Í umræðunni um afhendingu raforku frá Þeistareykjum að Bakka hefur Landsnet verið gagnrýnt fyrir að hafa sótt seint um framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni.
Í þessu samhengi er rétt að hafa það í huga að grundvallarforsenda þess að Landsnet geti ráðist í framkvæmd er að fyrir liggi samþykki Orkustofnunar fyrir framkvæmdinni. Slíkt samþykki er fengið með samþykkt Kerfisáætlunar Landsnets. Í byrjun nóvember 2015 var áætlunin lögð fyrir Orkustofnun til samþykktar sem samþykkti hana í lok apríl 2016 að loknu samráðsferli sem fylgir áætluninni.
Sótt var um framkvæmdaleyfi í mars 2016 þegar ljóst var að ekki var hægt að bíða lengur vegna tímaramma framkvæmdanna. Það var gert þrátt fyrir að ekki hafði fengist samþykki fyrir kerfisáætluninni og þar af leiðandi framkvæmdinni. Umsóknin um framkvæmdaleyfið var lokahnykkurinn á áralöngu samráðsferli með hagsmunaaðilum og að undangegnum lögbundnum ferlum.
Almennt er ekki sótt um framkvæmdaleyfi sveitarfélaga fyrr en öllum öðrum ferlum er lokið enda þurfa framkvæmdir að vera hafnar innan árs frá samþykki sveitarstjórnar fyrir veitingu leyfis. Að öðrum kosti fellur leyfið úr gildi.