Vinnuslys í Þórudal


05.12.2013

Framkvæmd

Líðan starfsmanns Landsnets á Austurlandi sem slasaðist alvarlega í gær er eftir atvikum. Hann hlaut áverka bæði á höfði og á hálsi. Gert var að sárum hans á Egilsstöðum og var hann síðan fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann var undir eftirliti lækna á gjörgæslu Landspítalans í nótt en er nú kominn á almenna deild.

Slysið í gær varð með þeim hætti að starfsmaður Landsnets, sem var við annan mann við eftirlitsstörf á Teigarhornslínu 1 vegna fyrirhugaðrar styrkingar hennar, var að koma niður vegslóðann í Þórudal í átt að þjóðvegi eitt í Skriðdal. Búið var að loka vegslóðanum með keðju en merkingum þar um var mjög ábótavant og virðast mennirnir ekki hafa áttað sig á aðstæðum. Starfsmaður Landsnets ók á keðjuna með fyrrgreindum afleiðingum. Samferðamaður hans sem kom á eftir honum ók einnig á keðjuna en slapp með minniháttar áverka.

Slysið er litið mjög alvarlegum augum hjá Landsneti og hefur óháð rannsókn verið sett í gang auk þess sem farið verður ítarlega í gegnum öll málsatvik innanhúss.

Aftur í allar fréttir