Yfirstjórn Landsnets í vettvangsferð á hálendinu og eystra


12.09.2013

Framkvæmd

Stjórn og framkvæmdastjórn Landsnets lögðu á dögunum land undir fót og skoðuðu fyrirhugaðar línuleiðir yfir hálendið og á Norðaustur- og Austurlandi, heimsóttu virkjanir og skiptust á skoðunum við sveitarstjórnarmenn. Ferðin stóð yfir á fjórða dag og var mjög upplýsandi fyrir bæði fulltrúa Landsnets og viðmælendur þeirra.

Fyrstu viðkomustaðir hópsins voru vindmyllur Landsvirkjunar á Hafinu við Búrfell og framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun sem fer nú að sjá fyrir endalokin á. Því næst hélt hópurinn inn á Sprengisand þar sem þátttakendur létu hvorki rigningu né rok stöðva sig í að skoða mögulegar línuleiðir fyrir fyrirhugaða háspennulínu yfir hálendið en eins og fram hefur komið í fréttum hefur Landsnet ákveðið að flýta framkvæmdum við hana til að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku á Austurlandi. Á leið hópsins yfir Sprengisand voru einnig skoðuð virkjanasvæði fyrirhugaðra Skrokköldu- , Hágöngu-, Fljótshnjúks- og Hrafnabjargavirkjana.

Annan dag ferðarinnar fundaði hópurinn með sveitarstjórnamönnum í Skútustaðahreppi og kynntu sér stöðu framkvæmda í Bjarnarflagi. Því næst var haldið austur á bóginn yfir Möðrudalsöræfi og skoðað fyrirhugað línustæði Kröflulínu 3. Lokahnykkur ferðarinnar þann daginn var svo heimsókn í Fljótsdalsvirkjun og tengivirki Landsnets við Fljótsdalsstöð.
Skoðunarferð meðfram Fljótsdalslínum 3 og 4, úr Skriðdal um Þórudalsheiði og niður til Reyðarfjarðar, var fyrst á dagskrá á þriðja degi ferðarinnar. Á Reyðarfirði var fundað með sveitarstjórn Fjarðabyggðar, farið í heimsókn í Rafveitu Reyðafjarðar, skoðaður vettvangur fyrirhugaðra Norðfjarðarganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og álver Alcoa heimsótt og rætt við forsvarsmenn þess. 

Endapunktur ferðarinnar var svo fundur með sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs og í framhaldi af honum var efnt til stjórnarfundar Landsnets í húsakynnum fyrirtækisins á Egilsstöðum. Er það einróma álit þeirra sem þátt tóku í þessari vettvangsferð yfir hálendið og um Norðaustur- og Austurland að hún hafi verið mjög gagnleg, bæði að sjá með eigin augum hvar ætlunin er að staðsetja nýju háspennulínurnar, og ekki síður að hitta og ræða augliti til auglits við sveitarstjórnarmenn og fleiri hagsmunaðila á umræddum svæðum um fyrirhugaðar framkvæmdir - og þá pattstöðu sem uppbygging flutningskerfisins er búin að vera í á undanförnum árum.

 

Svipmyndir úr ferð stjórnar

 

Aftur í allar fréttir