Raforkuflutningskerfi Landsnets hefur ekki orðið fyrir neinum stóráföllum í óveðrinu sem gengið hefur yfir landið í gær og í dag. Útleysingar hafa orðið á flutningslínum á nokkrum stöðum en þær hafa ekki valdið rafmagnsleysi, nema stutta stund í gærkvöldi í Vík í Mýrdal og nágrannasveitum.
Nokkrar skemmdir urðu á dreifikerfi raforku á Norðurlandi vegna ísingar en flutningskerfi Landsnets hefur ekki orðið fyrir neinum alvarlegum skakkaföllum. Fylgst hefur verið náið með veðurspám og þegar óveðrið nálgaðist var viðbúnaður aukinn hjá Landsneti. Til að draga úr líkum á straumleysi og hámarka rekstraröryggi var flutningur eftir byggðalínu lágmarkaður með því að óska eftir breytingum á vinnslu aflstöðva, jafnframt því sem vélar á Austurlandi – sem ella hefðu verið frátengdar flutningsnetinu - voru tengdar því í samráði við framleiðanda. Þá voru viðskiptavinir Landsnets upplýstir um viðbúnað og mönnun í stjórnstöð Landsnets aukin til að anna kerfisstjórnun í truflunum. Vinnuflokkar voru einnig sendir úr Reykjavík á Norðausturland og á Austurlandi voru allir starfsmenn Landsnets á bakvakt og í viðbragðsstöðu. Samband var jafnframt haft við RARIK á Norðurlandi og Austurlandi til að undirbúa samvinnu og aðstoð ef þörf væri á.Helstu áhrif óveðursins á flutningskerfi Landsnets voru endurteknar útleysingar á Laxárlínu 1 sem hófust upp úr kl. 17 í gær. Á níunda tímanum í gærkvöldi urðu ítrekaðar útleysingar á Sigöldulínu 4 og Prestbakkalínu 1 með þeim afleiðingum að rafmagnslaust varð í skamman tíma hjá notendum í Vík í Mýrdal og í nágrannasveitum. Þá gætu notendur á Norður- og Austurlandi hafa orðið varir við spennusveiflur í kerfinu í einhverjum truflunum en að öðru leyti var kerfið nokkuð stöðugt við útleysingarnar. Rétt fyrir kl. 13 í dag leysti svo Kröflulína 1 út en er komin aftur í rekstur og sömuleiðis Sigöldulína 4 og Prestbakkalína 1. Þá er Laxárlína ekki í rekstri núna, bilanaleit er hafin en bilun er ekki fundin enn. Leit heldur áfram á morgun og viðgerð ef þarf.
Óveðrinu hefur fylgt aukin ísingaráraun á línur austantil á Norðurlandi og á norðanverðum Austfjörðum. Þannig eru allar truflanir sem orðið hafa á Laxárlínu 1 af völdum samsláttar sem á sér stað þegar ísing er að falla af leiðurum línunnar. Þá er staðfest að nokkuð mikil ísing er á línunni á Vaðlaheiði en vegna óveðurs verður ekki farið í að hreinsa ísingu af leiðurum fyrr en veður fer að lagast. Nú síðdegis var veður áfram slæmt en þó farið að ganga niður.