Í tilefni af umfjöllun Fréttablaðsins í dag, þar sem látið er að því liggja að Landsnet hafi fyrirvaralaust „kippt úr sambandi“ verksmiðju Íslenska kalkþörungafélagsins vegna viðhalds á línu, er rétt að árétta eftirfarandi:
Þann 1. mars á hverju ári gefur Landsnet út áætlun um viðhald ársins og er hún send öllum viðskiptavinum Landsnets en þeir eru raforkuframleiðendur, dreifingaraðilar raforku og stórnotendur. Snemma árs liggur því fyrir hvernig viðhaldi verður háttað á flutningskerfi Landsnets til að viðskiptavinir fyrirtækisins geti skipulagt sín mál út frá því. Viðhaldsáætlunin er einnig birt á heimasíðu Landsnets sem og einnig uppfærðar vikulegar viðhaldsáætlanir, sem taka þá til tveggja vikna í senn.Íslenska kalkþörungafélagið er ekki í hópi viðskiptavina Landsnets og það er því hlutverk viðkomandi dreifiveitu að tilkynna viðskiptavinum sínum, í þessu tilviki Íslenska kalkþörungafélaginu, ef rof vegna viðhalsverkefna hefur áhrif á starfsemi viðkomandi aðila. Það er hlutverk viðkomandi dreifiveitu að hafa samráð með góðum fyrirvara við sína viðskiptavini.
Þess er og að geta að fyrirkomulag þessara mála var til umfjöllunar á síðasta ári hjá Samráðshópi um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Landsnet upplýsti þá í minnisblaði til nefndarinnar hvert fyrirkomulagið væri. Þar er líka m.a. bent á að ef Íslenska kalkþörungafélagið óski eftir að komast á póstsendingarlista Landsnets vegna aðgerða í flutningskerfinu þurfi félagið einungis að hafa samband við tengilið Landsnets.
Að lokum skal áréttað að ráðist er í umrætt viðhaldsverkefni nú til að draga úr líkum á því að fara þurfi í umfangsmikið viðhald á Tálknafjarðarlínu í vetur.