B.8 Skilmálar fyrir stórnotendur sem fá orku afhenta beint frá virkjunum

Útgáfa 1.0 gefin út 01.01.2013

1. Inngangur

1.1  Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum.

1.2  Skilmálar þessir eru staðfestir af ráðherra sbr. 6. mgr. 9. gr. raforkulaga.

2. Skilgreiningar

2.1  Afhendingarstaður er sá staður í flutningskerfi þar sem úttekt raforku fer fram.

2.2  Flutningskerfi er raflínur og mannvirki þeim tengd sem eru nauðsynleg til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna. Skil milli virkjunar og flutningsfyrirtækis eru við innkomandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins. Vinnslufyrirtæki á því vélaspenni, eldingavara og tengingu við tengivirki. Með sama hætti eru skil milli flutningsfyrirtækis annars vegar og dreifiveitna/stórnotenda hins vegar við útgangandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins.

2.3  Notandi er sá sem kaupir raforku til eigin nota.

2.4  Stórnotandi er notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári. Nýir notendur hafa þriggja ára aðlögunartíma til að ná fram skilyrðum um 80GWst á ári og miðast upphaf þess tíma við fyrstu afhendingu raforku, að undanskildum uppkeyrslutíma. Notandi sem er í framleiðslu sinni háður því að fá aðrar afurðir jarðhitavirkjunar en aðeins raforku getur óskað heimildar Orkustofnunar til beinnar tengingar við virkjunina, líkt og stórnotandi með 80 GWst á ári, enda þótt hann nái ekki stórnotendaviðmiðum og gjaldið fyrir þessa úttekt er það sama og fyrir stórnotanda sbr. 6. mgr. 12. gr. a raforkulaga.

2.5  Virkjun er mannvirki sem notað er til vinnslu raforku. Tvær eða fleiri einingar sem mynda eðlilega heild og tengjast flutningskerfinu eða dreifikerfi gegnum sameiginleg tengivirki teljast ein virkjun.

3. Almennt

3.1  Skilmálar þessir gilda fyrir stórnotendur sem fá orku afhenta beint frá virkjun sem nýtur tengingar við flutningskerfið, án þess að orkan fari um flutningskerfið og án þess að flutningskerfið taki þátt í kostnaði við tengingu notandans, sbr. 5. mgr. 12. gr.a raforkulaga. Skilmálarnir gilda fyrir stórnotendur, hvort sem þeir eru alfarið háðir viðkomandi virkjun um orku eður ei.

3.2  Að öðru leyti og eftir því sem við á gilda skilmálar Landsnets sem gilda um stórnotendur.

3.3  Ef fleiri en einn notandi eða stórnotandi fær rafmagn afhent beint frá virkjun og enn einn stórnotandi óskar eftir að fá tengingu við virkjunina og flutning rafmagns skv. skilmálum þessum, þá kemur það aðeins til greina ef uppsett afl virkjunarinnar er meira en samanlögð aflþörf allra þeirra notenda og/eða stórnotenda sem þegar voru tengdir virkjuninni beint auk nýja stórnotandans.

3.4  Ekki er mögulegt fyrir stórnotanda, sem tengdur er virkjun beint, að auka rafmagnskaup sín umfram það sem uppsett afl virkjunarinnar bíður upp á. Ef stærð stórnotandans fer yfir uppsett afl virkjunarinnar skal hann tengjast flutningskerfinu beint sbr. skilmála B4.

3.5  Þeir stórnotendur, sem fá orku afhenta beint frá virkjun, skulu gera samning við Landsnet, þar sem þeir gangast undir viðeigandi skilmála Landsnets.

3.6  Komi til þess að stórnotandi uppfylli ekki skilyrði raforkulaga um notkun og nýtingartíma á einum stað þá ber honum að flytja viðskipti sín innan eins mánaðar til viðkomandi dreifiveitu vegna afhendingar rafmagnsins. Skulu þá Landsnet og viðkomandi dreifiveita koma sér saman um yfirfærslu notandans til dreifiveitunnar og uppgjör því tengt.

4. Tenging stórnotanda

4.1  Afhendingarstaður Landsnets fyrir úttekt stórnotanda, sem tengist virkjun beint, er við útgangandi rofareit í tengivirki Landsnets, þ.e.a.s. sami afhendingarstaður og fyrir viðkomandi virkjun.

4.2  Landsnet tekur ekki þátt í kostnaði við tengingu stórnotandans við virkjun, þ.e.a.s. hvorki fjárfestingarkostnaði né rekstrarkostnaði.

4.3  Stórnotandi skal sjá til þess að til reiðu sé og bera ábyrgð á rofabúnaði ásamt viðkomandi straum- og spennuspennum, mælibúnaði og liðaverndarbúnaði, sem notaður er við inntak til viðkomandi stórnotanda.

4.4  Verði rekstrartruflun eða viðhaldsaðgerð í virkjun getur Landsnet aðeins ábyrgst afhendingu til stórnotandans í þeim mæli sem flutningstakmarkanir leyfa og takmarkanir á flutningi raforku í gegnum raforkukerfi virkjunarinnar leyfa.

5. Mælingar

5.1  Rafmagn sem liggur til grundvallar gjaldtöku Landsnets skal mælt á þeim stað sem tilgreindur er í samningi milli Landsnets og stórnotanda.

5.2  Stórnotandi skal tryggja að spennu- og straumspennar fyrir þá mælingu sem tilgreind er í gr. 5.1 séu uppsettir og haldið við. Straumspennar skulu hafa a.m.k. tvö aðskilin vöf fyrir mælingar.

5.3  Landsnet skal setja upp og halda við mælabúnaði til að mæla raforkunotkun stórnotanda með klukkstundargildum. Hver eining í mælikerfinu skal hafa nákvæmni upp á 0.2%. Bæði mælar og mælaspennar skulu samþykktir af Landsneti og stórnotanda. Stórnotandi skal sjá til þess að Landsnet fái nægilegt pláss fyrir mælitæki og tryggja að settar séu upp viðeigandi tengingar, Landsneti að kostnaðarlausu.

5.4  Mælaaflestur Landsnets er framkvæmdur af Landsneti í gegnum fjarskiptakerfi. Mæligildi aðalmælis eru notuð fyrir gerð reikninga. Bæði Landsnet og stórnotandi hafa ótakmarkaðan aðgang að þessum mæligildum. Ákvæði skilmála Landsnets gilda í þeim tilvikum er upp koma frávik milli mæla.

5.5  Að öðru leyti gilda almennir skilmálar Landsnets hvað varðar mælingar, og reglugerð nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum.

6. Gæði rafmagns

6.1  Í afhendingarstað fer Landsnet eftir reglum um gæði rafmagns skv. almennum skilmálum A.1 um flutning rafmagns og kerfisstjórnun og öðrum reglum sem um það gilda.

7. Kerfisþjónusta

7.1  Landsnet veitir kerfisþjónustu sbr. skilmála C.2 um kerfisþjónustu Landsnets hf. svo framarlega sem flutningur á raforku í gegnum raforkukerfi viðkomandi virkjunar leyfir.

8. Gjaldskrá

8.1  Stórnotendur þessir greiða fyrir úttekt, kerfisþjónustu og flutningstöp samkvæmt gildandi gjaldskrá Landsnets.

9. Ábyrgð

9.1  Þar sem búnaður vinnslufyrirtækisins er á milli flutningskerfisins og úttektarstað stórnotanda frá virkjun þá takmarkast ábyrgð Landsnets í öllum tilvikum við afhendingarstað virkjunarinnar. Að öðru leyti en kveðið er á um í skilmálum þessum gilda ákvæði skilmála B.4 varðandi ábyrgð stórnotenda.

9.2  Tenging stórnotanda við virkjun, kostnaður við tengingu og viðhald er alfarið á ábyrgð stórnotandans eða þess aðila sem yfirtekur þessa ábyrgð frá stórnotanda.

9.3  Tenging stórnotanda við skilgreindan afhendingarstað Landsnets, kostnaður við tengingu og viðhald er alfarið á ábyrgð stórnotandans eða þess aðila sem yfirtekur þessa ábyrgð frá stórnotanda.

9.4  Viðkomandi rofareitur vegna stórnotanda, tilheyrandi straumspennar, spennuspennar, liðaverndarbúnður og mælibúnaður er á ábyrgð viðkomandi stórnotanda eða þess aðila sem yfirtekur þessa ábyrgð frá stórnotanda.

10. Óviðráðanleg atvik

10.1  Ákvæði skilmála B.4 varðandi óviðráðanleg atvik skulu einnig gilda um skilmála þessa.

11. Brot á skilmálum

11.1  Vanræki stórnotandi skyldur sínar skv. skilmálum þessum er Landsneti heimilt að segja upp viðkomandi samningi um flutning raforku eða fara þess á leit að Orkustofnun aðhafist á grundvelli raforkulaga.

12. Eftirlit og úrræði

12.1  Ákvæði skilmála B.4 varðandi eftirlit og úrræði skulu einnig gilda um þessa skilmála.

13. Tilvísanir

13.1  Skilmálar A.1 um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.

13.2  Skilmálar B.4 um afhendingu rafmagns til stórnotenda.

13.3  Skilmálar C.2 um kerfisþjónustu Landsnets hf.