Viðurkenning fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tæknifræði


24.06.2014

Framkvæmd

Gunnar Ingi Valdimarsson fékk á dögunum viðurkenningu Tæknifræðingafélags Íslands fyrir lokaverkefni í Háskólanum Reykjavík sem unnið var fyrir Landsnet í vetur, undir leiðsögn Ragnars Guðmannssonar. Titill verkefnisins er „Aukið rekstraröryggi íslenska raforkukerfisins með kvikri álagsstjórnun Norðuráls“ en aðeins þrjú verkefni fengu viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tæknifræði á þessu ári.

Tilgangur verkefnisins var að athuga hvort og hvernig væri hægt að álagsstýra álveri þegar truflanir verða í raforkukerfinu. Með hraðri stýringu álags er gangráðum og sjálfvirkum stjórnbúnaði framleiðslueininga í kerfinu gefið svigrúm til þess að takast á við truflanir þegar ófyrirséðar breytingar verða á álagi og framleiðslu tengdri raforkukerfinu. Helstu þættirnir í verkefninu voru skoðun mælinga úr Víðsjá (PhasorPoint) í Stjórnstöð Landsnets og mat á hegðun kerfisins og virkni kerfisvarna út frá mælingunum. Einnig var mismunandi afriðlabúnaður skoðaður og farið yfir virkni hans og möguleika til kvikrar álagsstýringar.

Helsta niðurstaða verkefnisins er að það er mögulegt að álagsstýra álveri sé það gert til skamms tíma í senn og í góðu samstarfi við rekstraraðila. Stýring sem þessi getur bætt verulega rekstraröryggi íslenska raforkukerfisins.

Landsnet óskar Gunnari Inga til hamingju með þessa viðurkenningu en hann útskrifaðist úr tæknifræðinni í vor. Gunnar hefur frá áramótum starfað með námi á Kerfisstjón og markaði hjá Landsneti við að útfæra nánar þær stýringar sem hann þróaði í lokaverkefninu, ásamt því að vinna með sérfræðingum á deildinni við uppsetningu fjarútleysibúnaðar vegna skerðanlegra notenda á Austurlandi.

Aftur í allar fréttir