Tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og austurs er besti valkosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar með stöðugleika að leiðarljósi. Þetta er niðurstaða nýrrar kerfisáætlunar Landsnets sem kynnt var á opnum fundi á Hótel Natura föstudaginn 14. ágúst en frestur til að gera athugasemdir við áætlunina og umhverfisskýrslu hennar er til 1. september 2015.
Um 130 manns sóttu fund Landsnets á Natura auk þess sem fjölmargir fylgdust með beinni útsendingu frá fundinum sem nú er aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins. Forstjóri Landsnets, Guðmundur Ingi Ásmundsson, bauð gesti velkomna og vék m.a. að þeim breytingum sem Alþingi gerði í vor á raforkulögum og festu í sessi lagagrundvöll kerfisáætlunarinnar og legðu Landsneti og Orkustofnun auknar skyldur á herðar við gerð hennar. Hann minni einnig á samþykkt Alþingis á stefnu um lagningu flutningslína í jörð sem gæfi Landsneti rýmri heimildir en áður til nýta jarðstrengi og tækju drög á nýrri kerfisáætlun mið að þessum breytingum. Hann undirstrikaði að áætlunin, sem uppfærð er árlega, er annars vegar langtímaáætlun til 10 ára um framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku og hins vegar framkvæmdaáætlun fyrirtækisins til næstu þriggja ára.Tveir meginvalkostir – níu mismunandi útfærslur
Að loknum ávarpi forstjóra Landsnets kynnti Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar og tæknisviðs Landsnets, helstu áherslurnar í nýju kerfisáætluninni. Þar er unnið áfram með valkostagreiningu sem kynnt var í síðustu kerfisátætlun en þeir lagðir fram með nokkuð breyttu sniði. Í stað þriggja meginvalkosta eru settir fram tveir meginvalkostir sem fela annað hvort í sér:
A: Tengingu yfir miðhálendið.
B: Aðgerðir við núverandi byggðalínu.
Út frá þessum tveimur aðalvalkostum eru svo lagðar til níu mismunandi útfærslur með blöndu af nýjum línum og spennuhækkun á eldri línum þar sem nýjar línur geta ýmist verið loftlínur eða jarðstrengir, allt eftir aðstæðum samkvæmt nýsamþykktri stefnu stjórnvalda.
Besti valkosturinn
Fram kom að mat á umræddum níu valkostum, sem m.a. er byggt á umhverfisáhrifum, stöðugleika flutningskerfisins, flutningsaukningu, rekstraröryggi og áhrifum á gjaldskrá, hafi leitt í ljós að Valkostur A1 - nýjar 220 kílóvolta (kV) línur á milli Blöndu og Fljótsdals, og yfir hálendið (loftlínur og jarðstrengir) – komi best út samkvæmt niðurstöðum kerfisáætlunarinnar með tilliti til fyrrnefndra þátta og lagalegra skyldna Landsnets.
Jafnframt var bent á að valkostur B1 - endurnýjun byggðalínuhringsins með 220 kV línum – væri kerfislega betri kostur en A1 en honum fylgi hins vegar meiri umhverfisáhrif og hærri framkvæmdakostnaður. Þá er langur uppbyggingartími einnig mínus á kosti B1 en tenging yfir hálendið býður upp á fljótfengnustu tenginguna milli norðurs og suðurs.
Valkostur A1 gerir ráð fyrir að stóru virkjanirnar fyrir norðan og austan, sem nú eru aðeins tengdar byggðalínunni, verði tengdar saman með öflugum línum. Þær yrðu síðan tengdar við stærsta framleiðslukjarnann á Suðurlandi með línu yfir hálendið þar sem mögulega væri lagður 50 km kafla í jörðu til að draga úr sjónrænum áhrifum tengingarinnar.
Framkvæmdaáætlun næstu ára
Kerfisáætlunin fjallar einnig um fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum Landsnets á næstu árum. Auk tengingar kísilvers í Helguvík, jarðstrengslagna á Suðurlandi og byggingar Suðurnesjalínu 2 sem sagt hefur verið frá í fréttum, má einnig nefna að á þessu ári verður ráðist í byggingu nýs tengivirkis í Grundarfirði, styrkingu Hrauneyjafosslínu og spennuhækkun til Vestmannaeyja sem leysir til frambúðar þann vanda sem nú er við að glíma vegna raforkuflutninga þangað.
Á næsta ári verður m.a. nýr spennir tekinn í gagnið í Mjólkárvirkjun, unnið við afhendingarstað á Bakka, tengingu Þeistareykja og Húsavíkur, Kröflulínu 3, Grundarfjarðarlínu og byggt nýtt tengivirki í Ólafsvík. Meðal fyrirhugaðra framkvæmda árið 2017 eru bygging tengivirkis á Sandskeiði og bygging Sandsskeiðslínu 1 samkvæmt nýlegu samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ og íbúa þar. Þá er einnig á döfinni bygging nýs tengivirkis á Hvolsvelli og lagning Fitjalínu 3. Árið 2018 eru svo áætlaðar framkvæmdir vegna Blöndulínu 3, nýrrar tengingar fyrir Sauðárkrók og stækkunar Búrfellsvirkjunar.
Umhverfisáhrif valkosta
Kerfisáætlun Landsnets fer nú í annað sinn í gegnum umhverfismat áætlana og kynnti Stefán Gunnar Thors, sviðsstjóri umhverfis- og skipulags hjá VSÓ Ráðgjöf, helstu efnisþætti umhverfisskýrslunnar. Helstu niðurstöður matsvinnunnar eru að allir kostirnir níu sem eru til skoðunar í kerfisáætluninni muni valda neikvæðum og/eða verulegum neikvæðum áhrifum á einhvern þeirra umhverfisþátta sem voru til skoðunar. Áhrifin eru ólík milli valkosta en meginmunurinn liggur þó í því hvort flutningsleið fari um hálendið eða meðfram núverandi byggðalínu. Helstu umhverfisáhrif hálendislínu felast í framkvæmdum á hálendinu og breytingum á ásýnd. Helstu umhverfisáhrif byggðalínu felast í að mun meira land fer undir flutningsmannvirki, hún fer um mörg náttúruverndarsvæði og hefur áhrif á fleiri umhverfisþætti en hálendiskostirnir. Þá er það niðurstaða umhverfismatsins að jarðstrengur á Sprengisandi muni draga úr umfangi neikvæðra áhrifa á landslag og ásýnd. Jafnframt muni tillögur að mótvægisaðgerðum geta dregið úr eða komið í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfisþætti, s.s. á landslag, ásýnd, lífríki og jarðmyndanir.
Athugasemdafrestur til ágústloka
Að erindum loknum gaf fundarstjóri, Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets, gestum kost á beina spurningum til þeirra Sverris og Stefáns Gunnars. Þar var víða komið við en frestur til að gera athugasemdir eða koma með ábendingar vegna kerfisáætlunarinnar og umhverfisskýrslunnar er til og með 1. september 2015. Þeim skal komið til Landsnets, á netfangið landsnet@landsnet.is eða á heimilisfangið Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík, merkt athugasemdir við kerfisáætlun 2015-2024.