingu Vestmannaeyja við flutningskerfið 

Samhliða Vestmannaeyjastrengjunum var nýr 132 kV jarðstrengur, Rimakotslína 2, tekinn í rekstur og styrkir hann flutningskerfi raforku á Suðurlandi og tengir Vestmannaeyjar enn frekar við meginflutningskerfið. 

Strengurinn var lagður á árunum 2024 og 2025 milli Hellu og tengivirkis Landsnets í Rimakoti í Landeyjarfjöru. Strengurinn er 36 km langur, lengsti jarðstrengurinn í kerfi Landsnets.   

 

 

Eldri fréttir og frekari umfjöllun um strengina

Aftur í allar fréttir