A1 Almennir skilmálar um flutning rafmagns og kerfisstjórnun

Útgáfa 3.0 gefin út 15.07.2008

1.     Inngangur

1.1      Landsnet hf. (hér eftir nefnt Landsnet) er sjálfstætt fyrirtæki sem annast raforkuflutning og kerfisstjórnun í íslenska raforkukerfinu.

1.2      Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum (hér eftir nefnd raforkulög), og reglugerðum nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga, nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu, nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum, og nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi.

1.3      Skilmálar þessir gilda um starfsemi Landsnets. Sá sem tengist flutningskerfi Landsnets og/eða stundar viðskipti með raforku ber að hlýta þeim ásamt öðrum skilmálum Landsnets sem í gildi eru á hverjum tíma. 

1.4      Skilmálar þessir eru staðfestir af ráðherra sbr. 6 mgr. 9. gr raforkulaga.

2.     Skilgreiningar

Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:

2.1      Dreifiveita er fyrirtæki sem hefur leyfi til dreifingar raforku á afmörkuðu svæði.

2.2      Flutningskerfi eru raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka með raforkulögum nr. 65/2003 með síðari breytingum. Það nær frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana sem tengjast því, sbr. 3. mgr. 5. gr. raforkulaga

2.3      Jöfnunarorka er óumsamin orka, sem samsvarar mun áætlaðrar framleiðslu og raunframleiðslu annarsvegar, og hins vegar mun áætlaðrar notkunar og raunnotkunar.

2.4      Kaupskylda á við þá samningsbundnu upphæð sem viðskiptavini er skylt að greiða Landsneti árlega hvort heldur rafmagn er flutt eður ei.

2.5      Kerfisþjónusta er þjónusta, önnur en framleiðsla raforku, sem notuð er til að starfrækja stöðugt og öruggt raforkukerfi. Í kerfisþjónustu felst reiðuafl vegna tíðnistýringar, reiðuafl vegna truflana, hægvirkt varaafl, hraðvirkt varaafl og varalaunafl.

2.6      Raforkukerfi er allur sá búnaður sem notaður er við vinnslu, flutning og dreifingu raforku og myndar starfræna heild.

2.7      Reglunarafl er það afl sem Landsnet útvegar til að jafna frávik milli áætlaðrar og raunverulegrar heildaraflnotkunar í raforkukerfinu.

2.8      Reiðuafl á við um það afl sem vinnslueining, með sjálfvirkri tíðnireglun, getur framleitt til viðbótar án fyrirvara.  Reiðuaflið er skilgreint við 50 Hz tíðni og á við um vinnslueiningar sem framleiða raunafl inn á net þá stundina.

2.9      Skerðanleg notkun á við raforkunotkun sem Landsneti er heimilt að láta skerða vegna truflana í flutningskerfinu eða raforkuverum, vegna flutningstakmarkana, viðhalds eða reglubundinna prófana.  Skerðingar og skömmtun á grundvelli 9. mgr. 9 gr. raforkulaga eru hér undanþegnar.

2.10    Sölufyrirtæki er fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu.

2.11    Stórnotandi er Notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira.

2.12    Tengisamningur flutningskerfis er samningur flutningsfyrirtækis við vinnslufyrirtæki, dreifiveitu eða stórnotanda um tengingu þessara aðila við flutningskerfið, flutning raforku, mælingu hennar eða aðra þjónustu tengda afhendingarstað raforkunnar.

2.13    Varaafl á við aflgetu tiltækrar vinnslueiningar, sem ekki er fösuð við raforkukerfið,  en hægt er að ræsa og fasa við það, og nýta að fullu innan ákveðinna tímamarka eftir að beiðni er send.

2.14    Vinnslueining er ótiltæk ef hún er biluð eða í viðhaldi, annars er hún tiltæk, þ.e. tilbúin í rekstur.

2.15    Vinnslufyrirtæki er fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.

3.     Réttindi og skyldur Landsnets

3.1      Landsnet annast uppbyggingu og rekstur flutningskerfis raforku og kerfisstjórnun samkvæmt III. kafla raforkulaga. 

3.2      Landsnet ber ábyrgð á öruggri stýringu raforkukerfisins og ber að tryggja öryggi, áreiðanleika og gæði við raforkuafhendingu.

3.3      Í rekstri flutningskerfisins ber Landsneti m.a. að:

    a.    Tengja alla þá sem eftir því sækjast við flutningskerfið, enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði skv. tengiskilmálum og greiði tengigjald samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá. Þó er heimilt að synja aðilum um aðgang að flutningskerfinu á grundvelli sjónarmiða um flutningsgetu, öryggi og gæða kerfisins. Synjun skal vera skrifleg og rökstudd. Sá sem synjað er um tengingu getur farið fram á upplýsingar um með hvaða hætti og innan hvaða tíma gera megi breytingar á kerfinu sem leiði til þess að unnt sé ða tengja hann.

    b.    Útvega rafmagn í stað þess sem tapast í kerfinu.

    c.    Útvega launafl fyrir kerfið til að nýta flutningsgetu og tryggja spennugæði.

    d.    Tryggja áreiðanleika í rekstri kerfisins.

    e.    Sjá til þess að fyrir liggi spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins.

3.4      Í kerfisstjórnun raforkukerfisins felst m.a. að:

    a.    Stilla saman raforkuvinnslu og raforkuþörf svo að hægt sé að mæta frávikum milli umsaminna kaupa og raforkunotkunar, sem og að gera samninga við vinnslufyrirtæki í þessu sambandi.

    b.    Tryggja næganlegt framboð reiðuafls við rekstur kerfisins.

    c.    Samræma notkunarferla þar sem aflmæling fer ekki fram.

    d.    Mæla það rafmagn sem afhent er inn á og út af flutningskerfinu, halda utan um mælingar og skila gögnum til viðkomandi aðila svo að unnt sé að gera upp viðskipti með raforku.

    e.    Annast skipulagningu úttekta rektrareininga í raforkukerfinu.

3.5      Landsnet stýrir endur­uppbyggingu raforkukerfisins eftir rekstartruflanir.           

3.6      Landsnet skal skv. 8. mgr. 12. gr. raforkulaga krefjast greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfi veldur auknum tilkostnaði annarra notenda kerfisins. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins.  

3.7      Landsnet skal gæta jafnræðis við starfrækslu sína.

3.8      Að öðru leyti fer um réttindi og skyldur Landsnets eftir þeim lögum og reglugerðum sem í gildi eru hverju sinni.

4.     Réttindi og skyldur viðskiptavina Landsnets

4.1      Eigendum mannvirkja sem tengjast flutningskerfinu ber að afhenda Landsneti til athugunar og samþykkis uppdrætti, teikningar og lýsingar á þeim virkjum sínum, sem kunna að skipta máli vegna rekstrar flutningskerfisins.

4.2      Eigendum mannvirkja sem tengjast flutningskerfinu ber að upplýsa Landsnet um áætlanir um ný virki eða breytingar á virkjum sem geta haft áhrif á rekstur og nýtingu flutnings­kerfisins. Ný virki eða breytt má ekki taka í notkun fyrr en skilyrði sem Landsnet hefur gert til þeirra eru uppfyllt.

4.3      Eigendum mannvirkja sem tengjast flutningskerfinu ber að gera tengisamninga við Landsnet fyrir innmötunar- og úttektarstaði. 

4.4      Landsnet getur farið fram á að hafa aðgang að vísunum um stöðu rofa hjá vinnslufyrirtækjum, flutningsfyrirtæki og dreifiveitum ásamt aðgangi að vísunum annarra tækja svo og mælinga sem Landsnet telur nauðsynlegar fyrir öruggan og hagkvæman rekstur raforkukerfisins.

4.5      Eigendum mannvirkja sem tengjast flutningskerfinu ber að gera áætlanir, sem uppfylla kröfur Landsnets um hvernig þeir koma raforkuvirkjum sínum í eðlilegan rekstur eftir rekstrar­truflanir í flutningskerfinu eða virkjunum því tengdu.

4.6      Eigendum mannvirkja sem tengjast flutningskerfinu ber að halda rekstrareiningum sínum og búnaði sem tengist flutningskerfinu í góðu lagi í samræmi við gildandi lög og reglur, þ.a. ekki valdi truflunum eða tjóni á flutningskerfinu eða búnaði tengdu því.

4.7      Eigendum mannvirkja sem tengjast flutningskerfinu ber að lagfæra án tafar alla galla á rekstrareiningum sínum, sem rýra eða rjúfa flutning rafmagns milli aðila er tengdir eru flutningskerfi Landsnets.

4.8      Eigendum mannvirkja sem tengjast flutningskerfinu ber að ráða tafarlaust bót á orsökum rofs eða truflunar á rafmagnsafhendingu, sem stafar af göllum eða vanhirðu á rekstrareiningum eða búnaði, sem eru tengd við rekstrareiningar eigenda mannvirkja og í eigu hans eða viðskiptavina hans og sem skiptir máli fyrir rekstur flutningskerfisins eða kerfisstjórnun.  Það hvílir á eigendum að tilkynna Landsneti þegar í stað, hvenær truflunar hefur orðið vart og því næst, hvenær úr henni hefur verið bætt.  Eigendur eiga ekki rétt á niðurfellingu gjalda vegna rofs af þessum orsökum.

4.9      Eigendum mannvirkja sem tengjast flutningskerfinu ber að tryggja að varnar- og reglunarbúnaður sé í samræmi við skilmála um tengingu við flutningskerfi Landsnets og tilheyrandi viðauka „Requirements for protection and control principles in the Icelandic power transmission system”, svo framarlega sem búnaðurinn kann að skipta máli vegna rekstrar flutningskerfisins.

4.10    Sölufyrirtækjum og dreifiveitum ber að gera samning við Landsnet um jöfnunarábyrgð og tilkynna Landsneti um sölu- og vinnsluáætlanir og um breytingar á þeim samkvæmt skilmálum um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.

4.11    Skylt er vinnslufyrirtæki að hlíta ákvörðunum Landsnets um umfang framleiðslu svo að það geti uppfyllt skyldur sínar vegna kerfisstjórnunar skv. 9. gr. raforkulaga og skal koma fyrir það greiðsla samkvæmt samkomulagi við vinnslufyrirtæki.  

4.12    Viðskiptavinum Landsnets ber að hlýta skilmálum Landsnets um tengingu og rekstur og valda ekki truflunum eða tjóni á flutningskerfinu eða búnaði tengdu því.

4.13    Viðskiptavinum Landsnets ber að fylgja reglum Landsnets sem settar hafa verið fram í skilmálum svo og þeim lögum og reglugerðum sem í gildi eru um raforkuflutning og kerfisstjórnun.

5.     Gæði rafmagns

5.1      Landsneti afhendir rafmagn sem þriggja fasa riðstraum með sem næst 50 sveiflum á sekúndu á þeirri spennu sem tilgreind er í tengisamningi. Sveiflur í spennu (rms) skulu ekki fara fram úr plús fimm af hundraði (5%) eða mínus níu af hundraði (9%) við venjulegar rekstraraðstæður. Um gæði rafmagns fer að öðru leyti samkvæmt reglugerð nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi.

5.2      Landsnet skal tryggja, með samningum við vinnslufyrirtæki, að á hverjum tíma sé nægur reglunarstyrkur í raforkukerfinu með lágmarks reiðuafli.  Landsnet setur viðmiðunarkröfur um reglunarstyrk og reiðuafl miðað við aðstæður í raforkukerfinu hverju sinni. Einnig skal Landsnet tryggja með samningum nægjanlegt varaafl á hverjum tíma, sem getur falist í framboði reglunarafafls, skerðanlegri notkun eða vinnslu varastöðva.

5.3      Staðall 519-1992 frá IEEE (Institute of Electrical and Electronic Engineers) skal hafður til hliðsjónar þegar metið er spennugæðastig í flutningskerfinu. Bjögunarfasastraumurinn og yfirsveifluhluti fasastraumsins skulu miðast við einnar mínútu meðaltal samkvæmt mælingu við venjuleg rekstrarskilyrði.

5.4      Landsneti  og viðskiptavinum þess er heimilt að semja um strangari gæðakröfur en kveðið er á um í þessarari 5. grein.

6.     Flutningsverð, kerfisþjónusta og greiðsluskilmálar

6.1      Landsnet setur gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk sem Orkustofnun setur vegna kostnaðar við flutning á raforku.

6.2      Gjaldskrá Landsnets skal hljóta umfjöllun hjá Orkustofnun í samræmi við 7 mgr. 12. gr. raforkulaga.

6.3      Landsnet skal sjá til þess að gjaldskrá sé birt opinberlega og sé ávallt aðgengileg.

6.4      Greiðslur fyrir flutningstöp, kerfisþjónustu og jöfnunarorku koma til viðbótar við greiðslur fyrir flutning rafmagns og er innheimt í samræmi við gjaldskrá Landsnets eins og hún er á hverjum tíma.

6.5      Verð á jöfnunarorku er breytilegt og ræðst af verði á markaði hverju sinni ásamt umsýslugjaldi Landsnets.  Gjaldskrá fyrir jöfnunarorku skal birt á heimasíðu Landsnets.

6.6      Greiðslur fyrir þjónustu Landsnets skulu inntar af hendi mánaðarlega byggðar á mældum flutningi á rafmagni og töpum, kerfisþjónustu og jöfnunarorku í liðnum mánuði.  Nánari ákvæði um greiðslur fyrir töp, kerfisþjónustu og jöfnunarorku skulu vera í samræmi við gildandi skilmála á hverjum tíma að því leyti sem ekki er kveðið á um frávik vegna sérstaka aðstæðna í samningum.

6.7      Útgáfudagur reiknings er síðasti dagur þess mánaðar sem hann tekur til. Innan tíu daga að jafnaði frá lokum þess mánaðar sem notkun fór fram skal Landsnet senda viðskiptavini reikningsyfirlit sem sýnir þá fjárhæð sem greiða skal fyrir þjónustu Landsnets skv. gr. 6.6 í liðnum mánuði.  Gjalddagi reiknings er síðasti dagur þess mánaðar sem slíkt reikningsyfirlit er afhent.

6.8      Ef dráttur verður á greiðslu eru reiknaðir dráttarvextir í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  

6.9      Greiðslur skulu inntar af hendi inn á þann bankareikning sem Landsnet tilgreinir á hverjum tíma. Í árslok skal gera upp á grundvelli mælinga þau viðskipti sem byggð voru að áætluðu magni. Komi til uppgjörs á grundvelli kaupskyldu skal það framkvæmt í árslok á grundvelli samninga milli aðilanna.

7.     Mælingar og uppgjör

7.1      Landsnet ber ábyrgð á mælingu raforku inn á og út af flutningskerfinu í samræmi við  raforkulög, reglugerð nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar, með síðari breytingum, og skilmála Landsnets um mælingar og uppgjör.  Í þeim skyldum Landsnets felst m.a.: Uppsetning, rekstur og viðhald mælibúnaðar ásamt söfnun, leiðréttingu og staðfestingu mæligagna og dreifingu þeirra til viðkomandi aðila. Þó skulu stórnotendur tryggja að spennu- og straumspennar fyrir innkomandi línur séu uppsettir og viðhaldið, og skal hver spennu- og straumspennir hafa að minnsta kosti tvo aðskilda vindinga fyrir mælingar.

7.2      Landsnet skal tryggja að raforkumælar í flutningskerfinu sem notaðir eru til uppgjörs sölu og flutnings raforku uppfylli kröfur reglugerðar nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar.

7.3      Mælistaður skal vera sá staður í flutningskerfinu sem tilgreindur er sem afhendingarstaður í viðkomandi tengisamningi. Nota má tímabundið annan mælistað en skilgreindur er í tengisamningi, ef hluti mælibúnaðar er ekki til staðar svo sem straum- og/eða spennuspennar.       

7.4      Óski viðskiptavinur Landsnets eftir því að fleiri mælar á viðkomandi mælistað séu tengdir gagnasöfnunarkerfi Landsnets ber honum að gera um það sérsamning og greiða kostnað við þá mæliþjónustu. 

7.5      Landsnet skal hafa greiðan aðgang að mælibúnaði og óheimilt er að flytja mælibúnað eða breyta mælitaugum, nema í samráði við Landsnet. Viðskiptavinir skulu fylgja reglum Landsnets um aðgangsöryggi.

7.6      Landsneti ber að afhenda vinnslufyrirtækjum, sölufyrirtækjum og notendum nauðsynlegar upplýsingar til að þeir geti rækt skyldur sínar.  Upplýsingarnar skulu vera á því formi sem lýst er í skilmálum B6 um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.

7.7      Stórnotandi skal sjá til þess að Landsnet fái nægilegt pláss fyrir mælitæki og setja upp viðkomandi tengingar, Landsneti að kostnaðarlausu.

8.     Skömmtun rafmagns

8.1      Ef ófyrirséð og óviðráðanleg atvik valda því að framboð raforku fullnægir ekki eftirspurn ber Landsneti skv. 9 mgr. 9. gr. raforkulaga að grípa til skömmtunar raforku til dreifiveitna og notenda. Við skömmtun skal gæta jafnræðis og byggja á málefnalegum sjónarmiðum. 

8.2      Landsnet fylgir verklagsreglu VKL-21 (Stýring og gæsla raforkukerfisins), undirskjali REG-9 (Skerðing á afli til viðskiptavina með stuttum fyrirvara), við skömmtun rafmagns. Fyrst skal nota tiltækt afl á reglunaraflsmarkaði, síðan gripið til skerðanlegrar notkunar, því næst tiltæks varaafls og að lokum til skerðingar á forgangsorku.

8.3      Vinnslufyrirtæki er skylt skv. 2. mgr. 7. gr. raforkulaga að hlýta ákvörðun Landsnets um umfang framleiðslu svo að það geti uppfyllt skyldur sínar vegna kerfisstjórnunar.

8.4      Sjái Landsnet fyrir að truflanir muni verða á afhendingu rafmagns skal það, eins fljótt og unnt er, gera viðkomandi viðskiptavini aðvart. Reynist Landsneti ókleift af öflum sem það fær ekki ráðið við (force majeure), sbr. 10. gr. þessara skilmála, að afhenda viðskiptavini umsamið rafmagn, er Landsnet laust undan samningsskyldu sinni til flutnings rafmagns að svo miklu leyti, sem slík atvik valda.  Hins vegar skal Landsnet eins fljótt og auðið er, gera það, sem í þess valdi stendur og réttmætt getur talist vegna kostnaðar til að ráða bót á slíkum atvikum.

8.5      Landsnet hefur rétt til þess að rjúfa um stundarsakir afhendingu rafmagns vegna nauðsynlegrar vinnu við virki þess.  Rofið skal vera eins skammvinnt og frekast er auðið og á þeim tímum sólarhrings, að það valdi, að mati Landsnets, hlutaðeigandi notendum rafmagns sem minnstum óþægindum.  Landsnet skal, ef kostur er, tilkynna viðkomandi viðskiptavini fyrirhugað rof með hæfilegum fyrirvara. 

8.6      Landsneti er heimilt að rjúfa flutning rafmagns fyrirvaralaust, ef lífshætta liggur við eða sýnt þykir að yfirvofandi séu verulegar skemmdir á eignum.

8.7      Í samræmi við skilmála Landsnets og samninga við Landsnet um skerðanlega notkun er Landsneti heimilt að skerða eða rjúfa með skömmum fyrirvara skerðanlega notkun.

8.8      Landsneti  og viðskiptavinum þess er heimilt að semja um frávik frá ákvæðum þessarar 8. greinar um skömmtun rafmagns.

9.     Ábyrgð

9.1      Landsneti og viðskiptavinum þess er skylt að byggja og starfrækja flutningsvirki og önnur mannvirki til flutnings raforku, halda þeim við í samræmi við starfshætti góðra og vandaðra rekstraraðila og lagfæra án tafar allar misfellur og galla, sem valda eða geta valdið hættu á tjóni.

9.2      Brjóti Landsnet eða viðskiptavinur þess ákvæði skilmála eða samninga settra á grundvelli þeirra sem leiðir til tjóns fyrir gagnaðilann, á tjónþoli rétt á afslætti og/eða skaðabótum úr hendi tjónvalds eins og nánar er kveðið á um í þessari grein. Sé um verulegar vanefndir að ræða er heimilt að rifta viðkomandi samningi.

9.3      Landsnet og viðskiptavinir þess skulu eingöngu vera ábyrgir fyrir tjóni sem þeir valda með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Það er á ábyrgð tjónþola að gera viðeigandi ráðstafanir til að takmarka eða koma í veg fyrir tjón. Misbrestur á slíkri ráðstöfun kann að takmarka þær skaðabætur sem tjónþoli kann að eiga rétt á.

9.4      Hvorki Landsnet né viðskiptavinir þess skulu eiga rétt til skaðabóta fyrir óbeint eða afleitt tjón, til dæmis vegna hagnaðarmissis, afnotamissis eða hindrunar á því að fullnægja skyldu við þriðja aðila, nema að því marki sem slíkt tjón er afleiðing ásetningsbrots á samningsskyldu aðila eða undirverktaka slíks aðila (á hvaða stigi sem er).

9.5      Bótaábyrgð aðila á grundvelli skilmála þessara eða samninga sem á þeim byggja er takmörkuð við fjárhæð sem nemur fjórföldu gjaldi fyrir flutning raforku sem verður ekki flutt vegna aðgerða eða aðgerðaleysis, en þó aldrei meira en sem nemur kr. 50.000.000 fyrir hvert einstakt tilvik. Bætur eru þó ekki greiddar fyrir einstakt tjón lægra en kr. 1.000.000. Við mat á því hvað telst einstakt tjónstilvik skal litið svo á að tjón sem einn og sami atburður veldur innan sama sólarhrings teljist til eins tjónsatviks.

9.6      Landsneti og viðskiptavinum þess er heimilt að semja um frávik frá ábyrgðarákvæði þessarar 9. greinar.

10. Óviðráðanleg öfl (force majeure)

10.1    Óviðráðanleg öfl eru skilgreind þannig í skilmálum þessum, að átt er við atburð eða aðstæður, sem ekki eru á valdi aðilans, sem fyrir þeim verður (og kemur og hefur komið fram sem góður og vandaður rekstraraðili), enda sé þannig háttað um þau og áhrif þeirra á getu aðilans til að standa við skuldbindingar sínar, að ekki hafi með sanngirni mátt vænta þess, að tekið yrði tillit til þeirra, og að aðilanum hafi ekki verið unnt að forðast þau eða yfirvinna með eðlilegum ráðum.  Án takmörkunar um almennt gildi þess, sem að framan greinir skulu orðin “atburður eða aðstæður”, svo sem þau eru hér við höfð, taka til ófriðar (hvort sem stríðsástandi er lýst eða ekki), styrjaldaraðgerða, hernáms, byltinga, uppreisna, borgarastyrjalda, óeirða, uppþota, fjöldauppnáms, múgæsinga, hryðjuverkastarfsemi, sjóránsaðgerða, skemmdarverka, geislavirkni, farsótta, sprenginga, eldsvoða, jarðskjálfta, snjófljóða, eldgosa, ofsaveðurs, flóðbylgja, flóða, mikillar ísingar, eldinga, sóttkvía, flutningsbanna og almennrar stöðvunar á flutningum eða siglingum, og í þessu tilliti skulu óviðráðanleg öfl einnig taka til allsherjarverkfalla, staðbundinna verkfalla, viðskiptabanna, verkbanna eða ámóta vinnutruflana, sem aðili sá, er fyrir slíku verður, hefði ekki getað komið í veg fyrir eða haft stjórn á, þótt hann hefði beitt öllum eðlilegum ráðum, sem honum voru tiltæk, en eingöngu um þann tíma, sem aðilanum var ókleift að binda enda á ástandið með öllum slíkum ráðum, sem honum voru tiltæk.

10.2    Til atburða af völdum óviðráðanlegra afla teljast ekki:  (a) breytingar á markaðsaðstæðum, er áhrif hafa á kostnað eða fáanleika vöru eða þjónustu, (b) ófáanleiki tækjabúnaðar, sem með sanngirni mátti forðast með því að fylgja starfsháttum vandaðra rekstraraðila, nema að því leyti sem hann leiðir beinlínis af atburði, er fellur undir skilgreininguna á óviðráðanlegum öflum hér að ofan, eða (c) breytingar á markaðsaðstæðum, er áhrif hafa á verðlag á orku eða afli.

10.3    Misbrestur eða aðgerðarleysi af hálfu aðilanna um að efna einhverja skuldbindingu samkvæmt tengisamningum eða skilmálum Landsnets skal ekki teljast vanefnd á slíkri skuldbindingu, ef og að því leyti sem sýnt er fram á, að slíkur misbrestur eða aðgerðarleysi sé af völdum óviðráðanlegra afla eða þau afsaki hann.

10.4    Sá aðili, sem bera vill fyrir sig óviðráðanleg öfl samkvæmt skilmálum þessum, skal hafa sönnunarbyrði um tilvist slíkra óviðráðanlegra afla.  Misbrestur eða aðgerðarleysi skal, að því er þessa grein varðar, því aðeins teljast vera af völdum óviðráðanlegra afla að sá aðili, sem hlut á að slíkum misbresti eða aðgerðarleysi, sanni (a) að misbrestur hans eða aðgerðarleysi sé bein afleiðing af óviðráðanlegum öflum eins og þau eru skilgreind í 10.1 gr. hér að framan, og (b) að hann hafi sýnt hæfilega aðgæslu og gripið til allra annarra ráða, sem eðlileg mega teljast, til að forðast misbrestinn eða aðgerðarleysið.

10.5    Aðilar skulu tafarlaust tilkynna gagnaðila skriflega um óviðráðanleg öfl, er valda misbresti eða aðgerðarleysi um að efna skuldbindingar hvort heldur í heild eða að hluta.  Tilkynningu ber einnig að gefa út, þegar hin óviðráðanlegu öfl hætta að hafa áhrif á efndirnar.  Aðilinn, sem fyrir öflunum verður, skal neyta allra eðlilegra ráða til að draga úr áhrifum þessa misbrests eða aðgerðarleysis um fullar efndir af hans hálfu, og skal, um leið og hinum óviðráðanlegu öflum er ekki lengur til að dreifa, gera allar eðlilegar ráðstafanir, sem á hans valdi eru, til að hefjast handa um að efna skuldbindingar sínar með minnstu mögulegum töfum.

10.6    Til viðbótar þessum ákvæðum um óviðráðanleg öfl gilda sértæk ákvæði samninga ef við á.

11. Upplýsingaskylda

11.1    Landsnet skal hafa aðgang að öllum upplýsingum viðskiptavina sinna sem nauðsynlegar eru til að fyrirtækið geti rækt hlutverk sitt. 

11.2    Landsneti er skylt skv. 5. mgr. 9. gr. raforkulaga að veita viðskiptavinum sínum upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku.

11.3    Landsneti og viðskiptavinum þess ber, ef mögulegt er með fyrirvara, að tilkynna hvor öðrum um allar aðstæður sem skipt geta verulegu máli varðandi raforkuflutning og kerfisstjórnun.  

11.4    Upplýsingaskylda Landsnets samkvæmt þessari 11. gr. gildir að því marki sem upplýsingarnar varða ekki viðskiptahagsmuni og þagnarskyldu skv. 12. gr.

12. Þagnarskylda

12.1    Landsneti ber að setja sér verklagsreglur um stjórnun upplýsingaöryggis.

12.2    Landsnet skal skv. 8. mgr. 9. gr. raforkulaga gæta trúnaðar um upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema viðskiptavinur veiti skriflegt samþykki. Þagnarskylda nær til upplýsinga viðskiptalegs eðlis sem varða viðskiptavini og hægt væri að nýta sér í viðskiptalegum tilgangi, sbr. þó 5. mgr. 9. gr. raforkulaga.

12.3    Landsneti er heimilt að láta vinna og dreifa upplýsingum sem ekki eru rekjanlegar til einstakra viðskiptavina. 

12.4    Landsneti er heimilt að veita opinberum aðilum eða öðrum upplýsingar sé þess krafist á grundvelli laga, reglna eða dómsúrskurða.

12.5    Rísi ágreiningur um hvort Landsneti sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr.

13. Brot á skilmálum

13.1    Ef viðskiptavinur vanrækir skyldur sínar  samkvæmt skilmálum þessum og öðrum skilmálum Landsnets er Landsneti heimilt að óska eftir því að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga.

 

14. Breytingar á skilmálum

14.1    Um breytingar á skilmálum Landsnets gildir 6. mgr. 9. gr. raforkulaga. Landsnet skal kynna viðskiptavinum sínum um verulegar breytingar sem fyrirhugaðar eru á skilmálum a.m.k. 30 dögum áður en þær taka gildi og senda út endanlega skilmála 7 dögum fyrir gildistöku þeirra.

15. Eftirlit

15.1    Orkustofnun og Samkeppniseftirlitið hafa eftirlit með því að Landsnet starfi samkvæmt raforkulögum og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum Landsnets.

16. Meðhöndlun ágreiningsefna

16.1    Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skulu aðilar leitast við að leysa þann ágreining.

16.2    Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Úrskurði úrskurðarnefndar má vísa til dómstóla skv. 30 gr. raforkulaga.

16.3    Heyri úrlausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

17. Tilvísanir

17.1    Verklagsregla VKL-21, undirskjal REG-9, um skömmtun rafmagns í truflanatilvikum.

17.2    Skilmálar B.6 um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.