Yfirlýsing frá Landsneti vegna úrskurðar um matsáætlun Kröflulínu 3


16.05.2015

Framkvæmd

Landsnet fagnar niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem fyrirtækið telur að sé til þess fallin að skýra þær kröfur sem gera verði til Skipulagsstofnunar og framkvæmdaraðila við gerð mats á umhverfisáhrifum framkvæmda í flutningskerfi raforku. Úrskurðurinn tekur hins vegar ekki til mats á umhverfisáhrifum framkvæmda sem þegar er lokið og hefur ekkert fordæmisgildi hvað slíkar framkvæmdir varðar.

Málavextir eru þeir að í ágúst 2013 samþykkti Skipulagsstofnun framlagða tillögu Landsnets að matsáætlun Kröflulínu 3, 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Kröflu að Fljótsdalsstöð, með athugasemdum sem taldar voru upp í 12 ótölusettum liðum. Fór Landsnet fram á rökstuðning vegna hluta athugasemdanna, m.a. til að fá fram skýrar línur um verksvið eftirlitsstofnana þar sem skil milli valdmarka stofnana þóttu óskýr í athugasemdunum, þ.e. milli Orkustofnunar sem sér um að raforkulögum sé framfylgt og Skipulagsstofnunar sem fer með mat á umhverfisáhrifum. Kærði Landsnet í framhaldinu niðurstöðuna til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í september 2013 þar sem þess var krafist að þrír liðir í athugasemdum Skipulagsstofnunar yrðu felldir úr gildi en til vara að þeir teldust ekki vera athugasemdir sem verði hluti matsáætlunar vegna umhverfismats Kröflulínu 3.

Í úrskurðinum kemur fram það mat úrskurðarnefndarinnar að athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi verið settar fram með þeim hætti að örðugt hafi verið fyrir Landsnet að gera sér fyllilega grein fyrir því til hvers var ætlast af félaginu við framkvæmd matsáætlunar að því er varðar umdeildar athugasemdir. Að mati Landsnets er þetta staðfesting þess að full ástæða var til að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar áður en lagt væri upp í kostnaðarsamt og umfangsmikið matsferli.

Úrskurðurinn felur í sér að athugasemdir Skipulagsstofnunar varðandi þörf fyrir 220 kV háspennulínu og aðra valkosti hafi falið í sér almennar ábendingar en ekki fyrirmæli sem fara beri eftir við gerð matsskýrslu. Þá kemst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að fjárhagsleg sjónarmið og tæknileg vandamál útiloki það ekki að jarðstrengir séu metnir á hluta línuleiðar. Sú skylda vegi ekki svo þungt í matsferlinu að hún sé verulega íþyngjandi enda er framkvæmdaraðila játað ákveðið mat um það á hvaða hlutum leiðarinnar sá valkostur verði metinn til samanburðar við loftlínu.

Til að eyða óvissu um á hvaða hlutum línuleiðarinnar skuli meta jarðstrengi er mikilvægt að mati Landsnets að fyrir liggi stefna stjórnvalda um lagningu raflína - stefnumótun sem Landsnet hefur kallað eftir um langt skeið - en fyrir Alþingi liggur nú þingaályktunartillaga iðnaðar- og viðskiptaráðherra um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Úrskurður UÚA: mál nr. 91/2013 

Þingsályktunartillaga 

Aftur í allar fréttir