Alvarlegt atvik tengt náttúruhamförum sem hefur mikil áhrif á allt raforkukerfið og raforkuafhendingu á öllu landinu er þema umfangsmikillar viðbúnaðaræfingar Landsnets sem fram fer í byrjun nóvembermánaðar.
Æfingin mun ná til flestra starfsmanna Landsnets, sérstaklega þó þeirra sem koma að fyrstu viðbrögðum í vá og er hún liður í stöðugu forvarnastarfi fyrirtækisins sem hefur það að markmiði að lágmarka tjón og umfang truflana. Æfingin stendur yfir í heilan dag með verklegum æfingum til að sannreyna og tímamæla viðbragðsferla en meginmarkmiðið er að samhæfa viðbrögð Landsnets og annarra hagsmunaaðila svo þeir verði enn betur í stakk búnir til að takast á við raunveruleg áföll - þegar og ef þau eiga sér stað. Umfangsminni æfingar eru haldnar reglubundið en umfangsmestu æfingarnar eru haldnar að öllu jöfnu árlega.Brugðist við náttúruhamförum
Sem fyrr er mikil vinna lögð í handrit æfingarinnar og leggja veðurfræðingur, vísindamenn og fleiri sérfræðingar Landsneti lið við undirbúninginn. Að þessu sinni munu starfsmenn fyrirtækisins þurfa að glíma við miklar náttúruhamfarir og standa þá frammi fyrir áður óþekktum atvikum sem reyna mjög á útsjónasemi þeirra og kjark.
Handritið er byggt á atburðum sem gætu átt sér stað í raunveruleikanum og þannig skapaðar aðstæður sem reyna til hins ýtrasta á viðbragðsáætlanir Landsnets og þjálfa þátttakendur í að takast á við óvænt og alvarleg áföll - samtímis því sem þeir þurfa að bregðast við alls kyns utanaðkomandi áreiti. Starfrækt verður sérstök „fréttastofa“ meðan á æfingunni stendur sem miðlar jafnóðum fréttum í máli og myndum af gangi mála til þátttakenda.
Landsnet hefur á undanförnum árum æft viðbrögð við meiriháttar náttúruvá eins og eldgosum, jarðskjálftum, öskufalli og mikilli ísingu. Hafa allar þessar æfingar skilað mikilvægum athugasemdum sem hafa verið nýttar til að endurbæta áætlanir fyrirtækisins.
Aðilum í Neyðarsamstarfi raforkukerfisins boðið að vera með
Fyrirtækjum og stofnunum sem eiga aðild að Neyðarsamstarfi rafkorkukerfisins (NSR) hefur verið boðið að taka þátt í viðbragðsæfingu Landsnets í nóvember. Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Rarik hafa þegar tilkynnt um þátttöku og ætla að æfa sín neyðarviðbrögð í tengslum við þau áföll sem dynja munu á raforkuflutningskerfinu í æfingu Landsnets. Fleiri NSR aðilar hafa sýnt æfingunni áhuga en hafa ekki ákveðið þátttöku.