Byggingu nýs tengivirkis og varaaflstöðvar Landsnets í Bolungarvík miðar vel áfram og er stefnt að því að stöðin verði tekin í notkun í október 2014. Hún á að tryggja orkuafhendingu á norðanverðum Vestfjörðum og tengivirkið leysir af hólmi núverandi virki í Bolungarvík sem er á snjóflóðahættusvæði. Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið er um hálfur annar milljarður króna.
Verkefnið, sem ber vinnuheitið Varaafl á Vestfjörðum, er unnið í samstarfi við Orkubú Vestfjarða sem mun einnig hafa aðstöðu í nýja tengivirkinu fyrir sinn búnað. Undirbúningur hófst haustið 2012 og eru varaaflsstöðin og nýja tengivirðið, sem verður áfast díselrafstöðvarhúsinu ásamt tveimur 100 rúmmetra olíutönkum, staðsett sunnan þéttbýlisins í Bolungarvík, á lóð nr. 24 við Tjarnarkamb.Framkvæmdum við jarðvegsvinnu og grunn hússins lauk fyrr í haust og er nú unnið að uppslætti. Stefnt er að því að steypa upp veggi fyrir áramót og þakplötu sem fyrst á nýju ári þegar veður leyfir, en byggingu hússins á að mestu að vera lokið næsta vor. Búið er að samþykkja tilboð í vélbúnað frá Attacus Power AB og er gert ráð fyrir að því að byrjað verði að koma vélum fyrir í húsinu í byrjun júní. Einnig er búið að samþykkja tilboð í uppsetningu rafbúnaðar og mun Orkuvirki sjá um þá framkvæmd næsta sumar.
Þotan hf. sá um jarðvegsframkvæmdir og ÍAV annast byggingaframkvæmdir. Fullnaðarfrágangi utanhúss á að vera lokið 1. júlí og gangsetning varaaflsstöðvarinnar er áætluð í október 2014.
Samhliða byggingu varaaflsstöðvarinnar og tengivirkisins er unnið að breytingum á Bolungarvíkurlínum 1 og 2 og hefur verið samið við Gámaþjónustu Vestfjaðra um að annast það verkefni næsta sumar.