B.3 Skilmálar um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku
Útgáfa 3.0 gefin út 01.05.2009
1. Inngangur
1.1 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum, reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga, reglugerð nr. 513/2003 um kerfisstjórnun, reglugerð nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum og reglugerð nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi.
1.2 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra sbr. 6 mgr. 9. gr raforkulaga.
2. Skilgreiningar
Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:
2.1 Áætluð viðskipti jöfnunarábyrgðaraðila eru áætluð kaup hans frá öðrum jöfnunar-ábyrgðaraðilum að frádreginni áætlaðri sölu hans til annarra jöfnunarábyrgðaraðila samkvæmt jöfnunaráætlun.
2.2 Jöfnunarábyrgðaraðili er aðili sem ábyrgist með skriflegum samningi við Landsnet að jafnvægi sé milli öflunar raforku, þ.e. raforkuframleiðslu og raforkukaupa annars vegar, og ráðstöfunar, þ.e. sölu og notkunar hins vegar.
2.3 Jöfnunarábyrgðarhlutfall er hlutfall tiltekins jöfnunarábyrgðaraðila í sölu til tiltekins notanda, sem kaupir frá fleiri en einum jöfnunarábyrgðaraðila.
2.4 Jöfnunaráætlun hvers jöfnunarábyrgðaraðila skal innihalda tölulegar upplýsingar sem sýna hvernig aðilinn hyggst ná fram jafnvægi í fyrirhuguðum viðskiptum sínum með raforku. Jöfnunaráætlun er gerð fyrir einn dag í senn, klukkustund fyrir klukkustund.
2.5 Jöfnunarorka er mismunur innmataðrar/úttekinnar orku og kaup-/söluskuldbindinga hvers jöfnunarábyrgðaraðila.
2.6 Jöfnunarorkuverð er markaðsverð á jöfnunarorku. Öll frávik frá áætlun eru gerð upp á jöfnunarorkuverði. Jöfnunarorkuverð er fast fyrir hverja klukkustund.
2.7 Niðurreglun á við þörf fyrir neikvætt reglunarafl, þ.e. það afl sem taka þarf út af kerfinu þegar raunnotkun er minni en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.
2.8 Niðurreglunartilboð er annað hvort tilboð vinnslufyrirtækis um minnkun í framleiðslu, eða tilboð sölufyrirtækis um aukningu í notkun. Viðkomandi fyrirtæki greiðir Landsneti fyrir tilboðið ef það er notað.
2.9 Notandi er sá sem kaupir raforku til eigin nota.
2.10 Raunveruleg viðskipti jöfnunarábyrgðaraðila eru mæld notkun hans að frádreginni mældri framleiðslu hans. Þetta á við þá notkun og framleiðslu sem jöfnunarábyrgðaraðilinn er jöfnunarábyrgur fyrir. Gildi samkvæmt notkunarferlum koma í stað mældrar notkunar í þeim tilvikum þar sem mælingar liggja ekki fyrir.
2.11 Reglunarafl er það afl sem Landsnet útvegar til að jafna frávik milli áætlaðrar aflnotkunar og raunverulegrar aflnotkunar í raforkukerfinu í heild.
2.12 Reglunaraflsmarkaður er innkaupsmarkaður Landsnets fyrir reglunarafl.
2.13 Reglunaraflstrygging nefnist það þegar Landsnet gerir samning við vinnslufyrirtæki um að það bjóði yfir ákveðin tímabil ákveðið lágmark reglunarafls innan tilgreindra afl- og verðmarka á reglunaraflsmarkaðnum. Reglunaraflstrygging tryggir lágmarks framboð á reglunaraflsmarkaði.
2.14 Sameiginleg jöfnunarábyrgð nefnist það þegar fleiri en einn jöfnunarábyrgðaraðili bera saman jöfnunarábyrgð á notkun ákveðins viðskiptavinar.
2.15 Sölufyrirtæki er fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu.
2.16 Uppreglun á við þörf fyrir jákvætt reglunarafl, þ.e. það afl sem þarf að bæta inn á kerfið þegar raunnotkun er meiri en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.
2.17 Uppreglunartilboð er annað hvort tilboð vinnslufyrirtækis um aukningu í framleiðslu, eða tilboð sölufyrirtækis um minnkun í notkun. Landsnet greiðir viðkomandi fyrirtæki fyrir tilboðið ef það er notað.
2.18 Varaafl á við aflgetu tiltækrar vinnslueiningar, sem ekki er fösuð við raforkukerfið, en hægt er að ræsa, fasa við það og nýta að fullu innan ákveðinna tímamarka eftir að beiðni er send.
2.19 Vinnslueining er ótiltæk, ef hún er biluð eða í viðhaldi, annars er hún tiltæk, þ.e. tilbúin í rekstur.
2.20 Vinnslufyrirtæki er fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.
2.21 Virkjanasvæði á hér við hóp virkjana á ábyrgð sama jöfnunarábyrgðaraðila og eru kerfislega staðsettar nálægt hvor annarri og hafa leyfi Landsnets til að bjóða í einu lagi á reglunaraflsmarkaði.
3. Skyldur jöfnunarábyrgðaraðila
3.1 Hver jöfnunarábyrgðaraðili ábyrgist gagnvart Landsneti að jafnvægi sé milli öflunar raforku, þ.e. raforkuframleiðslu og raforkukaupa annars vegar, og ráðstöfunar raforku, þ.e. sölu og notkunar hins vegar.
3.2 Jöfnunarábyrgðaraðili getur tekið yfir jöfnunarábyrgð annars jöfnunarábyrgðaraðila að fengnu skriflegu samþykki Landsnets. Leita skal samþykkis Landsnets með a.m.k. 10 daga fyrirvara.
3.3 Jöfnunarábyrgðaraðilar, aðrir en dreifiveitur og Landsnet, skulu hafa leyfi ráðherra til að stunda raforkuviðskipti. Jöfnunarábyrgðaraðilum ber að gera samning við Landsnet um jöfnunarábyrgð.
3.4 Ef samningur milli Landsnets og aðila, sem stunda raforkuviðskipti eða er dreifiveita, hefur ekki verið undirritaður af aðilanum, eða hann hefur ekki framselt jöfnunarábyrgð sína sbr. gr. 3.2, mun Landsnet engu að síður skilgreina hann sem jöfnunarábyrgðaraðila og ber honum að hlíta skilmálum þessum varðandi öll viðskipti sín með raforku.
3.5 Í tilvikum þar sem tveir eða fleiri jöfnunarábyrgðaraðilar selja til sama notanda skulu þeir annað hvort koma sér saman um hvaða einn aðili ber jöfnunarábyrgð vegna viðskiptanna, eða bera sameiginlega jöfnunarábyrgð vegna þessa notanda.
3.6 Landsneti er heimilt að fara fram á greiðslutryggingu frá jöfnunarábyrgðaraðila til tryggingar á jöfnunarorkuviðskiptum.
4. Tæknilegar kröfur til seljenda reglunarafls
4.1 Landsnet skal fjarstýra framleiðslu hjá virkjunum sem framleiða reglunarafl. Vélar í reglunaraflsframleiðslu skulu geta hafið framleiðslu eigi síðar en 10 mínútum eftir að Landsnet óskar þess. Landsneti er þó heimilt að gera undantekningu frá þessu kröfum.
4.2 Sölufyrirtæki verða að tryggja að þeir notendur sem eru reiðubúnir til þátttöku á reglunaraflsmarkaði hafi fjarstýranlega notkun frá Landsneti. Notendur sem þetta snertir verða að vera tilbúnir til upp- eða niðurreglunar 10 mínútum eftir að Landsnet óskar þess. Landsneti er þó heimilt að gera undantekningu frá þessum kröfum.
5. Skil tilboða á reglunaraflsmarkað
5.1 Tilboðsgjafi skal vera jöfnunarábyrgðaraðili. Tilboð skal taka til þeirrar framleiðslu og/eða notkunar sem tilboðsgjafinn er jöfnunarábyrgur fyrir. Óheimilt er að fleiri en einn jöfnunarábyrgðaraðili sameinist um eitt tilboð.
5.2 Tilboð á reglunaraflsmarkaði samanstendur af aflmagni fyrir eina eða fleiri klukkustundir á ákveðnu verði.
5.3 Tilboðin geta ýmist verið fyrir upp- eða niðurreglun. Tilboðin skulu eiga við ákveðna virkjun, virkjanasvæði eða notanda.
5.4 Tilboðsgjafi getur óskað eftir því við Landsnet að boðin sé í einu lagi framleiðsla frá fleiri en einni virkjun hans á reglunaraflsmarkaði. Samþykki Landsnet það er þessi hópur virkjana skilgreindur sem virkjanasvæði.
5.5 Skil tilboða skulu vera á rafrænu formi í gegnum heimasvæði tilboðsgjafa á vefsvæði Landsnets, nema Landsnet taki annað fram.
5.6 Skil tilboða á reglunaraflsmarkað skulu vera fyrir kl. 14.00 föstudaginn fyrir þá sjö sólarhringa sem fara í hönd, þ.e. frá laugardegi til föstudags. Leiðrétta má tilboð allt að 2 klst. fyrir hugsanlega notkun reglunaraflsins. Ef upp koma rekjanleg tæknileg vandamál við skilin er heimilt að skila tilboði utan þessa frests.
5.7 Aflmagn, sem tilboð hljóðar upp á, er fast yfir hverja heila klukkustund. Aflmagn getur breyst frá einni klukkustund til annarrar, þó verðið haldist óbreytt. Lágmarks aflmagn í tilboði skal vera 1 MW. Ef þörf gerist getur Landsnet gert undantekningu frá þessu og tilkynnir það þá til þátttakenda reglunaraflsmarkaðarins. Enn fremur tilkynnir Landsnet sömu aðilum ef slík undantekning er ekki lengur í gildi.
5.8 Lágmarks gildistími tilboðs er ein klukkustund.
5.9 Til að tryggja nægjanlegt framboð á reglunaraflsmarkaði er Landsneti heimilt að gera samning við vinnslufyrirtæki um reglunaraflstryggingu.
6. Meðhöndlun tilboða á reglunaraflsmarkaði
6.1 Ef þörf er fyrir uppreglun skal Landsnet fyrst velja lægsta uppreglunartilboð og síðan það næst lægsta og svo koll af kolli þar til þörf er uppfyllt. Ef þörf er fyrir niðurreglun skal Landsnet velja fyrst hæsta niðurreglunartilboð og síðan það næst hæsta og svo koll af kolli þar til þörf er uppfyllt.
6.2 Landsneti er heimilt að hafna tilboði vegna kerfislegra aðstæðna og stofnast engin bótaskylda á hendur Landsneti í slíkum tilvikum.
6.3 Landsneti er heimilt að nota hluta þess aflmagns sem boðið er upp á í tilboði. Greiðsla til tilboðsgjafa er í samræmi við það aflmagn sem Landsnet nýtir.
6.4 Hafi tilboðsgjafi sent Landsneti tilboð fyrir upp- eða niðurreglun, en stendur síðan ekki við skuldbindingar sínar er til kemur, er hann skaðabótaskyldur gagnvart Landsneti vegna þess kostnaðar sem það kann að valda.
6.5 Við sérstakar aðstæður, svo sem þegar fyrirsjáanlegur er með stuttum fyrirvara skortur á reglunarafli í kerfinu, er Landsneti heimilt að hafa samband við vinnslu- eða sölufyrirtæki og biðja þau um að bjóða ákveðið aflmagn til upp- eða niðurreglunar. Viðkomandi tilboð verða meðhöndluð eins og önnur tilboð á reglunaraflsmarkaðnum.
6.6 Reglunarafl er ekki gert upp sérstaklega, heldur er mismunur milli áætlunar tilboðsgjafa og mælinga gerður upp sem jöfnunarorka.
6.7 Landsneti er heimilt að nota upp- eða niðurreglunartilboð , sé það nauðsynlegt vegna öryggis flutningskerfisins, þar með talið vegna flutningstakmarkana.
6.8 Landsneti er heimilt að lækka eða fyrirskipa lækkun á framleiðslu virkjana, sé það nauðsynlegt vegna öryggis flutningskerfisins, þar með talið vegna flutningstakmarkana. Ekki er greitt fyrir framlag virkjana til niðurreglunar í þessum tilgangi.
7. Skyldur jöfnunarábyrgðaraðila vegna jöfnunarorkuuppgjörs
7.1 Jöfnunarábyrgðaraðili skal skila jöfnunaráætlun til Landsnets á því formi sem Landsnet ákveður. Í jöfnunaráætlun skal jöfnunarábyrgðaraðili sýna fram á jafnvægi í fyrirhuguðum viðskiptum sínum með raforku, það er að segja að á hverri klukkustund sé öflun raforku, þ.e. framleiðsla og kaup frá öðrum jöfnunarábyrgðaraðilum, jöfn ráðstöfun raforku, þ.e. notkun og sölu til annarra jöfnunarábyrgðaraðila.
7.2 Skil jöfnunaráætlana skulu vera á rafrænu formi í gegnum heimasvæði jöfnunarábyrgðaraðila á vefsvæði Landsnets, nema Landsnet ákveði annað.
7.3 Skil jöfnunaráætlana skulu vera fyrir kl. 14.00 föstudaginn fyrir þá viku sem fer í hönd, þ.e. frá laugardegi til föstudags. Skilað er inn einni áætlun fyrir hvern dag. Leiðrétta má gildi í jöfnunaráætlun allt að 2 klst. fyrir þann tíma sem þau eiga við. Ef upp koma rekjanleg tæknileg vandamál við skilin er heimilt að skila jöfnunaráætlun utan þessa frests að fenginni heimild Landsnets.
7.4 Landsnet notar þær tölur um heildsöluviðskipti sem fram koma í jöfnunaráætlun sem viðmið fyrir jöfnunarorkureikninga. Það gildir einnig þó jöfnunaráætlun sé ekki í jafnvægi.
7.5 Ef heildsöluviðskiptum samkvæmt jöfnunaráætlunum tveggja aðila ber ekki saman, skal jöfnunaráætlun þess aðilans sem kaupir aðlöguð að jöfnunaráætlun þess sem selur.
7.6 Skili jöfnunarábyrgðaraðili ekki inn jöfnunaráætlun fyrir ákveðinn sólarhring eða ákveðnar klukkustundir er það jafngilt skilum á jöfnunaráætlun með framleiðslu, notkun og heildsöluviðskiptum á 0 MWst/st þær klukkustundir sem um ræðir.
7.7 Hafi Landsnet tilkynnt um varanlegar flutningstakmarkanir, sbr. skilmála C6 um flutningstakmarkanir, ber jöfnunarábyrgðaraðilum að tilgreina í jöfnunaráætlunum sínum hvernig viðskiptum er háttað sitt hvoru megin við hina varanlegu flutningstakmörkun. Tilkynning þess efnis skal vera á því formi sem Landsnet ákveður.
8. Verðlagning jöfnunarorku
8.1 Jöfnunarorkuverð skal vera jafnt hæsta uppreglunartilboði sem er notað ef um uppreglun er að ræða, en lægsta niðurreglunartilboði sem er notað ef um niðurreglun er að ræða. Ef bæði upp- og niðurreglun hafa átt sér stað innan sömu klukkustundarinnar er jöfnunarorkuverð sett jafnt hæsta uppreglunarverðinu fyrir klukkustundina. Almennt verður reglunarafl ákveðins tilboðs að vera nýtt í a.m.k. 10 mínútur áður en jöfnunarorkuverð er ákvarðað út frá því. Ef ekkert tilboðanna er notað í yfir 10 mínútur innan ákveðinnar klukkustundar er jöfnunarorkuverð ákvarðað út frá því tilboði sem nýtt er næst 10 mínútum. Ef ekkert reglunarafl hefur verið notað er jöfnunarorkuverðið ákvarðað sem lægsta verð fyrir reglunarafl til uppreglunar sem fékkst fyrir viðkomandi klukkustund.
8.2 Upplýsingar um jöfnunarorkuverð ákveðinnar klukkustundar skulu vera aðgengilegar fyrir jöfnunarábyrgðaraðila hjá Landsneti í seinasta lagi kl. 11.00 næsta dag. Landsneti er heimilt að gera undantekningar frá þessu ef upp koma tæknileg vandamál þar að lútandi. Landsnet áskilur sér rétt til að leiðrétta skekkjur í jöfnunarorkuverði innan almanaksársins.
8.3 Við sérstakar kringumstæður, svo sem í truflanatilvikum, við meiriháttar gagnakerfavandamál, óviðráðanleg ytri atvik (”force majeure”) eða aðrar sambærilegar aðstæður sem koma í veg fyrir hefðbundna meðferð reglunarafls og jöfnunarorku mun Landsnet ákveða jöfnunarorkuverð. Landsneti ber að tilkynna um slíkt svo fljótt sem auðið er þegar eðlilegt ástand kemst á aftur.
8.4 Tilboð sem nýtt eru í skilningi gr. 6.7 greiðast af Landsneti og á nýting þeirra ekki að hafa áhrif á jöfnunarorkuverð. Landsnet greiðir fyrir uppreglunartilboð sem nýtt eru á þennan hátt á umsömdu tilboðsverði.
9. Útreikningur Landsnets á jöfnunarorku
9.1 Jöfnunarorka ákveðins jöfnunarábyrgðaraðila er reiknuð fyrir hverja klukkustund og er jöfn meðaltali raunverulegra viðskipta yfir klukkustundina að frádregnum áætluðum viðskiptum. Ef um sameiginlega jöfnunarábyrgð er að ræða skiptist jöfnunarorka vegna viðkomandi notanda á jöfnunarábyrgðaraðila samkvæmt jöfnunarábyrgðarhlutfalli.
9.2 Jöfnunarábyrgðarhlutfall ákveðins jöfnunarábyrgðaraðila, fyrir tiltekinn notandanda, er jafnt áætlaðri sölu jöfnunarábyrgðaraðila til notandans deilt með samanlagðri áætlaðri sölu allra jöfnunarábyrgðaraðila til viðkomandi notanda. Áætluð sala er byggð á jöfnunaráætlunum. Jöfnunarábyrgðarhlutfall er reiknað fyrir hverja klukkustund.
9.3 Við sérstakar kringumstæður, svo sem í truflanatilvikum, vegna meiriháttar gagnakerfavandamála, óviðráðanlegra ytri atvika (”force majeure”) eða annarra sambærilegra aðstæðna sem koma í veg fyrir hefðbundna meðferð reglunarafls og jöfnunarorku, mun Landsnet ákvarða jöfnunarorku hvers jöfnunarábyrgðaraðila eftir bestu getu. Landsneti ber að tilkynna um slíkt svo fljótt sem auðið er þegar eðlilegt ástand kemst á aftur.
9.4 Landsnet hefur heimild til að nýta varaafl í truflanatilvikum. Vinnsla varaafls er ekki tilgreind í jöfnunaráætlunum og flokkast því sem frávik frá þeim. Ákvarði Landsnet vinnslu varaafls skal sú framleiðsla teljast sem framleiðsla Landsnets og skal Landsnet bera jöfnunarábyrgð vegna hennar.
10. Uppgjör jöfnunarorku
10.1 Uppgjör jöfnunarorku skal gert mánaðarlega. Landsnet skal senda reikning með upplýsingum um greiðsluskyldu eða inneign til aðila að jafnaði 10 dögum eftir lok uppgjörstímabils. Útgáfudagur reiknings og síðasti greiðsludagur skal vera samkvæmt gr. 6.7 í almennum skilmálum um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.
10.2 Þóknun Landsnets vegna jöfnunarorkuuppgjörs skal tilgreind í gjaldskrá Landsnets.
10.3 Í janúarmánuði á hverju almanaksári eftir undirritun samnings um jöfnunarábyrgð, skal Landsnet láta jöfnunarábyrgðaraðila í té árlegt reikningsyfirlit fyrir liðið almanaksár sem sýni árlegar leiðréttingar á greiðslum fyrir jöfnunarorku.
10.4 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisþjónustu eiga við þegar um vanskil er að ræða.
11. Ábyrgð
11.1 Landsneti og viðskiptavinum þess er skylt að byggja og starfrækja flutningsvirki og önnur mannvirki til flutnings raforku, halda þeim við í samræmi við starfshætti góðra og vandaðra rekstraraðila og lagfæra án tafar allar misfellur og galla, sem valda eða geta valdið hættu á tjóni.
11.2 Brjóti Landsnet eða viðskiptavinur þess ákvæði skilmála eða gerðra samninga á grundvelli þeirra, sem leiðir til tjóns fyrir gagnaðilann, á tjónþoli rétt á afslætti og/eða skaðabótum úr hendi tjónvalds eins og nánar er kveðið á um í þessari grein. Sé um verulegar vanefndir að ræða er heimilt að rifta viðkomandi samningi.
11.3 Landsnet og viðskiptavinir þess skulu eingöngu vera ábyrgir fyrir tjóni sem þeir valda með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Það er á ábyrgð tjónþola að gera viðeigandi ráðstafanir til að takmarka eða koma í veg fyrir tjón. Misbrestur á slíkri ráðstöfun kann að takmarka þær skaðabætur sem tjónþoli kann að eiga rétt á.
11.4 Hvorki Landsnet né viðskiptavinir þess skulu eiga rétt til skaðabóta fyrir óbeint eða afleitt tjón, til dæmis vegna hagnaðarmissis, afnotamissis eða hindrunar á því að fullnægja skyldu við þriðja aðila, nema að því marki sem slíkt tjón er afleiðing ásetningsbrots á samningsskyldu aðila eða undirverktaka slíks aðila (á hvaða stigi sem er).
11.5 Bótaábyrgð aðila á grundvelli skilmála þessara eða samninga sem á þeim byggja er takmörkuð við fjárhæð sem nemur fjórföldu gjaldi fyrir flutning raforku sem verður ekki flutt vegna aðgerða eða aðgerðaleysis, en þó aldrei meira en sem nemur kr. 50.000.000 fyrir hvert einstakt tilvik. Bætur eru þó ekki greiddar nema einstakt tjón nemi a.m.k. kr. 1.000.000. Við mat á því hvað telst einstakt tjónstilvik skal litið svo á að tjón sem einn og sami atburður veldur innan sama sólarhrings teljist til eins tjónsatviks.
11.6 Landsneti og viðskiptavinum þess er heimilt að semja um frávik frá ábyrgðarákvæði þessarar 11. greinar.
12. Brot á skilmálum
12.1 Ef jöfnunarábyrgðaraðili vanrækir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum eða samningi um jöfnunarábyrgð, er Landsneti heimilt að rifta samningi um jöfnunarábyrgð eða óska eftir að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga.
13. Eftirlit og úrræði
13.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi samkvæmt raforkulögum og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.
13.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skulu aðilar leitast við að leysa þann ágreining.
13.3 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Úrskurði úrskurðarnefndar má vísa til dómstóla skv. 30 gr. VII. kafla raforkulaga.
13.4 Heyri úrlausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.
14. Tilvísanir
14.1 Samningur um jöfnunarábyrgð.
14.2 A.1 Almennir skilmálar um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.