Hæstiréttur staðfesti á miðvikudaginn niðurstöður Landsréttar um að Landsneti hafi verið óheimilt að leggja á innmötunargjald á vinnslufyrirtæki.
Að mati Landsnets er niðurstaðan líkleg til að hafa víðtækar afleiðingar. Erfiðara mun reynast að þróa gjaldskrá fyrirtækisins til að hún geti mætt orkuskiptum og markmiðum þjóðarinnar um sjálfbærni í orkumálum.
Markmið innmötunargjalds er að stuðla að jafnræði meðal orkuframleiðenda og auka skilvirkni í kerfinu með skýru merki um þann kostnað sem framleiðendur valda. Nauðsynlegt er að geta brugðist við auknum fjölda framleiðenda og aukinni innkomu sveigjanlegrar orku á skilvirkan og hagkvæman máta.
Breytingin fól ekki í sér hækkun á heildartekjum heldur var um að ræða tilfærslu á gjöldum á milli hópa viðskiptavina. Gjaldtaka gagnvart öðrum notendum en framleiðendum var lækkuð um sömu upphæð og það gjald sem var lagt á framleiðendur.
Niðurstaða dómsins torveldar þessa þróun og veldur óvissu fyrir nýja orkuframleiðendur, minni orkuframleiðendur og dreifiveiturnar. Landsnet telur að það sé nauðsynlegt að raforkulögum verið breytt til að hægt sé að eyða þessari óvissu og jafna stöðu aðila á orkumarkaði.
Landsnet mun í framhaldi fara vel yfir dóminn og skoða áhrifin sem niðurstöður hans kunna að hafa. Meta þarf þörf á leiðréttingu, sem áætlað nemur um 300 milljónum króna, með markaðsaðilum og Raforkueftirliti Orkustofnunar þannig að áhrifin verði í lágmarki fyrir orkumarkaðinn.