C.5 Skilmálar um skerðingar og skömmtun rafmagns

Útgáfa 1.0 gefin út 01.01.2010

1.     Inngangur

1.1       Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum, og reglugerðum nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu og nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi með síðari breytingum.

1.2       Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra sbr. 6 mgr. 9. gr. raforkulaga.

2.     Skilgreiningar  

Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:

2.1       Bilun er það ástand þegar eining í raforkukerfinu fer úr rekstri eða hefur takmarkaða getu til að sinna hlutverki sínu.

2.2       Flutningskerfi er raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum. Það nær frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana sem tengjast því, sbr. 3. mgr. 5. gr. raforkulaga, að háspennuhlið aðveituspenna stórnotenda eða dreifiveitna.

2.3       Jöfnunarorkuverð er markaðsverð á jöfnunarorku. Öll frávik frá áætlun eru gerð upp á jöfnunarorkuverði. Jöfnunarorkuverð er fast fyrir hverja klukkustund.

2.4       Kerfisöngur (flöskuháls) eru þær aðstæður þegar flutningsgeta flutningsvirkis eða hluta flutningskerfis er ófullnægjandi, þannig að takmarka þurfi orkuflutning.

2.5      Ótryggt rafmagn á við raforkunotkun sem Landsneti er heimilt að láta skerða samkvæmt skilmálum viðkomandi vinnslufyrirtækis um sölu ótryggðs rafmagns.

2.6       Reglunarafl er það afl sem Landsnet nýtir til að jafna frávik milli áætlaðrar og raunverulegrar heildaraflnotkunar í raforkukerfinu.

2.7      Reglunaraflsmarkaður er innkaupsmarkaður Landsnets fyrir reglunarafl.

2.8       Reglunaraflstrygging nefnist það þegar Landsnet gerir samning við vinnslufyrirtæki um að það bjóði yfir ákveðin tímabil ákveðið lágmark reglunarafls innan tilgreindra afl- og verðmarka á reglunaraflsmarkaðnum. Reglunaraflstrygging tryggir lágmarks framboð á reglunaraflsmarkaði.

2.9       Reiðuafl á við um það afl sem vinnslueining með sjálfvirkri tíðnireglun getur framleitt til viðbótar án fyrirvara. Reiðuaflið er skilgreint við 50 Hz tíðni og á við um vinnslueiningar sem framleiða raunafl inn á net þá stundina.

2.10    Rekstrartruflun er sjálfvirk útleysing, handvirkt rof sem ekki er áætlað eða misheppnuð innsetning eftir bilun í raforkukerfinu.

2.11    Skerðanlegur flutningur á við raforkunotkun sem Landsneti er heimilt að láta skerða vegna þeirra tilvika sem tilgreind eru í gr. 5.1 í skilmálum um skerðanlegan flutning.  Skömmtun skv. 9. mgr. 9 gr. raforkulaga er hér undanþegin.

2.12    Skerðing er rof eða tímabundin takmörkun á raforkuafhendingu til notanda og er hún annað hvort sjálfvirk eða handvirk. Sérstakur búnaður í raforkukerfinu veldur sjálfvirkri skerðingu fari tíðni eða spenna undir viss mörk eða vegna álagstakmarkana. Handvirk skerðing er framkvæmd af Landsneti eða af dreifiveitu hvenær sem Landsnet óskar þess.

2.13    Skömmtun er rof eða tímabundin takmörkun á raforkuafhendingu til notanda vegna ófyrirséðra og óviðráðanlegra atvika sbr. 9 mgr. 9. gr. raforkulaga.

2.14    Stórnotandi er notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma 8000 stundir eða meira.

2.15    Tímabundnar flutningstakmarkanir eru kerfisöngur sem hafa ekki verið skilgreindar sem varanlegar flutningstakmarkanir og eru ekki afleiðing rekstartruflana.

2.16    Uppreglun á við þörf fyrir jákvætt reglunarafl, þ.e. það afl sem þarf að bæta inn á kerfið þegar raunnotkun er meiri en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.

2.17    Varaafl á við aflgetu tiltækrar virkjunar, sem ekki er fösuð við raforkukerfið,  en hægt er að ræsa, fasa við kerfið og nýta að fullu innan ákveðinna tímamarka eftir að beiðni er send.

2.18    Varanlegar flutningstakmarkanir eru kerfisöngur sem er viðvarandi á ákveðnum stað af kerfislegum ástæðum og eru ekki afleiðing rekstrartruflana.

2.19    Vinnsluáætlun vinnslufyrirtækis skal innihalda tölulegar upplýsingar um fyrirhugaða framleiðslu þeirra virkjana þess sem hafa 7 MW aflgetu eða meira. Vinnsluáætlun er gerð fyrir einn dag í senn, klukkustund fyrir klukkustund.

2.20    Vinnslufyrirtæki er fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.

2.21    Umframeftirspurn á við það ástand flutningskerfisins þegar samanlögð framleiðsla, samkvæmt vinnsluáætlunum, að viðbættu því afli sem boðið er á reglunaraflsmarkaði, er lægra en raunveruleg heildarnotkun.  

3.     Almennt

3.1       Landsnet sinnir lögboðinni skyldu sinni að tryggja öruggan rekstur og stöðugleika flutningskerfis meðal annars með því að setja reglur um skömmtun sbr. 9 mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum og sbr. 4., 5., og 6. gr. reglugerðar nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu. Í ljósi lögbundinna skyldna Landsnets er því nauðsynlegt að skerða og skammta rafmagn við ákveðnar kringumstæður eins og nánar er kveðið á um í skilmálum þessum.

3.2       Aðgerðir Landsnets er lúta að skerðingum og skömmtun eru einkum vegna (i) aflskorts eftir truflanir í flutningskerfinu, (ii) aflskorts eftir truflanir í vinnslukerfinu og vegna umframeftirspurnar og (iii) svæðisbundinna takmarkana á flutningsgetu.

3.3       Landsnet setur upp undirtíðni- og undirspennuvarnir til að tryggja öruggan rekstur flutningskerfisins. Varnir þessar valda sjálfvirkri skerðingu álags hjá viðskiptavinum við ákveðnar kerfislegar aðstæður. Reglur þar að lútandi eru teknar fyrir í kafla 7 í skilmálum þessum. 

4.     Skerðing og skömmtun vegna aflskorts eftir truflanir í flutningskerfi

4.1       Landsnet hefur eftirfarandi heimildir til að mæta aflskorti eftir truflanir í flutningskerfinu og þeim er beitt í þessari röð:

(1)    Skerðing á ótryggðu rafmagni og á skerðanlegum flutningi og nýting skerðingarheimilda hjá stórnotendum, sbr. gr. 4.2.

(2)    Nýting reglunarafls, sbr. gr. 4.3.

(3)    Hámörkun framleiðslu hjá vinnslufyrirtækjum, sbr. gr. 4.4.

(4)    Framleiðsla með varaafli, sbr. skilmála C.3 um öflun og uppgjör vegna varaafls.

(5)    Skömmtun, sbr. gr. 4.5.

4.2       Skerðing á ótryggðu rafmagni og skerðanlegum flutningi er í samræmi við skilmála viðkomandi vinnslufyrirtækis og skilmála B.5 um skerðanlegan flutning. Skerðingar hjá stórnotendum eru í samræmi við samninga.

4.3       Nýting reglunarafls vegna truflana í flutningskerfi eða vinnslukerfi er skv. skilmálum B.3 um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.

4.4       Vinnslufyrirtæki skulu hámarka framleiðslu sína, óski Landsnet eftir því vegna truflana í flutningskerfi. Þau frávik frá áætlunum, sem verða vegna þessa, eru gerð upp á því jöfnunarorkuverði sem er í gildi hverju sinni. 

4.5       Komi til þess að Landsnet þurfi að skammta skal leitast við að gera það hlutfallslega jafnt hjá öllum viðskiptavinum svo fremi, að kerfisöngur komi ekki í veg fyrir það. Viðkomandi viðskiptavinum er skylt að bregðast við beiðni Landsnets um skömmtun án tafar. Leitast skal við að tryggja raforku til þeirra fyrirtækja og stofnana sem veita almenningi bráðaþjónustu og tryggja öryggi borgara og allsherjarreglu.

5.       Skerðing og skömmtun vegna aflskorts eftir truflanir í virkjunum og vegna umframeftirspurnar

5.1       Landsnet hefur eftirfarandi heimildir til að mæta aflskorti eftir truflanir í virkjunum og vegna umframeftirspurnar. Heimildunum er beitt í þessari röð:

(1)    Nýting reglunarafls, sbr. gr. 4.3.

(2)    Skerðing á ótryggðu rafmagni og skerðanlegum flutningi og nýting skerðingarheimilda hjá stórnotendum, sbr. gr. 4.2.

(3)    Framleiðsla með varaafli, sbr. skilmála C.3 um öflun og uppgjör vegna varaafls.

(4)    Hámörkun framleiðslu hjá vinnslufyrirtækjum, sbr. gr. 4.4.

(5)    Skömmtun, sbr. gr. 4.5.

6.     Skerðing vegna takmarkana á flutningsgetu

6.1       Skerðingar vegna takmarkana á flutningsgetu eru í samræmi við skilmála C.6 Skilmálar um flutningstakmarkanir.

7.     Skerðing vegna undirtíðni- og undirspennu

7.1       Landsnet gerir samkomulag um útfærslu við stórnotendur og dreifiveitur vegna undirtíðni- og undirspennuvarna. Í slíku samkomulagi felst að sjálfvirkur búnaður skerði afhendingu til viðkomandi stórnotenda eða dreifiveitu þegar ákveðnum tíðni- eða spennumörkum er náð.

7.2       Komi til skerðingar vegna undirtíðni- eða undirspennuvarna skal Landsnet leitast við að aflétta skerðingu eins fljótt og mögulegt er.

8.     Upplýsingaskylda Landsnets vegna skerðingar og skömmtunar

8.1       Grípi Landsnet til skerðinga og/eða skömmtunar skal það upplýsa viðkomandi viðskiptavini svo fljótt sem auðið er. Koma skal fram tímabil skömmtunar/skerðingar og áætlað umfang.

8.2       Landsnet skal gefa viðskiptavinum sínum skýringar á skömmtun og/eða skerðingu ekki síðar en næsta virka dag eftir upphaf skömmtunar/skerðingar.

8.3       Auk þessa 8. kafla gildir 5. gr. skilmála B.5 um upplýsingaskyldu vegna skerðingar skerðanlegs flutnings.

9.     Ábyrgð

9.1       Að því er varðar dreifiveitur skulu ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi ábyrgð gilda um þessa skilmála.

9.2       Að því er varðar stórnotendur skulu ákvæði viðkomandi samninga gilda um ábyrgð.

10. Óviðráðanleg öfl

10.1    Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi óviðráðanleg öfl skulu einnig gilda um þessa skilmála.

11. Brot á skilmálum

11.1    Heimilt er að óska eftir því að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga ef brotið er gegn skilmálum þessum.

12. Eftirlit og úrræði

12.1    Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.

12.2    Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða þessara skilmála skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Verði ágreiningi ekki skotið til Orkustofnunar má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

13. Tilvísanir

13.1    A.1 Almennir skilmálar um flutning raforku og kerfisstjórnun.

13.2    B.3 Skilmálar um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.

13.3    B.5 Skilmálar um skerðanlegan flutning.

13.4    C.3 Skilmálar um öflun og uppgjör vegna varaafls.

13.5    C.6 Skilmálar um flutningstakmarkanir.