Raforkuspá Landsnets fyrir 2024-2050 spáir áframhaldandi vexti í eftirspurn eftir rafmagni, sérstaklega vegna orkuskipta í samgöngum og aukinnar rafeldsneytisnotkunar. Eftirspurn gæti aukist um allt að 116% árið 2050.

Hægari orkuskipti í stórum bílum leiða þó til minni vaxandi orkuþarfar en áður. Nýjar virkjanir munu bæta framboð á næsta áratug, en til langs tíma gæti framboðið ekki nægt til að fullnægja vaxandi eftirspurn, sérstaklega ef rafeldsneyti verður framleitt innlent.

  • Viðvarandi orkuskortur er til skemmri tíma fram til ársins 2029, og aftur til lengri tíma eftir 2040.
  • Líkur eru á skerðingum á forgangsorku árið 2025.
  • Engin úrræði eru til við verstu tilfellum þar sem skerðingar fara umfram heimildir í samningum.
  • Framboðsspá gerir ráð fyrir að 4. áfangi rammaáætlunar verði samþykktur og nýjar virkjanir rísi á spátímabilinu.
  • Fyrsti vindlundurinn fer í rekstur 2026, sem eykur framleiðslu breytileika.
  • Vatnslón eru í sögulegu lágmarki og má búast við lægri framboði raforku en spáð var, sérstaklega vegna slæms vatnsárs.
Tveir starfsmenn í körfu sinna viðhaldi á háspennulínu á snævi þöktu hálendi

Landsnet hefur gefið út nýja raforkuspá fyrir tímabilið 2024-2050 sem nær bæði yfir þróun eftirspurnar eftir raforku á Íslandi sem og spá um þróun á framboði á raforku.

Þetta er í annað sinn sem Landsnet gefur út raforkuspá undir eigin nafni en hún kom fyrst út fyrir ári síðan og var þá fyrsta raforkuspá á Íslandi sem bæði innihélt spá um eftirspurn og framboð á raforku.

Samkvæmt spánni og sviðsmyndum mun eftirspurn eftir raforku á Íslandi halda áfram að vaxa og verða á bilinu 25,1 TWh til 28,1 TWh árið 2035 sem er vöxtur um 22% til 37% frá núverandi notkun.

Árið 2050 er svo gert ráð fyrir að eftirspurn eftir innlendri raforku verði á bilinu 33,9 TWh til 44,3 TWh. Er það aukning frá núverandi notkun um 65% til 116% frá núverandi notkun.

Stærsti hluti þessarar auknu eftirspurnar kemur frá orkuskiptum í samgöngum á landi, láði og á legi en einnig er gert ráð fyrir aukningu í almennri notkun og atvinnulífi samfara fjölgun fólks á landinu.

Sem fyrr er gert ráð fyrir að orkuskiptum á landi verði mætt með beinni notkun á rafmagni, en þróun rafhlöðutækni er mjög hröð um þessar mundir og er í spánni gert ráð fyrir að sú tækni verði ráðandi hér á landi í landsamgöngum og flutningum.

Hvað varðar stærri skip og flugvélar í millilandaflugi er hins vegar gert ráð fyrir að þau verði að mestu leyti knúin af fljótandi sjálfbæru eldsneyti, bæði lífeldsneyti sem og innlendu rafeldsneyti sem kallar á aukningu í eftirspurn eftir innlendri raforku.

Skýrsla og ítargögn

  • Raforkuspá Landsnets 2024-2050.pdf
    Sækja skjal
  • Raforkuspá Landsnets 2024 - 2050 Niðurstöður
    Sækja skjal
  • Iceland energy outlook for sustainable aviation fuel
    Sækja skjal
Graf: Spá um að framboð á raforku á árunum 2024-2025 muni ekki anna eftirspurn..

Hægari orkuskipti í samgöngum á landi

Starfsmaður Landsnets sinnir viðhaldsvinnu á raflínu.

Helsta breytingin frá fyrri raforkuspá er sú að ekki er lengur gert ráð fyrir að fullum orkuskiptum í samgöngum á landi árið 2040 eins og gert var í síðustu spá Landsnets.

Núverandi stefna gerir ráð fyrir því að bann verði lagt  á nýskráningar fólksbíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti árið 2030 og stærri bíla árið 2035.

Með eðlilegum afskráningum bíla þýðir þetta að fólksbílar verða að fullu rafvæddir árið 2043 en orkuskiptum stærri bíla verði ekki að fullu lokið árið 2050 sem er það tímabil sem spáin nær yfir.

Þetta minnkar spá um vænta eftirspurn eftir orku til samgangna á landi um 1,5 TWh árið 2050, úr 4 TWh niður í 2,5 TWh frá síðustu raforkuspá.

Stafar þessi munur aðallega af hægari orkuskiptum í stærri bílum en áður var áætlað, s.s. flutningabílum og hópferðabílum, sem eru þeir flokkar bíla sem eru orkufrekastir vegna stærðar sinnar og þyngdar.

Framleiðsla á rafeldsneyti

Einnig er búið að uppfæra útreikninga á þörf fyrir orku vegna orkuskipta í millilandaflugi og í siglingum en í spánni eru settar fram fjórar sviðsmyndir um hvernig sú þörf gæti þróast, byggð á mismunandi forsendum.

Er þar m.a. verið að horfa til hlutfall íblöndunar líf- og rafeldsneytis í flugvéla- og skipaeldsneyti, lögbundnar stefnur Evrópusambandsins og stjórnvalda á Íslandi, fjölda flugfarþega til og frá landinu sem og tækniþróun og fjárhagslega hvata.

Niðurstaðan er sú að árleg orkuþörf vegna framleiðslu á rafeldsneyti fyrir millilandaflug og skipasiglingar gæti orðið á bilinu 0,6 TWH til 3,5 TWh árið 2035 og 4,6 TWh til 15,1 TWh árið 2050 eftir því hvaða sviðsmynd raungerist.

Gert er ráð fyrir að þörf fyrir rafeldsneyti sé mætt með innlendri framleiðslu í samræmi við Orkustefnu Íslands, en að sjálfsögðu er sá möguleiki fyrir hendi að rafeldsneyti verði innflutt að hluta eða öllu leyti og breytist þá orkuþörfin samhliða.

Áframhaldandi orkuskerðingar í kortunum

Á framboðshliðinni hefur staðan í heildina breyst til batnaðar frá síðustu spá. Þó er gert ráð fyrir að orkuskortur verði viðvarandi næstu árin og að raforkuskerðingar verði áfram við lýði fram eftir þessum áratug.

Í lok áratugarins fari hins vegar nýjar virkjanir að tengjast kerfinu og mun þá jöfnuður á milli eftirspurnar og framboðs á orku breytast til batnaðar.

Í nýrri raforkuspá er gert ráð fyrir að komi inn nýir virkjanakostir sem eru í nýtingarflokki 4. áfanga Rammaáætlunar sem ekki var gert ráð fyrir í síðustu spá.

Munu þeir þannig bæta stöðuna næsta áratuginn gangi áætlanir eftir, þó mismikið eftir því hvaða eftirspurnarsviðsmynd um ræðir.

Til lengri tíma er hins vegar ekki nægilega mikið af virkjanakostum í nýtingarflokki til að fullnægja eftirspurn eftir raforku gangi áætlanir um full orkuskipti eftir.

Það á sérstaklega við ef eftirspurn eftir rafeldsneyti verður mætt með innlendri framleiðslu og hærri spár um farþegafjölda til og frá landinu ganga eftir.

Vinna við viðhald á háspennulínum við sólsetur