B2 Skilmálar um sölumælingar og uppgjör

Útgáfa 1.0 gefin út 01.07.2020 

1. Inngangur

1.1 Skilmálar þessir fjalla um hvernig staðið skuli að sölumælingum og uppgjöri fyrir flutning raforku og jöfnunarorku

1.2 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli heimildar í 6. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum (hér eftir nefnd raforkulög) til fyllingar ákvæðum reglugerðar nr. 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar ásamt síðari breytingum.

1.3 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af Orkustofnun sbr. 6 mgr. 9. gr raforkulaga.

2. Skilgreiningar

Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:

2.1 Afhendingarstaður: er staður í flutnings- eða dreifikerfi þar sem innmötun eða úttekt raforku fer fram.
2.2.Dreifiveita: er fyrirtæki sem er skilgreint sem slíkt í raforkulögum.
2.3 Flutningsfyrirtæki: er fyrirtæki sem er skilgreint sem slíkt í raforkulögum.
2.4 Flutningskerfi: er kerfi eins og það er skilgreint í raforkulögum.
2.5 Jöfnunarorka: er orka eins og hún er skilgreind í reglugerð 513/2003.
2.6 Jöfnunarábyrgðaraðilli (Ábyrgðaraðili jöfnunarorku): sá aðili sem ábyrgist með skriflegum samningi við kerfisstjórn Landsnets að jafnvægi sé milli öflunar raforku, þ.e. raforkuframleiðslu og raforkukaupa annars vegar, og ráðstöfunar, þ.e. sölu og notkunar hins vegar.
2.7 Mælibúnaður: er safnheiti yfir allan nauðsynlegan búnað til að mæla raforkunotkun. Til mælibúnaðar teljast m.a. raforkumælar, straumspennar, spennuspennar, tímarofar, mælitaugar, einangrun, varnarbúnaður, gagnasafnverk og samskiptabúnaður.
2.8 Mælistaður: er sá staður í dreifikerfi eða flutningskerfi þar sem mæling fer fram.
2.9 Notkunarferill: er mismunur heildarorkuúttektar á notkunarferilssvæði á klukkustund annars vegar og tímamældrar notkunar einstakra notenda. Töp í raforkukerfinu teljast hluti af notkunarferli.
2.10 Raforkumælir: er mælir sem ætlaður er til að mæla raun- eða launorku og er notaður til uppgjörs raforku.
2.11 Sölufyrirtæki: er fyrirtæki sem er skilgreint sem slíkt í raforkulögum.
2.12 Stórnotandi: er notandi eins og hann er skilgreindur í raforkulögum.
2.13 Viðskiptavinur Landsnets: eru dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og þeir aðilar sem hafa leyfi samkvæmt raforkulögum að stunda viðskipti með raforku.
2.14 Vinnslufyrirtæki: er fyrirtæki sem er skilgreint sem slíkt í raforkulögum.

3. Almennt

3.1 Skilmálar þessir gilda fyrir Landsnet og viðskiptavini Landsnets vegna uppgjörs á flutningi á raforku og hvernig standa ber að þeim mælingum sem uppgjör byggja á.
3.2 Kostnaður notanda flutningskerfisins er reiknaður út frá gjaldskrá Landsnets á grundvelli fyrrnefnds uppgjörs.

4. Rafræn samskipti

4.1 Skilmáli B.7 um mæligögn, notkunarferla og notkunarferlauppgjör gildir um auðkenni mælistaða, mæli- og uppgjörsgögn og miðlun uppgjörsgagna

5. Skyldur Landsnets

5.1 Landsnet ber ábyrgð á mælingu raforku inn á og út af flutningskerfinu en í því felst meðal annars skylda til að annast uppsetningu, rekstur og viðhald mælibúnaðar, söfnun, leiðréttingu, staðfestingu og vistun mæligagna auk dreifingar mæligagna til viðkomandi aðila.
5.2 Landsnet annast uppgjör jöfnunarorku skv. skilmála B.3 um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.
5.3 Landsnet annast notkunarferlauppgjör skv. skilmála B.7 um mæligögn, notkunarferil og notkunarferilsuppgjör.
5.4 Landsnet annast flutningsuppgjör skv. kafla 10 í þessum skilmála.

6. Skyldur dreifiveitna

6.1 Dreifiveita ber ábyrgð á mælingu raforku á dreifiveitusvæði sínu.
6.2 Vísað er til skilmála B.7 um söfnun og miðlun gagna og til skilmála B.6 um samskipti aðila með gögn.
6.3 Vísað er til reglurgerðar 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar.

7. Skyldur stórnotenda

7.1 Vísað er til ákvæða um skyldur stórnotenda í skilmála B.4 um afhendingu rafmagns til stórnotenda.
7.2 Vísað er til skilmála B.7 um söfnun og miðlun gagna og til skilmála B.6 um samskipti aðila með gögn.

8. Skyldur sölufyrirtækja og vinnslufyrirtækja

8.1 Vísað er til skilmála A.1 kafla 4 Réttindi og skyldur viðskiptavina Landsnets.
8.2 Vísað er til skilmála B.7 um söfnun og miðlun gagna og til skilmála B.6 um samskipti aðila með gögn.
8.3 Vísað er til reglugerðar 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar

9. Mælingar og mælibúnaður

9.1 Landsnet ber ábyrgð á mælingu raforku inn á og út af flutningskerfinu samanber grein 5.1.
9.2 Landsnet skal tryggja að mælabúnaður í flutningskerfinu sem notaður er til uppgjörs á raforku uppfylli kröfur reglugerðar nr. 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar.
9.3 Landsnet heldur skrá yfir mælibúnað sem notaður er til uppgjörs sem og prófunarvottorð. Viðskiptavinir geta óskað eftir gögnum og farið fram á prófanir ef rökstuddur grunur liggur fyrir um ranga mælingu.
9.4 Vinna sem hefur áhrif á mæliniðurstöður er skráð.
9.5 Landsnet ber ábyrgð á kvörðun og eftirliti raforkumæla.
9.6 Leiðréttingar á mæligögnum eru skráðar og rekjanlegar.
9.7 Mælistaður skal vera sá staður í flutningskerfinu sem tilgreindur er sem afhendingarstaður í viðkomandi tengisamningi. Nota má tímabundið annan mælistað en skilgreindur er í tengisamningi, ef hluti mælibúnaðar er ekki til staðar svo sem straum- og/eða spennuspennar.
9.8 Landsnet skal hafa greiðan aðgang að mælibúnaði. Óheimilt er að eiga við mælibúnað, nema í samráði við sölumælingar hjá Landsneti.
9.9 Þegar stórnotandi fær afhent í gegnum dreifiveitu skal mælingum háttað skv. skilmála B9 fyrir stórnotendur á lægri spennu en 132 kV.
 

10. Uppgjör flutnings, kerfisþjónustu og flutningstapa

10.1 Landsnet annast uppgjör fyrir flutning á raforku, kerfisþjónustu og töp í flutningskerfinu skv. gjaldskrá Landsnets.
10.2 Uppgjörið er framkvæmt mánaðarlega, í upphafi mánaðar þegar gögn liggja fyrir um nýliðinn mánuð sem er til uppgjörs.
10.3 Í upphafi árs eru afltoppar áætlaðir fyrir flutningsuppgjör komandi árs.
10.4 Í upphafi árs er unnið lokauppgjör fyrir liðið ár þar sem meðal annars mánaðarleg uppgjör eru yfirfarin, árs afltoppur til innheimtu reiknaður og leiðrétt er fyrir áætluðum árs afltoppum.
10.5 Ársuppgjörið skal liggja fyrir 15. janúar.
10.6 Heimilt er að lagfæra uppgjör vegna mæliskekkju eða villu í uppgjöri.

11. Uppgjör jöfnunarorku

11.1 Landsnet annast uppgjör jöfnunarorku sem er unnið eins og lýst er í skilmála B.3 um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.
11.2 Uppgjörið er framkvæmt mánaðarlega, í upphafi mánaðar fyrir nýliðinn mánuð. Við uppgjör jöfnunarorku er notast við áætlaða notkunarferlaafhendingu sem fæst út frá áætluðum hlutfallstölum jöfnunarábyrgðaraðila.
11.3 Heimilt er að gera breytingar á mæliröðum sem snerta jöfnunarorkuuppgjör 6 mánuði aftur í tímann. Ef breytingar eru gerðar á mæliröðum sem snerta jöfnunarorkuuppgjör þá er gerð leiðrétting á uppgjörinu.

12. Uppgjör notkunarferla

12.1 Uppgjörið er mánaðarlegt uppgjör á notkunarferilsafhendingu jöfnunarábyrgðaraðila 15 mánuðum eftir afhendingarmánuð. Þá á endanleg hlutfallstala að liggja fyrir sem er hlutur (kWh) jöfnunarábyrðaraðila í notkunarferli hvers notkunarferilssvæðis. Er endanlega hlutfallstalan reiknuð út frá mældri (álesinni) lotudreifðri notkun í mælistöðum sem jöfnunarábyrgðaraðili ber ábyrgð á sölu til.
12.2 Uppgjörsorka notkunarferla fyrir hvern jöfnunarábyrgðaraðila er mismunur endanlegrar og áætlaðrar notkunarferilsafhendingar. Við notkunarferlauppgjör er notast við uppgjörsorkuverð notkunarferla sem er meðalverð jöfnunarorku í þeim mánuði sem er til uppgjörs.

13. Greiðsluskilmálar

13.1 Greiðslur fyrir þjónustu Landsnets skulu inntar af hendi mánaðarlega í samræmi við uppgjör sem lýst er í greinum 10.1 til 10.3.
13.2 Nánar er fjallað um greiðsluskilmála Landsnets í gr. 6 í skilmála A.1 um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.

14. Ábyrgð

14.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi ábyrgð skulu einnig gilda hér.

15. Óviðráðanleg atvik

15.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi óviðráðanleg öfl skulu einnig gilda hér.

16. Brot á skilmálum

16.1 Heimilt er að óska eftir því að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga ef brotið er gegn skilmálum þessum.

17. Eftirlit og úrræði

17.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi samkvæmt raforkulögum og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.
17.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnetsskulu aðilar leitast við að leysa þann ágreining.
17.3 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Úrskurði úrskurðarnefndar má vísa til dómstóla skv. 30 gr. VII. kafla raforkulaga.
17.4 Heyri úrlausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

18. Tilvísanir

18.1 Almennir skilmálar A.1 um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.
18.2 B.3 Skilmálar um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.
18.3 B.4 Skilmálar um afhendingu rafmagns til stórnotenda.
18.4 B.6 Skilmálar um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.
18.5 B.7 Skilmálar um mæligögn, notkunarferla og notkunarferlauppgjör.
18.6 B.9 Skilmálar um afhendingu rafmagns til stórnotenda á lægri spennu en 132 kV.