C.6 Skilmálar um flutningstakmarkanir

Útgáfa 2.0 gefin út 01.03.2015 

1. Inngangur

1.1 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum, og reglugerðum nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum, nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga með síðari breytingum, nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu og nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi með síðari breytingum.

1.2 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra sbr. 6 mgr. 9. gr. raforkulaga.

2. Skilgreiningar

Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:

2.1 Bilun er það ástand þegar eining í raforkukerfi fer úr rekstri eða hefur takmarkaða getu til að sinna hlutverki sínu.

2.2 Flutningskerfi er raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum. Það nær frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana sem tengjast því, sbr. 3. mgr. 5. gr. raforkulaga, að háspennuhlið aðveituspenna stórnotenda eða dreifiveitna.

2.3 Flutningsuppboð nefnist það þegar laus flutningsgeta um varanlegar flutningstakmarkanir er boðin upp fyrir ákveðið tímabil (t.d. ár, mánuð, viku, klukkustund).

2.4 Kerfisöngur (flöskuháls) eru þær aðstæður þegar flutningsgeta flutningsvirkis eða hluta flutningskerfis er ófullnægjandi, þannig að takmarka þurfi orkuflutning.

2.5 Niðurreglun á við þörf fyrir neikvætt reglunarafl, þ.e. það afl sem taka þarf út af kerfinu þegar raunnotkun er minni en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.

2.6 Ótryggt rafmagn á við raforkunotkun sem Landsneti er heimilt að láta skerða vegna rekstartruflana í flutningskerfinu eða raforkuverum, vegna flutningstakmarkana, viðhalds eða reglubundina prófana. Skerðingar og skömmtun skv. 9. mgr. 9 gr. raforkulaga eru hér undanþegnar.

2.7 Reglunarafl er það afl sem Landsnet nýtir til að jafna frávik milli áætlaðrar og raunverulegrar heildaraflnotkunar í raforkukerfinu.

2.8 Reglunaraflsmarkaður er innkaupsmarkaður Landsnets fyrir reglunarafl.

2.9 Reglunaraflstrygging nefnist það þegar Landsnet gerir samning við vinnslufyrirtæki um að það bjóði yfir ákveðin tímabil ákveðið lágmark reglunarafls innan tilgreindra afl- og verðmarka á reglunaraflsmarkaðnum. Reglunaraflstrygging tryggir lágmarks framboð á reglunaraflsmarkaði.

2.10 Tímabundnar flutningstakmarkanir eru kerfisöngur sem hafa ekki verið skilgreindar sem varanlegar flutningstakmarkanir og eru ekki afleiðing rekstartruflana.

2.11 Rekstrartruflun er sjálfvirk útleysing, handvirkt rof sem ekki er áætlað eða misheppnuð innsetning eftir bilun í raforkukerfinu.

2.12 Uppreglun á við þörf fyrir jákvætt reglunarafl, þ.e. það afl sem þarf að bæta inn á kerfið þegar raunnotkun er meiri en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.

2.13 Varaafl á við aflgetu tiltækrar virkjunar, sem ekki er fösuð við raforkukerfið, en hægt er að ræsa, fasa við kerfið og nýta að fullu innan ákveðinna tímamarka eftir að beiðni er send.

2.14 Varanlegar flutningstakmarkanir eru kerfisöngur sem er viðvarandi a.m.k. 1000 klukkustundir á ári á ákveðnum stað af kerfislegum ástæðum og eru ekki afleiðing rekstrartruflana.

2.15 Vinnsluáætlun vinnslufyrirtækis skal innihalda tölulegar upplýsingar um fyrirhugaða framleiðslu þeirra virkjana þess sem hafa 7 MW aflgetu eða meira. Vinnsluáætlun er gerð fyrir einn dag í senn, klukkustund fyrir klukkustund.

2.16 Vinnslufyrirtæki er fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.

3. Almennt

3.1 Landsnet sinnir lögboðinni skyldu sinni að tryggja öruggan rekstur og stöðugleika flutningskerfis meðal annars með því að setja reglur um meðferð kerfisanga, en samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu, sbr. 4. og 5. gr. reglugerðarinnar, skal Landsnet ábyrgjast að kerfisöngur, til lengri eða skemmri tíma, sé leystar á sanngjarnan hátt fyrir þá aðila sem eiga hlut að máli.

4. Varanlegar flutningstakmarkanir

4.1 Landsneti er heimilt að setja á varanlegar flutningstakmarkanir með að lágmarki 1 mánaðar fyrirvara og aflétta þeim með ekki minna en 2ja daga fyrirvara. Tilkynningar þar að lútandi skulu birtar á vef Landsnets.

4.2 Landsnet beitir flutningsuppboði við úthlutun lausrar flutningsgetu um varanlegar flutningstakmarkanir.

5. Tímabundnar flutningstakmarkanir

5.1 Landsneti er heimilt að setja á tímabundnar flutningstakmarkanir án fyrirvara og sömuleiðis aflétta þeim án fyrirvara. Tilkynningar þar að lútandi skulu birtar á vef Landsnets. Ef mögulegt er skal Landsnet tilkynna um tímabundnar flutningstakmarkanir með fyrirvara.

5.2 Viðbrögð vegna tímabundinna flutningstakmarkana sem stafa af viðhaldsaðgerðum eru háð samkomulagi viðkomandi hagsmunaaðila hverju sinni. Landsnet ber ekki kostnað vegna tapaðrar framleiðslu vinnslufyrirtækis á meðan á skipulögðu viðhaldi stendur.

5.3 Landsnet ákvarðar hverju sinni út frá öryggi flutningskerfisins hvort tímabundnar flutningstakmarkanir að ósk annarra en Landsnets, sem eru ekki á grundvelli gr. 5.2, eru heimilar. Við slíka leyfisveitingu skal taka mið að því að flutningstakmörkunin valdi viðskiptavinum Landsnets sem minnstum óþægindum. Kostnaður vegna tímabundinna flutningstakmarkana á grundvelli þessa ákvæðis skal greiðast af þeim sem óskar eftir takmörkuninni.

5.4 Úrræði Landsnets vegna tímabundinna flutningstakmarkana, annarra en greint er frá í gr. 5.2 og gr. 5.3 eru eftirfarandi:
    5.4.1 Í þeim hluta flutningskerfisins, þar sem flutningstakmarkanir valda því að áætluð framleiðsla er of mikil, beitir Landsnet niðurreglun á reglunaraflsmarkaði.
    5.4.2 Í þeim hluta flutningskerfisins, þar sem flutningstakmarkanir valda því að áætluð framleiðsla er of lítil, beitir Landsnet eftirfarandi úrræðum, eftir því sem aðstæður     leyfa, og í þessari röð:
        (1) Endurskoðun vinnsluáætlana vegna tímabundinna flutningstakmarkana, sbr. gr. 5.5.
        (2) Skerðing ótryggðs rafmagns í samræmi við reglur Landsnets þar að lútandi.
        (3) Nýting skerðingarheimilda hjá stórnotendum, sbr. gr. 5.6.
        (4) Uppreglun á reglunaraflsmarkaði, sbr. gr. 5.7.
        (5) Nýting varaafls, sbr. gr. 5.8
5.5 Landsnet hefur heimild til að senda vinnslufyrirtæki beiðni þess efnis að það endurskoði vinnsluáætlanir sínar til að minnka eða koma í veg fyrir tímabundnar flutningstakmarkanir. Í beiðni Landsnets skal tekið fram hversu mikla framleiðslu vinnslufyrirtækið skuli færa yfir flutningstakmarkanirnar. Beiðnin byggist á hlutfalli uppsetts afls viðkomandi vinnslufyrirtækis á því svæði, þar sem framleiðsla er of mikil, miðað við allt uppsett afl á sama svæði.

5.6 Landsnet nýtir sér samningsbundnar skerðingarheimildir hjá stórnotendum til að minnka eða koma í veg fyrir í tímabundnar flutningstakmarkanir. Sé þess kostur gefur Landsnet viðkomandi hagsmunaaðilum tækifæri til að endurskipuleggja viðskipti sín áður en til skerðinga kemur.

5.7 Landsnet nýtir uppreglun á reglunaraflsmarkaði vegna tímabundinna flutningstakmarkana sem vara allt að 24 klst. samfleytt vegna hvers tilviks. Ef fyrirsjáanlegt er að tímabundin takmörkun standi lengur en 24 klst. skal Landsnet upplýsa hagsmunaaðila svo fljótt sem auðið er, og með minnst 12 klst. fyrirvara. Ef tímabundnar flutningstakmarkanir standa lengur en 24 klst. skulu viðkomandi hagsmunaaðilar hafa endurskipulagt viðskipti sín, þ.a. mögulegt sé að hætta uppreglun í þessum tilgangi.

5.8 Landsnet nýtir varaafl í samræmi við skilmála um öflun og uppgjör vegna varaafls (nr. C.3) vegna tímabundinna flutningstakmarkana sem vara allt að 24 klst. samfleytt vegna hvers tilviks. Ef fyrirsjáanlegt er að tímabundin takmörkun standi lengur en 24 klst. skal Landsnet upplýsa hagsmunaaðila svo fljótt sem auðið er, og með minnst 12 klst. fyrirvara. Ef tímabundnar flutningstakmarkanir standa lengur en 24 klst. skulu viðkomandi hagsmunaaðilar hafa endurskipulagt viðskipti sín, þ.a. mögulegt sé að hætta notkun varafls í þessum tilgangi.

6. Ábyrgð

6.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi ábyrgð skulu einnig gilda um þessa skilmála.

7. Óviðráðanleg öfl

7.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi óviðráðanleg öfl skulu einnig gilda einnig um þessa skilmála.

8. Brot á skilmálum

8.1 Heimilt er að óska eftir því að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga ef brotið er gegn skilmálum þessum.

9. Eftirlit og úrræði

9.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.

9.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða þessara skilmála skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Verði ágreiningi ekki skotið til Orkustofnunar má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

10. Tilvísanir

10.1 A.1 Almennir skilmálar um flutning raforku og kerfisstjórnun.

10.2 B.3 Skilmálar um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.

10.3 C.3 Skilmálar um öflun og uppgjör vegna varaafls.