Viðbrögð æfð við áföllum í raforkukerfinu


13.11.2015

Framkvæmd

Hátt í 200 manns tóku þátt í vel heppnaðri neyðaræfingu Landsnets, Neyðarsamstarfs raforkukerfisins (NSR) og fleiri aðila í gær þar sem æfð voru viðbrögð og verkferlar vegna mjög alvarlegs hættuástands í kjölfar ímyndaðs eldgoss í vestanverðum Vatnajökli.

Æfing 1511 hófst þar sem neyðaræfingu Landsnets og NSR haustið 2013 lauk. Öskufall og flóð höfðu þá valdið gríðarlegum skemmdum á raforkukerfinu á Þjórsársvæðinu með tilheyrandi skerðingum á raforku, þótt tekist hefði að halda hluta virkjana á svæðinu gangandi og koma á bráðabirgðatengingum eftir að flóð vegna eldgossins höfðu skolað burt hluta flutningsmannvirkja.

Landsnet og flest þeirra fyrirtækja og stofnana sem eiga aðild að NSR tóku þátt í æfingu gærdagsins ásamt Veðurstofunni og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með iðnaðarráðherra í broddi fylkingar. Segja má að fljótt hafi hitnað í kolunum og ríkti orðið algert neyðarástand á landinu þegar ekkert rafmagn barst til stóriðjunnar á Suðvestur- og Vesturlandi. Þá var stóriðjan á Austurlandi straumlaus vegna bilana og fleiri uppákoma, auk þess sem grípa þurfti til umfangsmikilla skerðinga vegna bilana í Hellisheiðarvirkjun og fleiri ástæðna.

Viðbrögð og verkferlar æfðir
Megintilgangur æfingarinnar var að láta reyna á samhæfingu allra í raforkugeiranum, ef kæmi til náttúruhamfara og atburða af þessu tagi, og æfa jafnframt og yfirfara verkferla og viðbragðsáætlanir. Grannt var fylgst með framvindu æfingarinnar í beinum sjónvarpsútsendingum þar sem leitað var viðbragða ráðherra og fulltrúa viðkomandi fyrirtækja, um stöðuna í æfingunni á hverjum tíma. Beindist athyglin ekki síst að framkvæmd raforkuskömmtunar til fyrirtækja og almennings eftir að Landsnet lýsti yfir neyðarástandi í þeim efnum og kallaði eftir ákvörðun ráðherra og ríkisstjórnar um hvernig haga skyldi orkuafhendingu – með tilliti til þjóðarhagsmuna.
Fulltrúar þátttakenda voru almennt ánægðir með skipulagningu og framgang æfingarinnar á stöðufundi við lok hennar í gær. Ýmislegt hefði komið í ljós varðandi verkferla og fleira sem betur mætti fara og í framhaldinu verður hugað að úrbótum á þeim þáttum.
Svipmyndir frá æfingu 1511

Aftur í allar fréttir