Skrifað undir samkomulag vegna Hvalárvirkjunar


05.06.2024

Framkvæmd

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku og stjórnarformaður VesturVerks, skrifuðu í dag undir samkomulag vegna undirbúnings tengingar Hvalárvirkjunar við flutningskerfi Landsnets.

Með þessu samkomulagi erum við að sjá hreyfingu í virkjanamálum á Íslandi og er það ánægjulegt þar sem aukin raforkuframleiðsla er ein af lykilforsendum orkuskipta á Íslandi og því að við náum loftslagsmarkmiðum okkar. Hlutverk Landsnets er m.a. að tryggja orkuöryggi og  jafnan aðgang aðila á markað og er lykilþáttur í að tryggja virka samkeppni á raforkumarkaði sem er öllum til hagsbóta. Samvinna flutningsfyrirtækisins og virkjunaraðila í þessu tilfelli er því ánægjuleg framfaraskref. 

Nú tekur við hjá Landsneti að eiga samtöl við sveitarfélögin á svæðinu,  vinna að leiðarvali, hefja rannsóknir og undirbúning fyrir umhverfismat á tengingunni. 

Samningur um tengingu virkjunarinnar við raforkukerfið liggur enn ekki fyrir en nokkrir möguleikar á tengingu við fyrirhugað nýtt tengivirki Landsnets í Ísafjarðardjúpi eru til skoðunar.

Hvalárvirkjun er á rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu auðlinda landsins og hefur VesturVerk, sem er í meirihlutaeigu HS Orku, gert samning við landeigendur um nýtingu vatnsréttinda. Áætluð stærð Hvalárvirkjunar er um 55 MW í uppsettu afli með 5.818 klst. nýtingartíma á ári og orkugetu upp á 320 Gwh á ári. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árunum 2026-2028.

Ljósmynd:
Svandís Hlín Karlsdóttir, Guðmundur Ingi Ásmundsson, Ásbjörn Blöndal og Friðrik Friðriksson. 

Aftur í allar fréttir