B.4 Skilmálar um afhendingu rafmagns til stórnotenda

Útgáfa 1.0 gefn út 15.09.2011

1. Inngangur

1.1 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003, með síðari breytingum; reglugerðar nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga; reglugerðar nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu; reglugerðar nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum og reglugerðar nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi.

1.2 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra, sbr. 6. mgr. 9. gr. raforkulaga.

1.3 Skilmálar þessir skulu gilda um alla samninga milli Landsnets og stórnotenda, í samræmi við almenn ákvæði slíkra samninga. Stórnotendur sem tengjast flutningskerfinu skulu fara að þessum skilmálum og öðrum gildandi skilmálum Landsnets. Sé misræmi milli annars vegar ákvæða samnings milli Landsnets og stórnotanda og hins vegar skilmála þessara skulu skilmálar þessir ganga framar. Hið sama gildir um misræmi milli ákvæða skilmála þessara og annarra skilmála Landsnets. Aðrir skilmálar Landsnets skulu einnig gilda nema þeir séu sérstaklega undanskildir.

 

2. Skilgreiningar

Eftirfarandi skilgreiningar gilda um skilmála þessa:

2.1 Hlutdeildarfélag merkir lögaðili sem annað hvort stórnotandi eða Landsnet hefur bein eða óbein yfirráð yfir, þ.m.t. eigendur og hluthafar.

2.2 Kerfisþjónusta merkir þjónusta, önnur en framleiðsla raforku, sem notuð er til að starfrækja stöðugt og öruggt raforkukerfi. Í kerfisþjónustu felst reiðuafl vegna tíðnistýringar, reiðuafl vegna truflana, hægvirkt varaafl, hraðvirkt varaafl og varalaunafl.

2.3 Breyting á yfirráðum merkir, (i) að því er varðar stórnotanda, viðskipti eða fleiri en eitt tilvik tengdra viðskipta þar sem: (A) eigandi stórnotandans heldur ekki beinum eða óbeinum yfirráðum yfir honum eftir viðskiptin, hvort sem er með hlut í fyrirtækinu, samningi eða á annan hátt; eða (B) allar eða svo til allar eignir stórnotandans eru seldar eða á annan hátt framseldar öðrum aðila sem er ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum stórnotandans; eða (ii) að því er varðar Landsnet, viðskipti eða fleiri en eitt tilvik tengdra viðskipta þar sem: (A) íslenska ríkið eða Landsvirkjun heldur ekki beinum eða óbeinum yfirráðum yfir Landsneti, eða heldur ekki jafnmiklum yfirráðum varðandi Landsnet og á gildistökudegi þessara skilmála, hvort sem er með hlut í fyrirtækinu, samningi eða á annan hátt; (B) allar eða svo til allar eignir Landsnets eru seldar eða á annan hátt framseldar öðrum aðila sem er ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum íslenska ríkisins. Til að taka af vafa telst það ekki breyting á yfirráðum ef Landsvirkjun eignast stærri hlut í Landsneti eða allt Landsnet.

2.4 Samningsbundið rafmagn merkir heildarorkan og -aflið sem er flutt samkvæmt viðkomandi flutningssamningi.

2.5 Yfirráð merkir (a) að því er varðar fyrirtæki: eignarhald á viðkomandi tíma á hlutum í fyrirtækinu sem fylgir meira en 50% atkvæðisréttar sem að jafnaði er farið með á hluthafafundum þar sem slíkur atkvæðisréttur nægir (og er nýttur) til að kjósa meirihluta í stjórn; (b) að því er varðar einstakling eða aðila sem er sameignarfélag, félag með takmarkaðri ábyrgð eða fyrirtæki um sameiginlegt verkefni (e. joint venture): eignarhald á viðkomandi tíma á meira en 50% hlut í félaginu, eða það að gegna stöðu eða eiga hagsmuni við aðstæður þar sem eðlilegt er að ætla að viðkomandi aðili geti með beinum eða óbeinum hætti stýrt daglegum rekstri félagsins; og (c) í hvers kyns öðrum tilvikum: vald til að stýra með beinum eða óbeinum hætti stjórnendum og stefnumiðum einstaklings eða annars aðila; og orðin „undir yfirráðum“, „ráða yfir“ og svipuð orðasambönd hafa samsvarandi merkingu; aðili sem ræður yfir öðrum aðila telst hafa yfirráð yfir fyrirtæki, sameignarfélagi, félagi með takmarkaðri ábyrgð, fyrirtæki um sameiginlegt verkefni eða sjóði sem seinni aðilinn ræður yfir o.s.frv.

2.6 Dagsetning fullrar afhendingar merkir sú dagsetning sem er tiltekin í viðkomandi flutningssamningi.

2.7 Kaupskylda hefur þá merkingu sem tilgreind er í greinum 4.1–4.3.

2.8 Óviðráðanlegt atvik (force majeure) hefur þá merkingu sem tilgreind er í greinum 6.1–6.4 í skilmálum þessum.

2.9 Orkustofnun merkir sú ríkisstofnunin sem stofnuð var samkvæmt lögum nr. 87/2003 um Orkustofnun.

2.10 Aðilar merkir Landsnet og stórnotandi sameiginlega og eintalan („aðili“) hefur samsvarandi merkingu. Tilvísanir til aðila fela í sér síðari handhafa réttinda og skyldna hans og heimilaða framsalshafa.

2.11 Afhendingarstaður hefur þá merkingu sem skilgreind er í viðauka við raforkulög nr. 65/2003, með síðari breytingum.

2.12 Stórnotandi er notandi sem er skilgreindur sem slíkur í raforkulögum nr. 65/2003, með breytingum.

2.13 Sölufyrirtæki merkir fyrirtæki sem selur/selja stórnotandanum samningsbundið rafmagn.

2.14 Uppkeyrsla merkir að raforkunotkun sé aukin stig af stigi frá því að rafmagn er sett á fyrstu vélina í viðkomandi iðjuveri þar til fullri afkastagetu er náð.

2.15 Aðveitustöð merkir aðveitustöð fyrir flutning samningsbundins háspennurafmagns þar sem Landsnet afhendir samningsbundna rafmagnið.

2.16 Skilmálar Landsnets eða skilmálar merkir skilmálar, þ.m.t. gjaldskrár, sem byggjast á gildandi lögum um raforkumál hverju sinni og Landsnet hefur innleitt.

2.17 Flutningskerfi hefur þá merkingu sem skilgreind er í raforkulögum nr. 65/2003, með breytingum.

2.18 Framkvæmdir við flutningskerfið merkir framkvæmdir á vegum Landsnets í samræmi við viðkomandi flutningssamning.

 

3. Gæði samningsbundins rafmagns – straumur, spenna, aflstuðull, fasajafnvægi og varaafl

3.1. Samningbundið rafmagn skal flutt sem þriggja fasa riðstraumur á 50 Hz og málspennu eins og fram kemur í viðkomandi flutningssamningi. Rekstrarsvið spennu á afhendingarstað er 0,90 p.u. – 1,10 p.u., þ.e. spennan getur verið frá mínus tíu prósent (-10%) til plús tíu prósent (+10%) af málspennu við eðlilegar rekstraraðstæður. Ákvæði um rekstrarsvið spennu á afhendingarstað í flutningssamningum sem eru þegar í gildi og stangast á við ofangreint skulu ganga framar. Auk þess skal Landsnet tryggja að tíðni- og spennugæði samningsbundna rafmagnsins samræmist ákvæðum reglugerðar nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi. 

3.2 Aflstuðull (cos phi) samningsbundna rafmagnsins á afhendingarstað hjá stórnotanda er fenginn með mælingum á raunafli í MWh og launafli í MVAr-mælingum. Aflstuðull hins samningsbundna rafmagns skal ekki vera undir 0,98 að meðaltali, mælt yfir einn almanaksmánuð. Leyfilegt svið er 0,95 til 1,0, með leiðandi eða töfðum vísi (e. leading or lagging). Stórnotandinn skal tryggja að aðveitustöðin hafi nægilega umframgetu svo einstakar bilanir í búnaði sem framleiðir launafl (n-1 viðmið) leiði ekki til þess að meðalaflstuðull á klukkustund minnki niður fyrir ofangreint lágmark. Lækki aflstuðullinn niður fyrir einhver af þessum gildum af öðrum völdum en óviðráðanlegum atvikum (force majeure) skal greiða fyrir umframlaunaflið í samræmi við skilmálana á hverjum tíma. Ákvæði um aflstuðul (cos phi) í þegar gildandi flutningssamningum sem stangast á við ofangreint skulu ganga framar.

3.3 Stórnotandinn skal deila notkun sinni eins jafnt og unnt er milli allra þriggja fasa skv. skilmálum þessum. Stórnotandinn skal setja upp fullnægjandi búnað til að lágmarka hvers kyns tíðni- og spennufrávik vegna álagsbreytinga. Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 1048/2004 skal mismunur á álagsstraum milli fasa ekki leiða til meira en 1% ósamhverfu í spennu á afhendingarstað. Sé því haldið fram að ófullnægjandi eftirlit stórnotandans hafi leitt til þess að spenna hafi farið út fyrir þau mörk sem tilgreind eru í grein 3.1 hér að ofan og að tíðni hafi farið út fyrir mörkin +/- 1.0 Hz við eðlilegan rekstur (sem undanskilur hvers kyns neyðartilvik svo sem neyðarstöðvanir á álagi stórnotandans, sem eru sérstaklega undanskilin skv. skilmálum þessum) er Landsneti heimilt að fara fram á formlega skýringu á viðkomandi tilviki frá stórnotandanum og, telji Orkustofnun skýringuna ófullnægjandi, að rjúfa flutning raforku tímabundið eftir að hafa sent stórnotandanum formlega tilkynningu þar að lútandi. Viðkomandi skilmálar skulu gilda um hvers kyns bótaskyldu sem af hlýst. Landsnet skal hefja afhendingu raforku á ný eins fljótt og auðið er eftir að nægilegar ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir ófullnægjandi eftirlit stórnotandans.

3.4 Landsnet skal veita stórnotandanum upplýsingar um kerfið, þ.m.t. um hugsanlegar breytingar í framtíðinni sem eru nauðsynlegar vegna tilhögunar á yfirtíðnisíum í þéttum í aðveitustöð stórnotandans. Tilhögunin skal taka mið af lágmarksskammhlaupsafli afhendingarstaðarins sem Landsnet tilgreinir fyrir viðkomandi verkefni.

3.5 Eigi síðar en á degi fullrar afhendingar skal leyfileg hámarksyfirtíðnibjögun á afhendingarstað vera innan þeirra marka sem tilgreind eru í IEEE-staðli 519-1992, miðað við hlutfall af grunntíðni málspennu, (e. Nominal fundamental frequency voltage) eins og sýnt er í töflunni hér að neðan:
 

                                                 

Mörkin í töflunni hér að ofan skal nota sem gildi í kerfishönnun fyrir eðlilegan rekstur (ástand sem varir lengur en í eina klukkustund). Fyrir styttri tímabil en eina klukkustund eða við uppkeyrslu er heimilt að fara 50% fram yfir mörkin.

Mörkin fyrir útgeislun yfirsveiflustrauma (e. Harmonics current emission limit) skulu skilgreind innan þeirra lágmarkskrafna sem gerðar eru í töflunni hér að ofan, á grundvelli athugana stórnotandans á yfirsveiflum sem Landsnet samþykkir. Þegar Landsnet hefur veitt skriflegt samþykki sitt fyrir mörkunum fyrir útgeislun yfirsveiflustrauma ber stórnotandinn ábyrgð á því að halda yfirsveiflustraumum innan skilgreindra marka, sem báðir aðilar hafa samþykkt skriflega.

3.6 Landsnet mun mæla yfirsveifluna á afhendingarstaðnum. Eftir dagsetningu fullrar afhendingar mælir Landsnet aftur yfirsveiflur til staðfestingar á því að yfirsveiflubjögun sé innan samningsbundinna marka sem greinir hér að ofan.

3.7 Aðilar skulu komast að samkomulagi um ákvæði sem skulu gilda á tímabili uppkeyrslu hjá stórnotandanum í stað ákvæða þessarar 3. greinar um gæði samningsbundins rafmagns.

 

4. Greiðslur og kaupskylda

4.1 Ákvæði almennra skilmála Landsnets A.1 um verð og greiðslutilhögun, einkum í 6. grein þeirra skilmála, skulu gilda um stórnotendur auk ákvæða þessarar 4. greinar.

4.2 Stórnotandinn skuldbindur sig til að inna af hendi greiðslu skv. kaupskyldu fyrir flutning samningsbundins rafmagns fyrir hvert ár, hvort sem raforkan fyrir slík tímabil er í raun flutt og hvort sem magn hennar nær viðeigandi ársmeðaltali eða ekki.

4.3 Frá dagsetningu fullrar afhendingar gildir kaupskyldan á ársgrundvelli og er stórnotandanum þá skylt að greiða fyrir flutning á 85% samningsbundins rafmagns á ári og viðkomandi árlega aflnotkun út allt samningstímabilið. Fyrir fyrsta og síðasta árið skal leiðrétta kaupskylduna hlutfallslega í samræmi við þann hluta ársins sem heyrir undir samningstímabilið.

4.4 Þrátt fyrir greinar 4.1 og 4.2 skal stórnotandinn undanskilinn þessari kaupskyldu komi upp óviðráðanleg atvik (force majeure) eða ef Landsnet brýtur verulega á skuldbindingu sinni um að flytja samningsbundna rafmagnið í samræmi við skilmála þessa vegna eigin atvika er varða Landsnet.

4.5 Stórnotendur sem fá raforku afhenta á lægri spennu en 132kV og nota ekki meira en 75 MW á ársgrundvelli skulu eiga þess kost að annað hvort a) greiða fjárhæð sem nemur kaupskyldunni í samræmi við þessa 4. grein eða b) greiða viðbótarkostnaðinn áður en afhending hefst eins og nánar greinir í skilmálum B9 um afhendingu rafmagns til stórnotenda á lægri spennu en 132 kV.

 

5. Ábyrgð

5.1 Að því er varðar skilmála þessa og viðkomandi flutningssamninga skal hvor aðili um sig aðeins bera ábyrgð á tjóni sem hann veldur hinum aðilanum af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Aðilinn sem verður fyrir tjóni ber ábyrgð á því að gera viðeigandi ráðstafanir til að takmarka/koma í veg fyrir tjónið. Láti hann hjá líða að gera slíkar ráðstafanir getur það leitt til takmörkunar skaðabóta sem hann hefði annars átt rétt á samkvæmt almennum reglum um skaðabótaskyldu.

5.2 Hvorugur aðilanna skal eiga rétt á skaðabótum vegna óbeins eða afleidds tjóns, t.d. tekjumissis, taps á starfsemi eða hindrana á því að standa við skuldbindingar við þriðja aðila, nema að því marki sem slíkt tap er af völdum samningsbrots gagnaðilans eða undirverktaka hans (á hvaða stigi sem er) af ásetningi.

5.3 Landsnet ber ekki ábyrgð á tjóni sem stórnotandinn verður fyrir vegna þess að sölufyrirtæki sem ber jöfnunarábyrgð skv. skilmálum B.3 tilkynnir ekki eitthvað, gerir ekki uppgjör eða veitir Landsneti á annan hátt ekki réttar upplýsingar um viðskipti með raforku eða tengd mál á umsömdum tíma við Landsnet.

5.4 Landsnet ber ekki skaðabótaábyrgð vegna misbrests á afhendingu rafmagns umfram þá skyldu að veita kerfisþjónustu.

5.5 Þrátt fyrir grein 5.1 ber stórnotandinn ábyrgð á hvers kyns tjóni á búnaði/mannvirkjum Landsnets og notenda flutningskerfisins af völdum rafstraums frá stórnotandanum, að því gefnu að hvorki Landsnet né þriðji aðili sem gerir kröfu vegna slíks tjóns, eftir atvikum, hafi valdið tjóninu. Í slíkum tilvikum skulu almennar reglur skaðabótaréttar um einfalt gáleysi gilda. Nú veldur þriðji aðili sem er viðskiptavinur Landsnets stórnotanda tjóni vegna rafstraums þriðja aðilans, eða rafstraums frá honum, og skal þá stórnotandinn eiga rétt á að innheimta hvers kyns skaðabætur sem þriðji aðilinn greiðir Landsneti vegna tjóns stórnotandans.

 

6. Óviðráðanleg atvik (Force Majeure)

6.1 Ákvæði skilmála Landsnets um óviðráðanleg atvik (Force Majeure) eru bindandi fyrir viðkomandi stórnotanda og gilda um samningsskyldur skv. skilmálum þessum, auk ákvæðanna í greinum 6.2–6.4.

6.2 Skilmálar þessir framlengjast sem svarar þeim tíma sem óviðráðanleg atvik standa yfir nema um annað sé sérstaklega samið milli aðila.

6.3 Valdi óviðráðanlegt atvik því að afhent samningsbundið rafmagn minnkar eru Landsnet og stórnotandinn sammála um að (a) verða í stöðugu sambandi um að auka afhenta raforku til stórnotandandans í fullt magn samningsbundins rafmagns, og mun hvor aðili um sig leita allra eðlilegra leiða til að auka aftur afhenta orku eins fljótt og auðið er, (b) viðkomandi aðili skuli kappkosta að útvega raforku annars staðar frá í stað raforkunnar sem gæti tapast af völdum slíks óviðráðanlegs atviks og (c) þegar um er að ræða rof á raforkuafhendingu í minna en tuttugu og fjórar (24) klukkustundir eigi stórnotandinn rétt á, að því marki sem er tæknilega mögulegt, að fá afhenta viðbótarraforku sem samningsbundið rafmagn á tímabili sem aðilarnir koma sér saman um.

6.4 Þrátt fyrir hvers kyns ákvæði um hið gagnstæða í greinum 6.1–6.4 fyrir dagsetningu fullrar afhendingar:

(a) skal aðili sem verður fyrir áhrifum af óviðráðanlegu atviki sem veldur, eða er líklegt til að valda, töf á verklokum eða á lokum framkvæmda við flutningskerfið eða nauðsynleg mannvirki sölufyrirtækis (a) tilkynna gagnaðilanum um það án tafar og (b) grípa til allra eðlilegra ráðstafana sem hann hefur á valdi sínu til að koma í veg fyrir eða yfirstíga áhrif óviðráðanlega atviksins og á sama tíma hafa samráð við gagnaðilann vegna atviksins og um hugsanleg viðbrögð við því. Séu áhrif atviksins slík að aðilinn sem fyrir þeim verður telur, eftir því sem hann fær best séð, að hann komist ekki hjá töf við framkvæmdir á verkefni sínu með því að grípa til allra eðlilegra og tiltækra ráðstafana skal honum heimilt að tilkynna gagnaðilanum skriflega um frestun á dagsetningu fullrar afhendingar fram á seinni dagsetningu sem fram kemur í tilkynningunni, ávallt að því tilskildu að frestunin sé ekki lengri en töfin sem óviðráðanlega atvikið veldur.

(b) skal senda tilkynningu um frestun skv. undanfarandi málsgrein eins fljótt og auðið er og eigi síðar en þrjátíu (30) dögum eftir að töfinni vegna óviðráðanlega atviksins lýkur. Nú veldur óviðráðanlegt atvik sem stórnotandi hefur tilkynnt um töf á lokum framkvæmda við nauðsynlegt mannvirki sölufyrirtækis og skulu aðilar þá kappkosta að útvega raforku annars staðar frá í stað orkunnar sem kann að tapast vegna óviðráðanlega atviksins. Hinum aðilanum er heimilt að véfengja tilkynninguna um frest, tímalengd meintrar tafar eða beitingu ráðstafana til að yfirstíga slíka töf, að því tilskildu að slík véfenging komi fram skriflega eigi síðar en sextíu (60) dögum eftir að tilkynningin berst. Takist ekki að jafna slíkan ágreining með samkomulagi er heimilt að vísa honum til dómsúrskurðar eða gerðardóms, og skal hið síðara vera að beiðni annars hvors aðilans. Dómstóllinn eða gerðardómurinn skal hafa vald til að fella úrskurð um deiluatriðin er varða slíka véfengingu eftir því sem við á.

 

7. Skyldur og vanefndir

7.1 Landsneti og stórnotandanum er hvorum um sig skylt að byggja, viðhalda og starfrækja mannvirki sín í samræmi við starfshætti góðra og vandaðra rekstraraðila og lagfæra án tafar allar misfellur og galla sem valda eða geta valdið hinum aðilanum hættu á tjóni. 

7.2 Komi upp misfella eða galli í mannvirkjum stórnotandans sem geta falið í sér umtalsverða áhættu með tilliti til vandaðs rekstrar mannvirkja Landsnets, afhendingar Landsnets á raforku til viðskiptavina eða fyrir mannvirki viðskiptavina Landsnets skal Landsneti heimilt að rjúfa afhendingu raforku til stórnotandans þar til bætt hefur verið úr slíkri misfellu eða galla. Hvenær sem unnt er í slíkum tilfellum skal veita viðvörun fyrirfram og ávallt senda skriflega tilkynningu þar á eftir.

7.3 Stórnotandinn skal gera allar eðlilegar varúðarráðstafanir og setja upp allan þann búnað sem nauðsynlegur er til að takmarka heildarorkuþörf sína við aflgetu og magn samningsbundins rafmagns. Landsneti skal heimilt að rjúfa tímabundið afhendingu fari orkunotkun stórnotandans án samþykkis Landsnets fram úr aflgetu eða magni samningsbundins rafmagns og stórnotandinn hættir ekki slíkri umframnotkun þegar þess er farið á leit. Stórnotandinn verður að staðfesta að dregið verði úr orkunotkuninni eftir því sem nauðsynlegt er áður en Landsneti verður skylt að hefja aftur afhendingu raforku.

7.4 Landsnet fellst á að áður en það nýtir sér nokkurn rétt til að skerða eða rjúfa afhendingu raforku til stórnotandans, hvort sem það er vegna þess að stórnotandinn vanefnir eða fullnægir ekki einhverri skyldu skv. skilmálum þessum, skal Landsnet hvenær sem þess er kostur veita stórnotandanum viðvörun fyrirfram, skriflega sé þess kostur, um fyrirhugað rof eða skerðingu og hæfilegan frest til að bæta úr vanefndunum áður en afhending raforkunnar er rofin eða skert.

7.5 Enginn afsláttur af greiðslum er leyfður vegna rofs á starfsemi af völdum þess að Landsnet nýtir rétt sinn skv. greinum 7.2–7.4.

7.6 Nú vanefnir eða fullnægir ekki Landsnet eða stórnotandinn einhverri skyldu skv. skilmálum þessum og er þá aðilinn sem hefur ekki vanefnt skyldu sína laus undan hvers kyns samsvarandi skyldu og skal hafa rétt á skaðabótum eða því að krefjast tiltekinna efnda, með fyrirvara um óviðráðanleg atvik og hvers kyns undanþágur frá eða takmarkanir á ábyrgð skv. skilmálum þessum.

 

8. Samstarfsnefnd

8.1 Heimilt er að setja á laggirnar samstarfsvettvang milli Landsnets, stórnotandans og sölufyrirtækjanna sem gegnir hlutverki fastanefndar og er til reiðu fyrir upplýsingaskipti og umræðu um mál er varða skipulag, framkvæmdir og rekstraráfanga í tengslum við flutning raforku til stórnotenda á samningstímanum (hér eftir „samstarfsnefnd“). Aðilarnir munu gera með sér samkomulag um skipun og verklagsreglur samstarfsnefndarinnar.

8.2 Samstarfsnefndin mun fjalla um mál og grípa til aðgerða þegar nauðsynlegt er varðandi m.a.:
a. Ferlið við að afla leyfa og annars nauðsynlegs opinbers samþykkis fyrir stórnotandann, raforkuframkvæmdir og framkvæmdir við flutningskerfið;
b. Kerfisstjórnun Landsnets;
b. Takmarkanir flutningsvirkja;
c. Greiningar á nákvæmni flutningskerfisins;
d. Áætlanir um varnarbúnað;
e. Skipulagningu viðhaldsstöðvana og viðhaldsþarfa beggja aðila sem og sölufyrirtækja;
g. Hvers kyns önnur mál er varða framkvæmd og efndir á skyldum aðila skv. skilmálum þessum.

8.3 Þegar samstarfsnefnd hefur verið sett á laggirnar skulu Landsnet, viðkomandi sölufyrirtæki og stórnotandinn eiga sæti í henni, bæði fulltrúar stjórnenda og verkefnastjóra. Fundir samstarfsnefndarinnar skulu haldnir ársfjórðungslega frá stofnun hennar fram að dagsetningu fullrar afhendingar og minnst árlega eftir dagsetningu fullrar afhendingar, og oftar ef aðilarnir og sölufyrirtækin eru sammála um það. Samstarfsnefndin tekur ekki formlegar ákvarðanir varðandi skilmála þessa en setur starfsreglur eftir því sem þörf er á.

 

9. Framsal

9.1 Aðilar skulu ekki hafa rétt til að framselja eða veita öðrum réttindi sín eða skyldur skv. skilmálum þessum eða flutningssamningum án sérstaks skriflegs samþykkis gagnaðilans; þó skal ekki synja um slíkt samþykki með ósanngjörnum hætti.

9.2 Þrátt fyrir grein 9.1 telst það ekki brot á þessu ákvæði ef Landsnet framselur réttindi sín og skyldur skv. skilmálum þessum án samþykkis stórnotandans til félags eða félaga eða annars lögaðila vegna beinna stjórnvaldsfyrirmæla, hvort sem það eru fyrirmæli stjórnsýsluyfirvalds eða dómstóls, eða vegna lagabreytingar eða setningar nýrra laga eða reglugerðar, að því tilskildu að slíkur framsalshafi, sem er þriðji aðili, beri fulla ábyrgð á efndum á öllum skuldbindingum Landsnets skv. skilmálum þessum og að stórnotandanum sé veittur sextíu (60) daga skriflegur fyrirvari.

9.3 Þrátt fyrir grein 9.1 telst það ekki brot á þessu ákvæði ef stórnotandinn framselur réttindi sín og skyldur skv. skilmálum þessum án samþykkis Landsnets til hlutdeildarfélags síns, lánardrottna eða fjármálastofnana sem hafa veitt stórnotandanum eða hlutdeildarfélögum þess lán, sem tryggingu fyrir hvers kyns fjármögnun eða endurfjármögnun varðandi iðjuver, að því tilskildu að Landsneti sé veittur sextíu (60) daga skriflegur fyrirvari.

 

10. Brot á skilmálum

10.1 Vanræki stórnotandi skyldur sínar skv. skilmálum þessum er Landsneti heimilt að segja upp viðkomandi samningi um flutning raforku eða fara þess á leit að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga.

 

11. Eftirlit og úrræði

11.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi skv. raforkulögum og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda skv. lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.

11.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skulu aðilar leitast við að leysa ágreininginn.

11.3 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skal leita úrlausnar Orkustofnunar í tilvikum þar sem stofnunin hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga og úrskurðarnefndar raforkumála þegar við á. Úrskurði úrskurðarnefndar má vísa til dómstóla skv. 30. gr. raforkulaga.

11.4 Heyri lausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

 

12. Tilvísanir

12.1 Skilmálar B.3 um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.

12.2 Almennir skilmálar A.1 um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.