B.9 Skilmálar um afhendingu rafmagns til stórnotenda á lægri spennu en 132 kV.

Útgáfa 2.0 gefin út 01.03.2015 

1. Inngangur

1.1 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum, reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga, reglugerð nr. 513/2003 um kerfisstjórnun, reglugerð nr. 1050/004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum og reglugerð nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi.

1.2 Skilmálar þessir fjalla um hvernig staðið skuli að afhendingu og gjaldtöku til stórnotenda sem óska eftir að fá afhent rafmagn á lægri spennu en 132kV. Viðkomandi stórnotendur greiða sérstakt niðurspenningargjald ásamt sértækum tengikostnaði, eða gjald samkvæmt gjaldskrá dreifiveitu, sbr. gr. 5.4.

1.3 Almennir skilmálar um flutning rafmagns og kerfisstjórnun (A1) eiga jafnframt við um flutning þennan.

1.4 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra sbr. 6 mgr. 9. gr. raforkulaga.

2. Skilgreiningar

Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:

2.1 Afhendingarspenna er sú spenna (málspenna) sem Landsnet afhendir rafmagn á.

2.2 Afhendingarstaður er sá staður í flutnings- eða dreifikerfi þar sem innmötun eða úttekt raforku fer fram og tilgreindur er í samningi milli Landsnets og viðskiptavinar

2.3 Kerfisframlag er hlutdeild viðskiptavinar í fjárfestingu vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á flutnings- eða dreifikerfi.

2.4 Niðurspenning er lækkun úr einni afhendingarspennu í aðra lægri.

2.5 Sértækur tengikostnaður Er kostnaður sem til fellur vegna tengingar stórnotanda sem fær rafmagn afhent á lægri spennu en 132 kV við flutningskerfi Landsnets.

2.6 Stórnotandi er notandi eins og hann er skilgreindur í raforkulögum nr. 65/2003 með síðari breytingum, og fær raforku afhenta á lægri spennu en 132 kV.

2.7 Viðskiptavinur merkir samkvæmt skilmálum þessum stórnotandi sem hefur gert samning við Landsnet um afhendingu rafmagns á lægri spennu en 132 kV eða dreifiveita sem gerir samning við Landsnet um afhendingu raforku til stórnotanda á lægri spennu en 132 kV, sbr. gr. 5.1 og 5.2.

3. Skyldur aðila

3.1 Landsnet afhendir samkvæmt skilmálum þessum rafmagn til stórnotenda á lægri spennu en 132 kV á afhendingarstað sem tilgreindur er í samningi milli Landsnets og viðskiptavinar.

3.2 Landsnet miðar við að afhending rafmagns skerðist ekki við bilun í stakri einingu sem notuð er til niðurspenningar, nema um annað sé samið.

3.3 Stórnotandi sem fær rafmagn afhent á lægri spennu en 132 kV í afhendingarstað samkvæmt skilmálum þessum skal innan þriggja ára frá upphafi afhendingar uppfylla skilyrði raforkulaga um notkun og nýtingartíma á einum stað. Komi til þess að hann uppfylli ekki þau skilyrði þá ber honum að flytja viðskipti sín innan eins mánaðar til viðkomandi dreifiveitu vegna afhendingar rafmagnsins. Skulu þá Landsnet og viðkomandi dreifiveita koma sér saman um yfirfærslu notandans til dreifiveitunnar og uppgjör því tengt.

4. Gjaldtaka

4.1 Gjald fyrir afhendingu rafmagns á lægri spennu en 132 kV skal byggjast á gjaldskrá fyrir stórnotendur, að viðbættu álagi til endurgreiðslu á raunkostnaði við niðurspenningu úr 220 kV eða 132 kV í þá afhendingarspennu sem óskað er eftir. Raunkostnaður við niðurspenningu reiknast frá útgangi spennis á 132 eða 220 kV hlið að útgangi á lágspennuhlið og er allur nauðsynlegur búnaður, þ.m.t. rofa-, varnar- og mælibúnaður að engu undanskildu, innifalinn þar í (sjá mynd 1). Við útreikning á kostnaði vegna niðurspenningar skal beita sömu aðferðum og gilda um tekjumörk stórnotenda svo sem varðandi rekstrarkostnað, afskriftir og arðsemi.

4.2 Stórnotandi skal greiða flutningsgjald samkvæmt flutningsgjaldskrá Landsnets og til viðbótar skal reikna út álag fyrir sérhvern viðskiptavin, sem er byggt á árlegum kostnaði af niðurspenningunni sem hlutfall af árlegum tekjum af flutningi samkvæmt gjaldskrá fyrir stórnotenda til hlutaðeingandi viðskiptavinar.

Þar sem:

Stofnkostnaður er stofnkostnaður við niðurspenningu, tilgreindur í Bandaríkjadollurum

Árlegt hlutfall er hlutfall stofnkostnaðar sem innheimtist árlega og inniheldur afskriftir, fjármagnskostnað, arðsemiskröfu og rekstrarkostnað.

Hlutdeild niðurspenningar er 80-100% af kostnaði við niðurspenningu.

Orkumagn er árlegt orkumagn viðskiptavinar í MWh

Orkugjald er orkugjald fyrir stórnotendur í gjaldskrá Landsnets

Afl er umsaminn afltoppur viðskiptavinar

Aflgjald er aflgjald fyrir stórnotendur í gjaldskrá Landsnets

4.3 Sértækan tengikostnað vegna tengingar stórnotanda skal stórnotandi greiða að fullu áður en afhending hefst. Er stórnotandi eigandi þess búnaðar sem hann greiðir fyrir en búnaðurinn skal vera til endurgjaldslausra afnota fyrir Landsnet, og dreifiveitu sé um það að ræða.

4.4 Viðmið um kerfisframlag skulu gilda ef þörf er á fjárfestingu vegna nýs stórnotanda vegna styrkingar flutningskerfisins, byggingu á nýjum afhendingarstað eða sértækra tengdra fjárfestinga.

 

5. Tenging stórnotenda um dreifiveitu

5.1 Stórnotandi sem fær raforku afhenta á lægri spennu en 132 kV getur valið að semja við dreifiveitu um að tengjast raforkukerfinu, enda anni flutningskerfi Landsnets og dreifikerfi dreifiveitunnar þeirra auknu notkun á afhendingarstað dreifiveitu.

5.2 Dreifiveita skal gera samning við Landsnet um afhendingu raforku til stórnotanda sem fær raforku afhenta á lægri spennu en 132 kV. Komi til fjárfestinga í flutningskerfinu vegna afhendingar raforku til stórnotanda um dreifiveitu gilda ákvæði um kaupskyldu og greiðslu viðbótarkostnaðar í gr. 4.5 í skilmálum B.4 um afhendingu rafmagns til stórnotenda. 

5.3 Afhendingarstaður Landsnets fyrir úttekt stórnotanda, er við útgangandi rofareit í tengivirki Landsnets þar sem afhending til viðkomandi dreifiveitu fer fram. Ábyrgð Landsnets takmarkast í öllum tilvikum við afhendingarstað. Landsnet tekur ekki þátt í kostnaði við tenginu stórnotandans, hvorki fjárfestingar- né rekstrarkostnaði.

5.4 Stórnotandi greiðir fyrir afhendingu rafmagns samkvæmt gjaldskrá viðkomandi dreifiveitu. Dreifiveita greiðir fyrir raforkuflutning vegna stórnotandans samkvæmt gjaldskrá Landnsets fyrir stórnotendur. Komi til þess að stórnotandi noti ekki innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári færist notkunin yfir á gjaldskrá Landsnets vegna dreifiveitna. 

5.5 Dreifiveita skal sjá til þess að til reiðu sé og bera ábyrgð á rofabúnaði ásamt viðkomandi straum- og spennuspennum, mælibúnaði og liðverndarbúnaði, sem notaður er við inntak til viðkokmandi stórnotanda. Kröfur til mælibúnaðar og meðferðar mæli- og uppgjörsgagna eru þær sömu og gilda fyrir afhendingu raforku almennt, sbr. reglugerð nr. 1040/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum og skilmálum B.6 um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.

5.6 Í afhendingarstað fer Landsnet eftir reglum um gæði rafmagns skv. almennum skilmálum A.1 um flutning rafmagns og kerfisstjórnun og öðrum reglum sem um það gilda.

5.7 Ákvæði skilmála B.4 varðandi óviðráðanleg atviku skulu einnig gilda um stórnotendur sem tengjast um dreifiveitu.

5.8 Ákvæði 6. gr. skilmála B.6 um skyldur og ábyrgð dreifiveitna gildir eftir því sem við á.

6. Ábyrgð

6.1 Landsneti og viðskiptavinum þess er skylt að byggja og starfrækja flutningsvirki og önnur mannvirki til flutnings raforku, halda þeim við í samræmi við starfshætti góðra og vandaðra rekstraraðila og lagfæra án tafar allar misfellur og galla, sem valda eða geta valdið hættu á tjóni.

6.2 Brjóti Landsnet eða viðskiptavinur þess ákvæði skilmála eða samninga settra á grundvelli þeirra sem leiðir til tjóns fyrir gagnaðilann, á tjónaþoli rétt á afslætti og/eða skaðabótum úr hendi tjónvalds eins og nánar er kveðið á um í þessari grein. Sé um verulegar vanefndir að ræða er heimilt að rifta viðkomandi samningi.

6.3 Landsnet og viðskiptavinir þess skulu eingöngu vera ábyrgir fyrir tjóni sem þeir valda með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Það er á ábyrgð tjónaþola að gera viðeigandi ráðstafanir til að takmarka eða koma í veg fyrir tjón. Misbrestur á slíkri ráðstöfun kann að takmarka þær skaðabætur sem tjónaþoli kann að eiga rétt á. 

6.4 Hvorki Landsnet né viðskiptavinir þess skulu eiga rétt til skaðabóta fyrir óbeint eða afleitt tjón, til dæmis vegna hagnaðarmissis, afnotamissis eða hindrunar á því að fullnægja skyldu við þriðja aðila, nema að því marki sem slíkt tjón er afleiðing ásetningarbrots á samningsskyldu aðila eða undirverktaka slíks aðila (á hvaða stigi sem er).

6.5 Bótaábyrgð aðila á grundvelli skilmála þessara eða samninga sem á þeim byggja er takmörkuð við fjárhæð sem nemur fjórföldu gjaldi fyrir flutning raforku sem verður ekki flutt vegna aðgerða eða aðgerðaleysis, en þó aldrei meira en sem nemur kr. 50.000.000 fyrir hvert einstaka tilvik. Bætur eru þó ekki greiddar fyrir einstaka tjón lægra en kr. 1.000.000. Við mat á því hvað telst einstakt tjónstilvik skal litið svo á að tjón sem einn og sami atburður veldur innan sama sólarhrings teljast til eins tjónsatviks.

6.6 Landsneti og viðskiptavinum þess er heimilt að semja um frávik frá ábyrgðarákvæði þessarar 5. greinar.

7. Brot á skilmálum

7.1 Ef viðskiptavinur vanrækir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum eða viðskiptasamningi um flutning er Landsneti heimilt að rifta þeim samningi eða óska eftir að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. kafla raforkulaga.

8. Eftirlit og úrræði

8.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi samkvæmt raforkulögum og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.

8.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skulu aðilar leitast við að leysa þann ágreining.

8.3 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðavald á grundvelli VII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Úrskurði úrskurðarnefndar má vía til dómstóla skv. 30 gr. VII. kafla raforkulaga.

8.4 Heyri úrlausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

9. Tilvísanir

9.1 Almennir skilmálar A.1 um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.

9.2 Skilmálar B.4 um afhendingu rafmagns til stórnotenda.

9.3 Skilmálar B.6 um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.