Vistferilgreining (Live Cycle Assessment) fyrir öll spennustig loftlína og tengivirkja í flutningskerfi Landsnets leiðir í ljós að árangursríkasta leiðin til að draga úr kolefnisspori fyrirtækisins er að minnka flutningstöp í raforkukerfinu og nota eingöngu leiðara eða háspennuvíra sem framleiddir eru á svæðum þar sem endurnýjanlegir orkugjafar eru nýttir til að framleiða ál, svo sem eins og á Íslandi. Þá sýnir greiningin að umhverifsáhrifin miðað við flutta kílóvattstund (kWh) eru minnst í 220 kílovolta (kV) flutningskerfinu hérlendis.
Þetta kom fram á nýliðnu Samorkuþingi á Akureyri þar sem Hildur B. Hrólfsdóttir, umhverfis- og gæðastjóri Landsnets, kynnti helstu niðurstöður visferilsgreiningarinnar, sem er ein af mörgum aðferðum sem beitt er við stjórnun umhverfismála. Greiningin er mjög vísindalegt og öflugt verkfæri sem beitt er í vaxandi mæli, m.a. við umhverfisstjórnun fyrirtækja, opinberar ákvarðanir og í visthæfri vöruþróun.Niðurstöður vistferilgreininga gefa m.a. svokallað kolefnisspor og vistspor og eru grundvöllur að bæði umhverfisyfirlýsingum (EPD) og áreiðanlegum umhverfismerkjum. Niðurstöður vistferilgreininga eru byggðar á staðreyndum um efna- og orkunotkun og um losun efna í alla viðtaka í öllum hlutum vistferilsins, þ.e. frá námavinnslu til frumvinnslu hráefna, allra annarra vinnslustiga að fullbúinni framleiðsluvöru, dreifinu og sölu, þá er notkunartímabilið tekið með sem og endalok viðkomandi vöru eða þjónustu ásamt flutningum milli vinnslustiga. Greiningin gefur tölulegar niðurstöður um staðbundin og hnattræn umhverfisáhrif og metur magn allra mengandi efna yfir vistferilinn.
Frumkvöðlastarf á Íslandi
Mjög fáar vistferilgreiningar hafa verið birtar um flutningskerfi raforku í heiminum og engin sem byggir af jafn miklum gagnagæðum og rannsókn Landsnets. Niðurstöðurnar sýna hvar í vistferli raforkuflutingskerfisins er helst að leita orsaka að þeim 12 flokkum umhverfisáhrifa, sem metnir voru. Hjá Landsneti vegur framleiðsla og bygging innviða flutningskerfisins þyngst í öllum flokkum umhverfisáhrifa að undanskildum gróðurhúsaáhrifum, en þar vega töp í flutningskerfinu á rekstrartíma mest (57% af kolefnissporinu).
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna tapa er til komin vegna framleiðslu flutningstapa hjá orkuframleiðendum. Samsetning raforkuvinnslu á Íslandi er þannig að tæp 30% framleiddar raforku koma frá jarðvarmavirkjunum sem losa mun meira af gróðurhúsalofttegundum en vatnsaflvirkjanir. Framleiðsla á áli, fyrir leiðara, og á stáli í turna eða möstur, eru þeir þættir sem valda næst mestri losun gróðurhúsalofttegunda í vistferli flutningskerfisins.
Leiðir til að draga úr kolefnisspori Landsnets
Kolefnisspor er mælikvarði sem notaður er til að sýna áhrif athafna mannsins á loftslagsbreytingar. Kolefnisspor flutnings á einnar kWst af raforku í íslenska flutningskerfinu er 0,64 g CO2 ígildi /KWst, sem er sambærilegt við norskar niðurstöður um flutning raforku frá vatnsorkuverum en mjög lítið miðað við t.d. England þar sem kolefnisspor flutningskerfisins er 11 g CO2 ígildi /KWst.
Meginniðurstaða vistferilsgreiningar flutningskerfis Landsnets er að mestu tækifæri fyrirtækisins til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda felast í því að draga úr flutningstöpum annars vegar og hins vegar í því að velja háspennuleiðara sem framleiddir eru á svæðum þar sem notast er við endurnýjanlega orkugjafa til þess að framleiða ál, eins og t.d. á Íslandi.
Önnur áhugaverð niðurstaða greiningarinnar er sú að ef umhverfisáhrif mismunandi spennustiga miðað við flutta kWh eru borin saman, að þá eru þau minnst í 220 kV kerfinu. Helst sú niðurstaða í hendur við það að þessi hluti flutningskerfisins er best nýtta spennustigið, m.t.t innviða og magns af fluttri orku.
Niðurstöður vistferilsgreiningarinnar verða kynntar á ársfundi alheimssamtaka orkufyrirtækja (Cigré) í sumar. Það er von Landsnets að niðurstöðurnar nýtist í frekari þróun á umhverfisstjórnun fyrirtækisins, við ákvarðanir um valkosti við byggingu nýrra flutningsmannvirkja og rekstur og síðast en ekki síst í betri upplýsingagjöf til hagsmunaaðila.
Glærukynning umhverfis- og gæðastjóra Landsnets á vorfundi Samorku 14.05.2014