Vélbúnaður fyrir varadíselrafstöð Landsnets í Bolungarvík er væntanlegur til landsins um hvítasunnuhelgina, eða eftir tæpan mánuð, og er ætlunin að þá hefjist strax vinna við uppsetningu vélanna. Til að það megi verða er nú keppst við að ljúka þeim verkhlutum sem þurfa að vera búnir svo uppsetningin geti hafist en stefnt er að því að stöðin verði gangsett í lok október eða byrjun nóvembermánaðar.
Varaaflsstöðin er staðsett sunnan þéttbýlisins í Bolungarvík og á hún að tryggja orkuafhendingu á norðanverðum Vestfjörðum. Þar er jafnframt verið að reisa nýtt tengivirki, í samstarfi við Orkubú Vestfjarða, sem leysir af hólmi eldra virki sem er á snjóflóðahættusvæði. Undirbúningur verksins hófst haustið 2012, framkvæmdum við jarðvegsvinnu og grunn hússins lauk haustið 2013 og bygging stöðvarhússins er nú langt komin. Búið er að steypa þak og gólf en þakkantur er eftir og keppist byggingaverktakinn nú við að ljúka frágangi svo ekki verði töf á uppsetningu vélbúnaðarins.Samið var við sænska fyrirtækið Attacus Power AB um kaup á vélbúnaði, verksmiðjuprófunum lauk um mánaðamótin og nú er verið að gera vélarnar klárar fyrir flutning til Íslands. Þær eru sex að tölu og kom til landsins um hvítasunnuhelgina, eða 8.-10. júní nk. Hver vél getur framleitt 1,8 megavött (MW), eða samtals tæp 11 MW. Þær eru frá Mitsubishi, rafalarnir eru ítalskir, frá MeccAlte, og sömuleiðis spennarnir sem eru frá SEA.
Gert er ráð fyrir að rafverktakinn byrji uppsetningu á háspennubúnaði seint í maí og á henni að vera lokið í september en prófanir og gangsetning varaaflsstöðvarinnar er áætluð um mánaðamótin október-nóvember en frágangi utanhúss á að vera lokið í september. Fljótlega hefst svo vinna við breytingar á Bolungarvíkurlínum 1 og 2, með lagningu 66kV og 11kV jarðstrengja sem lýkur í sumar.
Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið er hálfur annar milljarður króna.
Myndir:
Vinna við varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík er á áætlun og gangsetning fyrirhuguð fyrir áramót. Prófunum er nýlokið hjá Attacus Power AB í Svíþjóð á vélbúnaðinum, sex 1,8 MW díselstöðvum, og eru þær væntanlegar til landsins um hvítasunnuhelgina.