Skilmáli um rof og vinnu í flutningskerfinu
 

Útgáfa 1.0 gefin út 01.03.2010 

1. Inngangur

1.1 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum og reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga með síðari breytingum, reglugerð nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum, og reglugerð nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu.

1.2 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra sbr. 6 mgr. 9. gr raforkulaga.

2. Skilgreiningar

Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:

2.1 Ársáætlun er áætlun Landsnets um rof og vinnu í raforkukerfinu sem gerð er árlega og gildir til eins árs í senn.

2.2 Dreifiveita er fyrirtæki sem hefur leyfi til dreifingar raforku á afmörkuðum svæðum.

2.3 Flutningskerfi er raflínur og mannvirki þeim tengd, sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum, sem taldir eru upp í viðauka raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum.

2.4 Rof og vinna er gagnagrunnur í umsjá Landsnets, þar sem haldið er utan um skipulagsferli fyrir rof og vinnu í flutningskerfi Landsnets og rekstrareiningum tengdum því.

2.5 Kunnáttumaður er maður sem hlotið hefur þjálfun til að gegna tilteknu hlutverki þegar unnið er við háspennubúnað fyrirtækis samkvæmt öryggisstjórnunarkerfi þess.

2.6 Raforkukerfi er allur sá búnaður sem notaður er við vinnslu, flutning og dreifingu raforku og myndar starfræna heild.

2.7 Raforkuver/Virkjun er mannvirki sem notað er til vinnslu raforku. Tvær eða fleiri einingar sem mynda eðlilega heild og tengjast flutningskerfinu eða dreifikerfi gegnum sameiginleg tengivirki eða teljast ein virkjun.

2.8 Rekstrareining er eining í flutningskerfinu eða búnaður sem tengist flutningskerfinu beint. Hér er átt við búnað þar sem rof veldur röskun á flutningi raforku. Um er að ræða vinnslueiningar, spenna, tengivirki, línur, varnarbúnað, hjálparbúnað og stjórnbúnað.

2.9 Rekstrartruflun er sjálfvirk útleysing, handvirkt rof sem ekki er áætlað eða misheppnuð innsetning eftir bilun í raforkukerfinu.

2.10 Skipulagt rof er það þegar rekstrareining samkvæmt áætlun er gerð ótiltæk til rekstrar eða vinnslugeta virkjunar er skert. Enn fremur er vinna við rekstrareiningar eða búnað þeim tengdum skilgreind sem skipulagt rof, sé hún þess eðlis að hætta sé á að hún valdi rekstratruflunum, þó svo að ekki þurfi að rjúfa viðkomandi rekstrareiningar frá raforkukerfinu eða gera þær ótiltækar meðan vinna á sér stað.

2.11 Umsækjandi um rof er maður sem hefur umboð til að sækja um rof rekstrareiningar hjá fyrirtæki samkvæmt öryggisstjórnunarkerfi þess.

2.12 Vikuáætlun er áætlun um skipulagt rof í flutningskerfi Landsnets og rekstrareiningum tengdum því fyrir tiltekna viku.

2.13 Vinnslueining er sjálfstæð eining til raforkuframleiðslu innan virkjunar, þ.e. rafali, hverfill og hjálparbúnaður.

2.14 Vinnslufyrirtæki er fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.

2.15 Viðskiptavinir eru þeir sem hafa samskipti við Landsnet vegna skilmála þessara. Þetta eru vinnslufyrirtæki, dreifiveitur og stórnotendur.

3. Almennt

3.1 Tilgangurinn með skilmálum þessum er að setja reglur um skipulögð rof sem hafa áhrif á rekstur flutningskerfisins í samræmi við reglugerð nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu.

3.2 Áætlanir um skipulögð rof í flutningskerfinu og rof vinnslueininga í virkjunum stærri en 7 MW, ber að tilkynna til Landsnets. Enn fremur áætlanir um skipulögð rof í dreifikerfi þar sem rof veldur röskun á flutningi raforku.

3.3 Beiðnir og tilkynningar um skipulögð rof eru vistaðar í gagnagrunninum “Rof og vinna”. Aðgengi viðskiptavina að grunninum er um vefsíðu Landsnets.

3.4 Öll framkvæmd samkvæmt skilmálum þessum skal unnin í samræmi við rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi viðkomandi fyrirtækis.

3.5 Listi yfir kunnáttumenn og umsækjendur um rof hjá viðskiptavinum Landsnets skal sendur Landsneti þegar upplýsingar vegna ársáætlunar eru látnar í té og oftar, verði breytingar á.

4. Áætlanagerð

4.1 Landsnet gerir áætlun um skipulögð rof í flutningskerfinu og rekstrareiningum tengdum því, árlega og vikulega. Breytingar frá áætlunum eru færðar jafnóðum inn í „Rof og vinnu“.

4.2 Árlega gerir Landsnet áætlun um skipulögð rof í flutningskerfinu og rekstrareiningum tengdum því. Fyrir 1. febrúar ár hvert skulu viðskiptavinir senda Landsneti óskir sínar um skipulögð rof á tímabilinu frá 1. mars sama ár til síðasta dags febrúarmánaðar árið eftir. Taka skal fram um hvaða rekstrareiningar er að ræða og áætlaðan upphafs- og lokatíma rofs. 1. mars ár hvert gefur Landsnet út ársáætlun um skipulögð rof í flutningskerfinu og rekstrareiningum tengdum því fyrir ofangreint tímabil.

4.3 Vikulega gefur Landsnet út áætlun fyrir skipulögð rof í flutningskerfinu og rekstrareiningum tengdum því fyrir komandi 2 vikur. Áætlunin er birt á vefsíðu Landsnets.

4.4 Samhliða gerð ársáætlunar samkvæmt gr. 4.2 tekur Landsnet saman yfirlit yfir einingar sem eru áætlaðar úr rekstri næstu tvö ár á eftir. Viðskiptavinir skulu láta Landsneti í té upplýsingar um fyrirhugað viðhald rekstrareininga á þeim árum þegar þær áætlanir eru tilbúnar. Skal það gert fyrir 1. febrúar ár hvert.

5. Beiðnaferli

5.1 Umsækjandi um rof sækir um skipulagt rof með rafrænum hætti í „Rofi og vinnu“ á heimasíðu Landsnets.

5.2 Beiðnir umsækjenda um skipulögð rof, sem ekki eru á ársáætlun, þurfa að berast a.m.k. einni viku fyrir rof. Í undantekningartilvikum getur Landsnet samþykkt rof með skemmri fyrirvara.

5.3 Í beiðni umsækjanda skal tilgreina hvaða rekstrareiningu á að taka úr rekstri og/eða vinna við, upphafstíma verks og lokatíma, einnig skal gefa stutta lýsingu á verki. Umsækjandi um rof gerir áhættumat, sem er mat á líkum þess að aðgerð valdi truflun eða útleysingu á rekstrareiningum, og skráir í umsókn.

5.4 Landsnet skal afgreiða beiðnir um rof minnst einni viku fyrir upphaf rofs. Berist beiðni með skemmri fyrirvara en einni viku fyrir rof skal afgreiða hana eigi síðar en á næsta virkum degi eftir að beiðni berst.

6. Samræming rofs

6.1 Landsnet samræmir áætlanir um rof rekstrareininga. Á grundvelli athugana á rekstri raforkukerfisins tekur Landsnet ákvörðun um hvort beiðni er hafnað, samþykkt óbreytt eða með breyttum tíma í samráði við viðskiptavini. 

6.2 Við samræmingu á rofi vinnslueininga er meðal annars gengið úr skugga um, að öryggi í rekstri raforkukerfisins sé fullnægjandi. Landsnet mun leitast við að komast að samkomulagi við vinnslufyrirtæki um samræmingu á rofi. Ef ekki næst sameiginleg niðurstaða tekur Landsnet ákvörðun. Almennt skal sá sem biður fyrst um rof hafa forgang.

7. Undirbúningur og framkvæmd rofs

7.1 Viðskiptavinur tilnefnir rofastjóra vegna rofs einingar, sem tengist flutningskerfinu. Hann lætur útbúa gátlista fyrir rofastjórann og sendir Landsneti minnst þremur virkum dögum fyrir rof. Landsnet tilnefnir rofastjóra fyrir rof í flutningskerfinu og lætur gera gátlista fyrir hann.

7.2 Landsnet tilnefnir aðgerðastjóra vegna rofs einingar sem tengist flutningskerfinu og rofs í flutningskerfinu. Landsnet lætur gera gátlista fyrir aðgerðastjóra og tekur þá mið af gátlistum rofastjóra. Aðgerðastjóri vegna rofs í dreifikerfi er tilnefndur af dreifiveitu í samráði við Landsnet.

7.3 Aðgerðastjóri stjórnar rofi í flutningskerfinu og rofi einingar sem tengist flutningskerfinu. Hann gefur heimild til vinnu að því loknu og að lokinni vinnu tilkynnir hann um lok hennar Aðgerðastjóri stjórnar innsetningu og tilkynnir um framkvæmd hennar.

7.4 Tetra kerfi skal nota til samskipta við rof í flutningskerfinu þar sem skilyrði til þess eru fyrir hendi.

7.5 Landsnet samræmir verklag við undirbúning og framkvæmd rofs, gerist þess þörf.

8. Breytingar á tímasetningu rofs

8.1 Landsneti er heimilt fyrirvaralaust að fresta eða hætta við áður áætlað rof, sé það mat Landsnets, að rofið geti hætt öryggi raforkukerfisins.

8.2 Landsneti er heimilt að fresta eða hætta við áður áætlað rof fyrirvaralaust ef sérstakar óskir koma um það frá viðkomandi viðskiptavini eða aðrar aðstæður koma upp sem gera frestun nauðsynlega.

8.3 Ef ljóst er, að tímalengd áætlaðs rofs verður önnur en áætlað var í upphafi, eða hætt er við áður áætlað rof, skal Landsnet tilkynna það viðkomandi viðskiptavinum. Jafnframt skal Landsnet tilkynna það á vefsíðu sinni ásamt ástæðum breytinga.

8.4 Ef breyta þarf áður áætluðum roftíma skal Landsnet tilkynna það um leið og ákvörðun er tekin.

9. Ábyrgð

9.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi ábyrgð skulu einnig gilda um skipulögð rof í raforkukerfinu.

9.2 Þrátt fyrir ákvæði gr. 9.1 er Landsnet ekki bótaskylt vegna fjárhagslegs tjóns, hvort heldur beint eða óbeint, sem frestun rofs á grundvelli 8. gr. þessara skilmála kann að valda.

10. Óviðráðanleg öfl

10.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning rafmagns og kerfisstjórnun (A1) varðandi óviðráðanleg öfl skulu einnig gilda um rof og vinnu.

11. Brot á skilmálum

11.1 Ef viðskiptavinur eða Landsnet vanrækir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum er heimilt að óska eftir að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga.

12. Eftirlit og úrræði

12.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki sem starfa á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.

12.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða þessara skilmála skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Heyri úrlausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

13. Tilvísanir

13.1 A.1 Almennir skilmálar um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.

13.2 Leiðbeiningar Landsnets fyrir „Rof og vinnu“, birtar á vefsíðu Landsnets