Yfirgripsmikill haustfundur NSR


31.10.2014

Framkvæmd

„Rekstur raforkuflutningskerfisins er kominn að þanþolum og kerfið getur illa tekið við áföllum í rekstrinum, hvað þá náttúruhamförum“ sagði Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets á haustfundi Neyðarsamstarfs raforkukerfisins (NSR), sem haldinn var í húsakynnum Landsnets þann 29. október.

Þórður sagði að vandi raforkukerfisins myndi halda áfram að aukast ef ekki kæmi til styrkingar á flutningskerfinu. Á fundinum var farið yfir viðbrögð og samvinnu vegna náttúruhamfara með það að markmiði að samræma aðgerðir samstarfsaðila innan NSR. Lúðvík B. Ögmundsson formaður NSR stýrði fundinum sem þótti takast vel en hann sóttu um 40 manns frá hinum ýmsu aðilum samstarfsins auk gesta frá Innanríkisráðuneyti, Viðlagatryggingu Íslands, Póst og fjarskiptastofnun, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofunni og Vegagerðinni.

Samkvæmt skilgreiningu er NSR samvinnu¬vettvangur vinnslufyrirtækja, flutningsfyrirtækis, dreifiveitna, stórnotenda og opinberra aðila á Íslandi vegna vár sem steðjar að vinnslu, flutningi eða dreifingu raforku og / eða stórnotendum.

Eldgosið
Á haustfundinum voru haldin erindi um margvísleg málefni sem tengjast öryggi og samstarfi innan NSR og var sjónum fundarmanna fyrst beint að eldgosinu í Holuhrauni. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur ræddu eldgosið og mögulega þróun mála. Haukur segir að gosið geti bæði færst til norðurs og suðurs. Raforkukerfinu standi fyrst og fremst ógn af gosinu færist það til suðurs. Hann fór yfir þær þrjár meginsviðsmyndir sem Jarðvísindastofnun HÍ og Veðurstofa Íslands hafa sett fram sem eru:

  • Gosið í Holuhrauni fjarar út og öskjusig í Bárðarbungu hættir.
  • Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt er að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum.
  • Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt.

Þriðji möguleikinn er hættulegastur en gosi í öskju Bárðarbungu munu fylgja gríðarlegir vatnavextir. Færist gosið til suðurs telur Haukur gos á svæðinu norðan Veiðivatna líklegra en gos undir Köldukvíslarjökli og hætta á jökulhlaupi til suðurs því ekki mikil. Aðalhættan sunnan megin sé vegna gjóskufalls. Verði gos í Veiðivatnalægðinni eins og 871 og 1477 þar sem gríðarmikið grunnvatn fóðrar öskumyndun megi búast við óhemju gjóskumyndun og miklum truflunum á rafmagnsframleiðslu. Verði hins vegar gos norðan Veiðivatna megi búast við hraungosi sem vissulega geti ógnað raforkumannvirkjum á Suðurlandi fari hraunmagnið yfir 1 rúmkílómetra. Þess má geta að hraunið sem þegar hefur runnið í Holuhrauni er nú þegar orðið um 65 ferkílómetrar að flatarmáli og hraunmagnið um 1 rúmkílómetri. Hann benti hins vegar á að vísindamenn hafa mjög ólíkar skoðanir á því hvað líklegt sé að gerist næst.

Súrt regn
Einar Sveinbjörnsson ræddi um mikið magn gosefna sem er í loftinu yfir landinu um þessar mundir. Hann segir bennisteinsgas (SO2) sem berst frá gosstöðvunum á hverjum sólarhring gríðarlega mikið. Útreikningar á magninu eru á bilinu 20 til 90 þúsúnd tonn á sólarhring ef tekið er með það sem gufar upp af hrauninu sjálfu. Þetta er um tvisvar sinnum meira af SO2 en kemur frá öllum löndum Evrópusambandsins á sólarhring. Einar bendir á að SO2 gasið breytist á endanum í brennisteinssýru (H2SO4) þegar það kemst í snertingu við raka og fellur síðan til jarðar sem súrt regn. Telur hann að þessu hafi verið tiltölulega lítill gaumur gefinn, ennþá að minnsta kosti. Hann segir að einfaldar athuganir sem hann hafi gert undanfarið sýna að sýrustig (PH)úrkomu sem venjulega sé á bilinu 5,6 til 5,8 stig hér á landi hafi mælst 3,7 til 4,7 stig undanfarið en lágt sýrustig í úrkomu flýti til dæmis fyrir tæringu ýmissa málma. Einar telur að mælingar á styrk gosefna gefi ekki alltaf rétta mynd af ástandinu og sýni ekki það sem hefur safnast fyrir yfir landinu. Því gætu verið varasöm svæði inni á hálendinu þar sem gosefni safnast fyrir án þess að menn viti af því.

Sigrún Karlsdóttir vástjóri Veðurstofu Íslands fór yfir hvernig Veðurstofan miðlar mikilvægum upplýsingum til almennings. Lögum samkvæmt er hlutverk Veðurstofunnar að annast vöktun vegna náttúruvár og gefa út viðvaranir og spár um yfirvofandi hættu af völdum veðurs og veðurtengdra þátta, jarðskjálfta, eldgosa, hlaupa, vatnsflóða og ofanflóða.

Vá fyrir dyrum flutningskerfisins
Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets sagði að Landsnet stæði á hverjum degi frammi fyrir vá í rekstri flutningsnetsins sem í dag væri komið að mörkum þanþolsins. Hann segir að vegna mikilla flutningstakmarkana sé ástand flutningskerfisins í dag að færast nær því sem var í kringum árið 1970, þegar landsmenn voru annars vegar með nokkuð öflugt flutningskerfi á Suðurlandi en síðan voru raffræðilegar eyjar á nokkrum stöðum á landinu. Tenging milli þessara eyja um Byggðalínur er mjög veik og segir Þórður kerfið ekki ráða við að flytja nema takmarkaða orku á milli svæða umfram það sem gert er í dag. Rekstur kerfisins á þessum þanmörkum valdi margskonar truflunum og tjón í svæðiskerfum hafi farið vaxandi að undanförnu. „Þessi vandi mun halda áfram að aukast ef kerfið verður ekki styrkt,“ sagði Þórður. Hann fór einnig yfir árangur viðbúnaðaræfinga sem Landnet hefur staðið fyrir undanfarin ár og segir þær tvímælalaust hafa skilað árangri. Þannig hafi notkun tetrakerfisins orðið mun markvissari og öruggari og sömuleiðis skipulag og verkaskipting innan neyðarstjórnar Landsnets. Eftir síðustu æfingu séu menn betur undir það búnir að takast á við það erfiða verkefni að skerða raforku til notenda. Unnið er að því að bæta enn frekar upplýsingamiðlun frá Landsneti og undirstrikaði Þórður nauðsyn þess að skoða hlutina í víðu samhengi þannig að menn geri sér grein fyrir þeim takmörkunum sem geta mætt þeim í náttúruhamförum.

Tómas Gíslason há Neyðarlínunni 112 gerði grein fyrir Björgum, útkallskerfi
Neyðarlínunnar en um 300 aðilar um allt land eru tengdir þessu kerfi og hafa þar mismunandi hlutverk.

Upplýsingaöryggi
Njörður Ludvigsson verkefnalóðs framkvæmda og Ragnar Guðmundsson yfirmarður stjórnstöðvar hjá Landsneti gerðu grein fyrir Site Watch kortagrunni og kortasjá Landsnets og notkun Tetra kerfisins sem nú er nær eingöngu notað í samskiptum ýmissa viðbragðshópa hjá Landsneti. Tryggvi Ásgrímsson hjá netendaþjónusu RARIK fjallaði um kortagrunn RARIK og lagði meðal annars áherslu á upplýsingaöryggi og sagði raforkufyrirtækin þurfa að taka afstöðu til þess hve mikið af upplýsingum og gögnum um kerfin ætti að birta opinberlega. Nú þegar væru dæmi um að skemmdarverk hafi verið unnin á kerfunum.

Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fjallaði um störf almannavarnardeildarinnar í vá og Helgi B. Þorvaldsson hjá netrekstri Landsnets fjallaði um mikilvægi samstarfs í undirbúningi og aðgerðum. Hann lagði meðal annars áherslu á mikilvægi þess að samstarfsaðilar innan NSR þekki viðbragðsáætlanir hvers annars og hafi upplýsingar um aðgang að mannafla, tækjum og tólum samstarfsaðilanna og um skilgreiningar öryggissvæða. Ásgeir Þór Ólafsson öryggisstjóri RARIK gerði grein fyrir bæklingi sem NSR hefur látið vinna með leiðbeiningum um vinnu í öskufalli og í mengun vegna eldgosa sem nú er verið að leggja lokahönd á. Að lokum fjallaði Dóra Hjálmarsdóttir ráðgjafi hjá Verkis um gerð viðbragðsáætlana og mikilvægi þess að vera með margar sviðsmyndir til skoðunar. Hún sagði að hingað til hefðu menn mest skoðað afleiðingar mikilla flóða en ljóst sé að menn þurfi að halda áfram að huga að truflunum sem hraunrennsli og gjóskufall geta valdið.
Aftur í allar fréttir