B.5 Skilmálar um skerðanlegan flutning
Útgáfa 3.0 gefin út 01.10.2013
1. Inngangur
1.1 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum og reglugerðum nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga með síðari breytingum, nr. 513/2003 um kerfisstjórnun, nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar, og nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi.
1.2 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra sbr. 6 mgr. 9. gr raforkulaga.
1.3 Skilmálar þessir eiga aðeins við samningsbundnar skerðingarheimildir Landsnets hjá dreifiveitum og eru þá skerðingar skv. 9. mgr. 9 gr. raforkulaga undanþegnar.
2. Skilgreiningar
Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:
2.1 Almennur notandi er sá sem kaupir raforku til eigin nota, en er ekki stórnotandi.
2.2 Dreifiveita er fyrirtæki sem hefur leyfi til dreifingar raforku á afmörkuðu svæði.
2.3 Kerfisöngur (flöskuhálsar) eru þær aðstæður þegar flutningsgeta flutningsvirkis eða hluta flutningskerfis er ófullnægjandi, þannig að takmarka þurfi orkuflutning.
2.4 (N-1)-afhending á við það að rof á stakri einingu í flutningskerfi veldur ekki takmörkun á afhendingu eða afhendingarrofi á viðkomandi afhendingarstað.
2.5 Ótryggt rafmagn á við raforkunotkun sem vinnslufyrirtæki er heimilt að skerða samkvæmt skilmálum viðkomandi fyrirtækis um sölu ótryggðs rafmagns.
2.6 Skerðanlegur flutningur á við raforkunotkun sem Landsneti er heimilt að láta skerða vegna þeirra tilvika sem tilgreind eru í gr. 5.1. Skerðingar og skömmtun skv. 9. mgr. 9 gr. raforkulaga eru hér undanþegnar.
2.7 Raforkuver/virkjun er mannvirki sem notað er til vinnslu raforku. Tvær eða fleiri einingar sem mynda eðlilega heild og tengjast flutningskerfinu eða dreifikerfi gegnum sameiginleg tengivirki teljast ein virkjun.
2.8 Rekstrartruflun er sjálfvirk útleysing, handvirkt rof sem ekki er áætlað eða misheppnuð innsetning eftir bilun í raforkukerfinu.
2.9 Rekstrartruflun virkjana á við um að virkjun sé óvænt ótiltæk, að öllu leiti eða að hluta.
2.10 Skerðing er rof eða tímabundin takmörkun á skerðanlegum flutningi til notanda og er hún annað hvort sjálfvirk eða handvirk. Sérstakur búnaður í raforkukerfinu veldur sjálfvirkri skerðingu fari tíðni eða spenna undir viss mörk eða vegna álagstakmarkana. Handvirk skerðing er framkvæmd af Landsneti eða af dreifiveitu hvenær sem Landsnet óskar þess.
2.11 Skerðingartími er sá tími sem skerðing stendur yfir og telst upphaf hans frá þeim tíma, sem Landsnet sendir út boð um skerðingu. Skerðingartíma telst lokið um leið og Landsnet hefur tilkynnt um að skerðingu sé aflétt.
2.12 Tímabundnar flutningstakmarkanir eru kerfisöngur sem hafa ekki verið skilgreindar sem varanlegar flutningstakmarkanir og eru ekki afleiðing rekstartruflana.
2.13 Varanlegar flutningstakmarkanir eru kerfisöngur sem eru viðvarandi á ákveðnum stað af kerfislegum ástæðum og eru ekki afleiðing rekstrartruflana.
3. Almennt
3.1 Landsnet sinnir lögboðinni skyldu sinni um að tryggja öryggi og gæði við raforkuafhendingu, meðal annars með samningum um skerðanlegan flutning, en slíkir samningar gera Landsneti kleift að nýta flutningskerfið betur en ella.
3.2 Dreifiveita skal gera samning við Landsnet um skerðanlegan flutning. Í viðauka samningsins skulu taldir upp notendur skerðanlegs flutnings hjá viðkomandi dreifiveitu og skal hver og einn þeirra vera samþykktur af Landsneti. Dreifiveita skal gera samning við viðkomandi notendur. Landsnet samþykkir notanda skerðanlegs flutnings að uppfylltu öðru hvoru eftirfarandi skilyrða. Notandi er samþykktur annars vegar ef flutningskerfið getur ekki afhent honum raforkuna í óskertu kerfi eða hins vegar að skerðing hjá notanda getur aukið rekstraröryggi flutningskerfisins. Komi til þess að notanda sé hafnað vegna skerðanlegs flutnings skal Landsnet rökstyðja þá ákvörðun.
3.3 Samningur notanda við dreifiveitu vegna skerðanlegrar dreifingar skal liggja fyrir, áður en dreifiveita semur um skerðanlegan flutning fyrir hann við Landsnet, sem veitir dreifiveitu þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna samningsgerðarinnar.
3.4 Allar breytingar á samningi Landsnets og dreifiveitu um skerðanlegan flutning og viðauka eru háðar samþykki Landsnets. Óski skerðanlegur notandi dreifiveitu eftir því að fara út af lista dreifiveitu yfir skerðanlega notendur í samningi Landsnets við dreifiveitu og yfir á almenna gjaldskrá þarf dreifiveita sérstaklega að semja um tímasetningu.
4. Skyldur dreifiveitna
4.1 Dreifiveita skal hafa tengisamning við Landsnet.
4.2 Málafl þess búnaðar, sem settur er upp vegna úttektar hjá notanda skerðanlegs flutnings á einum stað, skal vera að minnsta kosti 1 MW.
4.3 Kröfur til mælibúnaðar og meðferðar mæli- og uppgjörsgagna fyrir skerðanlegan flutning eru þær sömu og gilda fyrir afhendingu raforku almennt, þ.e.a.s. í samræmi við reglugerð nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum og skilmála B6 um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.
4.4 Dreifiveita ábyrgist að rofabúnaður til rofs á afhendingu skerðanlegs flutnings sé tengdur álagsstýrikerfi eða fjarstýrikerfi dreifiveitunnar, eða á annan þann hátt, sem Landsnet telur fullnægjandi, og að tryggt sé að orkuafhending verði skert þegar Landsnet óskar. Ekki er heimilt að tengja búnað sem fær skerðanlegan flutning á annan hátt við rafdreifikerfi en um fyrrnefndan rofabúnað.
4.5 Landsnet tekur ákvörðun um hvenær skerðing á sér stað sbr. gr. 5.1. Landsnet sér um framkvæmd skerðingar eða dreifiveita samkvæmt fyrirmælum Landsnets.
4.6 Landsnet mun aðvara dreifiveitu með þeim fyrirvara, sem við verður komið hverju sinni, þegar ætla má, að skerðing eða rof sé yfirvofandi og upplýsa eftir því sem unnt er hvað gera megi ráð fyrir að skerðingin eða rofið verði víðtækt eða langvinnt. Fyrirvarinn skal ekki vera skemmri en tvær klukkustundir, ef mögulegt er.
4.7 Óski Landsnet þess skal dreifiveita tryggja að búnaður til skerðingar, ásamt tengingu við orkustjórnkerfi Landsnets sé til staðar hjá notanda skerðanlegs flutnings.
4.8 Óski Landsnet þess skal dreifiveita tryggja að búnaður til sjálfvirkra skerðinga vegna undirtíðni og undirspennu sé til staðar hjá notendum skerðanlegs flutnings. Landsnet ákveður í samráði við viðkomandi dreifiveitu stillingar búnaðarins.
4.9 Eftir að dreifiveita fær fyrirmæli um að skerða, skal hún staðfesta svo fljótt sem hægt er til Landsnets að skerðing hafi verið framkvæmd og upplýsa um heildarafl skerðingarinnar.
5. Heimildir og skyldur Landsnets
5.1 Landsnet hefur heimild til að skerða þegar um er að ræða:
• Nauðsynlegar afltakmarkanir til að koma í veg fyrir yfirálag
• rekstrartruflanir í flutningskerfinu
• fyrirbyggjandi ráðstafanir vegna rekstraröryggis flutningskerfisins
• tímabundinn aflskort vegna rekstrartruflana í virkjunum
• tímabundnar flutningstakmarkanir
• viðhald í flutningskerfinu
• reglubundnar prófanir eða
• önnur tilvik þar sem skerðing er nauðsynleg til að tryggja öruggan rekstur raforkukerfisins.
Skerðing vegna rekstrartruflana í virkjunum skal vera eins stutt og kostur er og aldrei lengri en 24 klukkustundir í hverju tilfelli.
5.2 Landsnet mun tilkynna dreifiveitu og öðrum viðskiptavinum Landsnets sem þess óska með þeim fyrirvara sem við verður komið hverju sinni, um yfirvofandi skerðingu og upplýsa um væntanlegt umfang og tímalengd hennar eftir því sem unnt er.
5.3 Landsnet mun birta á heimasíðu sinni með þeim fyrirvara, sem við verður komið hverju sinni, upplýsingar um skerðingar, þar sem fram kemur um hvaða dreifiveitu og landssvæði er að ræða, væntanlegt umfang og tímalengd skerðingar.
6. Gjaldskrá fyrir skerðanlegan flutning
6.1 Flutningsgjald á skerðanlegum flutningi er samkvæmt gjaldskrá Landsnets.
7. Ábyrgð
7.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi ábyrgð skulu einnig gilda um skilmála þessa.
7.2 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnunar varðandi ”force majeure” skulu einnig gilda um skilmála þessa.
8. Brot á skilmálum
8.1 Ef annar hvor samningsaðilinn vanrækir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum eða samningi um skerðanlegan flutning og vanefnd telst veruleg, er gagnaðilanum heimilt að rifta samningi um skerðanlegan flutning, eða óska eftir að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. kafla raforkulaga.
8.2 Sé sýnt að notandi skerðanlegs flutnings hafi ekki verið skertur þó svo að Landsnet hafi farið fram á það, þá verður innheimt af viðkomandi dreifiveitu tvöfalt aflgjald vegna viðkomandi notanda skerðanlegs flutnings, fyrir þann mánuð sem skerðingin átti að fara fram. Endurtaki slíkt tilvik sig mun skerðanlegur flutningur ekki bjóðast viðkomandi notanda lengur og skal viðauka samnings viðkomandi dreifiveitu breytt í samræmi við það.
9. Eftirlit og úrræði
9.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi samkvæmt lögum nr. 65/2003 og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.
9.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða þessara skilmála skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Verði ágreiningi ekki skotið til Orkustofnunar má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.
10. Tilvísanir og viðaukar
10.1 Samningur um skerðanlegan flutning.
10.2 A.1 Almennir skilmálar um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.
10.3 B.6 Skilmálar um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.