Viðgerð við erfiðar aðstæður lokið á Þeistareykjastreng


12.05.2014

Framkvæmd

Það tekur umtalsvert lengri tíma að gera við jarðstreng en loftlínu við bestu skilyrði, hvað þá þegar veðurfar og snjóalög setja strik í reikninginn, eins og Landsnetsmenn fengu að reyna við viðgerð á Þeistareykjalínu 2, 66 kílóvolta jarðstreng, sem bilaði í ársbyrjun en hefur nú verið tekinn aftur í notkun.

Strengurinn, sem er 11,5 km langur, var lagður árið 2012 frá Höfuðreiðarmúla að Þeistareykjum. Hann er tengdur inn á Kópaskerslínu 1, sem er 66 kV lína milli Laxárvirkjunar og Kópaskers, og verður tenging Laxárvirkjunar við flutningskerfið þegar fyrirhuguð virkjun á Þeistareykjum verður tilbúin. Þangað til er strengurinn notaður til að flytja vinnurafmagn inn á virkjunarsvæðið.

Þeistareykjalína 2 var spennusett haustið 2013 en í janúar 2014, eftir aðeins nokkra mánuði í rekstri, bilaði strengurinn og tók leit að henni allnokkra daga, m.a. vegna erfðra veðurfarsskilyrða á Norðurlandi eystra og mikilla snjóalaga. Þegar bilunin fannst var tekinn bútur úr strengnum og sendur til framleiðandans í Þýskalandi. Rannsóknir þar leiddu í ljós að galli var í einangrun strengsins en það var hins vegar ekki ljóst á hve löngum kafla einangrunin væri gölluð. Blasti nú við að viðgerðarferlið gæti getið drjúgan tíma, bæði vegna tímafrekrar leitar við að kanna ástand einangrunarinnar og erfiðra aðstæðna en grafa þurftir hálfan annan metra gegnum snjóalög áður en hægt var að byrja að graf strenginn upp. 

Frosthörkur ollu einnig vandræðum því ekki er óhætt að hreyfa strenginn ef frost fer undir fimm mínusgráður og hefði þurft talsverðar tilfæringar til að hita upp þann hluta hans sem þurfti að taka upp. Þar sem ekki bráðlá á að koma strengnum aftur í gagnið var í viðgerðavinnu frestað fram yfir páska í samráði við framleiðanda strengsins, m.a. í þeirri von að þá hefðu snjóalög sjatnað og verstu frosthörkurnar gengið yfir. Það gekk eftir en töluverur snjór var þó enn á Þeistareykjasvæðinu og þurftu línumenn Landsnets að grafa um metra niður í gegnum fönn, áður en þeir gátu farið að athafna sig við að kanna ástand einangrunar strengsins á bilunarstaðnum. Sérfræðingur frá strengframleiðandanum tók þátt í þeirri vinnu og í framhaldinu var svo gert við strenginn. Lauk þeirri vinnu með því að strengurinn var spennusettur á ný, aðfararnótt 9. maí, án nokkurra vandkvæða. 

Myndir sem hér sjást voru teknar af starfsmönnum Landsnets þegar viðgerð fór fram á Þeistareykjarlínu 2.

Aftur í allar fréttir