Varaafl og snjallnet á Vestfjörðum


29.04.2015

Framkvæmd

Mikilvægum áfanga í að auka orkuöryggi á Vestfjörðum var fagnað í Bolungarvík í dag. Þá tók iðnaðar- og viðskiptaráðherra formlega í notkun nýja varaaflstöð Landsnets, nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða í Bolungarvík og snjallnetskerfi fyrir Vestfirði – sem er samheiti yfir ýmsar tækninýjungar á sviði flutnings og dreifingar raforku á svæðinu. Verkið tók rúm tvö ár og kostaði um 1,5 milljarð króna en alls hefur Landsnet fjárfest fyrir rúma þrjá milljarða í bættu orkuöryggi vestra á liðnum árum.

Landsnet hefur lengi leitað leiða til að auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum svo íbúar þar megi njóta svipaðra gæða í orkuafhendingu og aðrir landsmenn. Áfangar á þeirri leið, sem Landsnet hefur átt gott samstarf um við Orkubú Vestfjarða, eru m.a. nýtt tengivirki á Ísafirði, endurnýjun og endurbætur á rafmagnslínum í svæðiskerfinu vestra, lagning jarðstrengs milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, bygging nýs tengivirkis í Bolungarvík og varaaflsstöðvar sem tengist sjálfvirkt inn á netið verði truflun í flutningskerfinu.

Forsendan fyrir því að þessar úrbætur auki rekstraröryggi á Vestfjörðum er hins vegar svonefnt snjallnet – tæknibúnaður sem Landsnet hefur sett upp víða í Vestfjarðakerfinu og tengdur er saman í öflugu fjarskiptakerfi. Verði truflun, sem hefur það í för með sér að orkuvinnsla innan svæðisins nægir ekki til að sinna aflþörfinni, þá leysir snjallnetsbúnaðurinn út allt rjúfanlegt álag á svæðinu og ræsir um leið varavélarnar og lágmarkar þannig umfang truflunarinnar hjá raforkunotendum.

Tilkoma snjallnetsins og varaaflsstöðvarinnar hefur styrkt raforkukerfið vestra verulega og stytt til muna straumleysistíma. Þannig var viðbragðstími í straumleysi fyrir tíma snjallnetsins vart undir hálfri klukkustund á norðanverðum Vestfjörðum, s.s. á Ísafirði og í Bolungarvík, en í þeim truflunum sem orðið hafa eftir að varaaflsstöðin og snjallnetið komu til sögunnar hafa almennir notendur á svæðinu verið komnir með rafmagn að nýju eftir 1-2 mínútur.

Snjallnetið á Vestfjörðum er hið fyrsta sinnar tegundar á landinu og er Landsnet í hópi leiðandi raforkuflutningsfyrirtækja á þessu sviði í heiminum. Einnig er nýlunda að varaaflsstöð, eins og er í Bolungarvík, þjóni stórum landshluta. Afkastagetan samsvarar orkunotkun norðanverðra Vestfjarða en sex 1,8 MW dísilvélar eru í stöðinni. Framkvæmdir við varaaflsstöðina hófust árið 2013 og tók verkið rúm tvö ár. Kostnaðaráætlunin var um 1,5 milljarður króna en alls hefur Landsnet fjárfest fyrir rúma þrjá milljarða á síðustu þremur árum til að bæta orkuöryggið vestra.

Í framhaldi af umbótum á raforkukerfinu á norðanverðum Vestfjörðum er nú framundan hjá Landsneti að skoða hvernig best megi styrkja afhendingaröryggi raforku á sunnanverðu svæðinu. Jafnframt verða skoðaðir möguleikar á betri samtengingu norður- og suðursvæðisins, sem hluta af langtímalausn fyrir allan fjórðunginn, en að mati Landsnets er aukin orkuframleiðsla innan fjórðungsins forsenda þess að hægt verði að tryggja ásættanlegt raforkuöryggi Vestfjarða til framtíðar.

Myndband:
Varaafl og snjallnet á Vestfjörðum



Aftur í allar fréttir