C.3 Skilmálar um öflun og uppgjör vegna varaafls
Útgáfa 3.0 gefin út 01.05.2009
1. Inngangur
1.1 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum, reglugerðar nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga, reglugerðar nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum og reglugerðar nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu.
1.2 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra sbr. 6 mgr. 9. gr raforkulaga.
2. Skilgreiningar
Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:
2.1 Flutningskerfi er raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka með raforkulögum nr. 65/2003 með síðari breytingum. Það nær frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana sem tengjast því, sbr. 3. mgr. 5. gr., að háspennuhlið aðveituspenna stórnotenda eða dreifiveitna.
2.2 Raforkukerfi er allur sá búnaður sem notaður er við vinnslu, flutning og dreifingu raforku og myndar starfræna heild.
2.3 Reglunaraflsmarkaður er innkaupsmarkaður Landsnets fyrir reglunarafl.
2.4 Rekstrartruflun er sjálfvirk útleysing, handvirkt rof sem ekki var gert ráð fyrir eða misheppnuð innsetning eftir bilun í raforkukerfinu.
2.5 Tímabundnar flutningstakarmarkanir eru kerfisöngur sem hafa ekki verið skilgreindar sem varanlegar flutningstakmarkanir og eru ekki afleiðing rekstrartruflana.
2.6 Uppreglun á við þörf fyrir jákvætt reglunarafl, þ.e. það afl sem þarf að bæta inn á kerfið þegar raunnotkun er meiri en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.
2.7 Varaafl á við aflgetu tiltækrar virkjunar, sem ekki er fösuð við raforkukerfið, en hægt er að ræsa, fasa við kerfið og nýta að fullu innan ákveðinna tímamarka eftir að beiðni er send.
2.8 Varaaflssamningur er samningur milli Landsnets og varaaflsseljanda sem tryggir Landsneti aðgang að varastöðvun varaaflsseljanda.
2.9 Varaaflsseljandi er rekstraraðili einnar eða fleiri varastöðvar.
2.10 Varanlegar flutningstakmarkanir eru kerfisöngur sem er viðvaranda á ákveðnum stað af kerfislegum ástæðum og eru ekki afleiðing rekstrartruflana.
2.11 Varastöð er virkjun sem einungis vinnur raforku tímabundið vegna bilunar eða truflunar í raforkukerfinu, vegna aðstæða sem eru líklegar til að geta valdið rekstrartruflunum í flutningskerfinu eða vegna tímabundinna flutningstakmarkana í flutningskerfinu.
2.12 Virkjun er mannvirki sem notað er til vinnslu raforku. Tvær eða fleiri einingar sem mynda eðlilega heild og tengjast flutningskerfinu eða dreifikerfi gegnum sameiginleg tengivirki teljast ein virkjun
2.13 Virkjun er ótiltæk, ef hún er biluð eða í viðhaldi, annars er hún tiltæk, þ.e. tilbúin í rekstur.
2.14 Vinnslufyrirtæki er fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.
3. Almennt
3.1 Landsnet sinnir lögboðinni skyldu sinni um að tryggja öryggi og gæði við raforkuafhendingu, meðal annars með varaaflssamningum við varaaflsseljendur þess efnis að þeir tryggi aðgengi Landsnets að ákveðnum varastöðvum. Í þeim samningum er tekið fram hversu mikið varaafl skuli tiltækt í hverri stöðvanna allt árið um kring og verð fyrir aðgengið. Enn fremur skal tilgreina í samningunum hvert er umsamið einingargjald á hverja kWh í varaaflskeyrslu.
3.2 Landsnet metur árlega á grundvelli ástands flutningskerfisins hvaða varastöðvar gerður er varaaflssamningur um. Ákvörðun Landsnets um slíka samningsgerð skal byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.
3.3 Þær varastöðvar sem gerður er varaaflssamningur um skulu eingöngu notaðar í þeim tilvikum sem tilgreind eru í 5. og 6. greinum þessara skilmála. Landsneti er þó heimilt að gera undanþágu frá þessu. Ekki skal gripið til varaafls vegna notkunar sem er skerðanleg samkvæmt samningum viðkomandi dreifiveitu.
4. Tæknilegar kröfur til samningsbundinna varastöðva
4.1 Varaaflsseljandi skal tryggja að varastöð sem hann rekur hafi á hverjum tíma aðgengilegt það varaafl sem um hefur verið samið við Landsnet. Enn fremur skal varaaflsseljandi tryggja að hans varastöðvar séu tengdar raforkukerfinu og komnar í fullan rekstur innan einnar klukkustundar frá því að boð um vinnslu koma frá stjórnstöð Landsnets.
4.2 Varaaflsseljandi skal tryggja að varastöðvar hans geti framleitt umsamið afl samfleytt í að lágmarki 36 klst.
4.3 Ef taka þarf varastöð úr rekstri, t.d. vegna viðhalds, ber viðkomandi varaaflsseljanda að sækja um það til stjórnstöðvar Landsnets með minnst 1 viku fyrirvara. Landsneti er heimilt að ákveða í samráði við varaaflsseljandann annan tíma til viðhalds en sótt er um.
4.4 Ef varastöð er ótiltæk vegna bilunar eða annarra ófyrirséðra atvika, ber viðkomandi varaaflsseljanda að upplýsa stjórnstöð Landsnets um það eins fljótt og unnt er. Varaafls-seljandinn skal einnig gera ráðstafanir svo fljótt sem unnt er til að lagfæra bilunina og gera varastöðina tiltæka.
5. Notkun varaafls vegna flutningskerfisins og dreifikerfis
5.1 Landsnet tekur ákvörðun, í samráði við varaaflsseljanda og dreifiveitu á viðkomandi veitusvæði, um vinnslu rafmagns með varastöðvum þegar þörf er á vegna viðhalds í flutnings¬kerfinu.
5.2 Landsnet og dreifiveita geta í sameiningu eða hvor aðili um sig tekið ákvörðun um að ræsa varastöðvar þegar þörf er á vegna rekstrartruflana í flutningskerfinu eða vegna aðstæða sem eru líklegar til að geta valdið rekstrartruflunum í flutningskerfinu.
5.3 Landsnet tekur ákvörðun um vinnslu rafmagns með varastöðvum þegar þörf er á vegna tímabundinna flutningstakmarkana í flutningskerfinu.
5.4 Dreifiveita tekur ákvörðun, í samráði við varaaflsseljanda og Landsnet, um vinnslu rafmagns með varastöðvum þegar þörf er á vegna viðhalds í dreifikerfi.
5.5 Dreifiveita tekur ákvörðun um vinnslu varastöðva þegar þörf er á vegna rekstrartruflana í dreifikerfi hennar.
6. Notkun varaafls vegna rekstrartruflana hjá vinnslufyrirtækjum
6.1 Landsnet tekur ákvörðun, í samráði við varaaflsseljanda, um framleiðslu varastöðva þegar þörf er á vegna rekstrartruflana hjá vinnslufyrirtækjum.
6.2 Leiði rekstrartruflun hjá vinnslufyrirtæki til þess að vinnsla virkjunar hans skerðist verulega eða alveg mun Landsnet svo fljótt sem auðið er útvega varaafl, ef þörf er á í allt að 10 klukkustundir. Í undantekningartilvikum getur vinnslufyrirtæki samið um útvegun varaafls í lengri tíma en 10 klukkustundir. Ekki er tryggt að varaaflið komi að öllu leyti í stað vinnslu virkjunarinnar.
6.3 Það varaafl sem Landsnet útvegar í þessum tilgangi er takmarkað við það varaafl sem Landsnet hefur til umráða á hverjum tíma að frádregnu því sem þegar er nýtt þá stundina vegna flutningskerfisins.
7. Ákvörðun varaaflskostnaðar aðila
7.1 Landsnet greiðir varaaflsseljendum samkvæmt varaaflssamningi fyrir að varastöðvar séu tiltækar.
7.2 Kostnaður við vinnslu varastöðva vegna viðhaldsaðgerða í flutningskerfinu og í dreifikerfi skiptist milli aðila samkvæmt nánara samkomulagi.
7.3 Sé gripið til varaafls á svæði tiltekinnar dreifiveitu vegna rekstrartruflana í flutningskerfinu skal Landsnet greiða varaaflsseljendum samningsbundið einingargjald á hverja kWh í viðkomandi varaaflskeyrslu.
7.4 Sé gripið til varaafls á svæði tiltekinnar dreifiveitu vegna rekstrartruflana í dreifikerfi eða af völdum þriðja aðila, skal tilheyrandi kostnaður vegna vinnslu varastöðva greiðast af viðkomandi dreifiveitu.
7.5 Varaaflskostnaður vegna brottfalls virkjunar fyrstu 10 klukkustundirnar er innheimtur samkvæmt reglum um uppgjör jöfnunarorku. Varaafl er í þessu tilviki meðhöndlað sem tilboð til uppreglunar á reglunaraflsmarkaði á samningsbundnu einingargjaldi.
7.6 Vinnsla varaafls í lengri tíma en 10 klukkustundir samkvæmt ósk ákveðins vinnslufyrirtækis vegna brottfalls virkjunar, er á kostnað vinnslufyrirtækisins, en Landsnet annast milligöngu um greiðslur í samræmi við gildandi greiðsluskilmála.
8. Uppgjör varaafls
8.1 Landsnet gerir upp og greiðir varaaflsseljendum samkvæmt samningi kostnað vegna varaafls og sér um innheimtu á kostnaði vegna vinnslu varastöðva, sbr. gr. 7.1 - 7.6. Reikningar varaaflsseljanda skulu gerðir fyrir hvern almanaksmánuð og berast Landsneti í síðasta lagi 10 dögum eftir mánaðarlok. Í reikningi skal gerð grein fyrir hver ástæða varaaflskeyrslu var og yfir hvaða tímabil hún stóð yfir.
8.2 Uppgjör varaafls skal gert mánaðarlega. Landsnet skal senda reikning með upplýsingum um greiðsluskyldu eða inneign til aðila að jafnaði 10 dögum eftir lok uppgjörstímabils. Útgáfudagur reiknings og síðasti greiðsludagur skal vera samkvæmt gr. 6.7 í almennum skilmálum um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.
9. Ábyrgð
9.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi ábyrgð skulu einnig gilda um öflun og uppgjör vegna varaafls.
10. Óviðráðanleg öfl
10.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning rafmagns og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi óviðráðanleg öfl skulu einnig eiga við um öflun og uppgjör vegna varaafls.
11. Brot á skilmálum
11.1 Ef varaaflsseljandi vanrækir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum, eða samningi um varaafl, getur Landsnet krafist úrbóta. Við sannanlegt brot á skuldbindingum varaaflsseljanda falla niður greiðslur til varaaflsseljanda frá Landsneti. Verði varaaflsseljandi ekki við kröfum Landsnets um úrbætur er Landsneti heimilt að rifta varaaflssamningi án frekari viðvörunar eða óska eftir að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga, sbr. einnig gr. 9.4.
11.2 Ef kaupandi varaafls vanrækir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum er Landsneti heimilt að óska eftir að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga.
12. Eftirlit og úrræði
12.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki sem starfa á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.
12.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða þessara skilmála skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Heyri úrlausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.
13. Tilvísanir
13.1 Varaaflssamningur.
13.2 A.1 Almennir skilmálar um flutning raforku og kerfisstjórnun.