Töluverður munur á tilboðum vegna orkukaupa til að mæta flutningstapi árið 2016


13.11.2015

Töluverður munur var á tilboðum raforkuframleiðenda sem Landsneti bárust í útboði vegna kaupa á rafmagni til að mæta flutningstapi í raforkukerfinu á næsta ári en miðvikudaginn 11. nóvember sl. var gengið frá samningum um kaup á 347 gígavattstundum (GWst) vegna næsta árs.

Samið var við HS Orku, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar um kaup á ríflega 90% þeirrar orku sem Landsnet áætlar að þurfi til að mæta áætluðum flutningstöpum næsta árs. Heildarkostnaður Landsnets vegna samninganna er tæplega 1,6 milljarðar króna og hækkuðu meðalverð um 18% milli ára en meðalverð á kílóvattstund (kWst) í útboðinu nú var 4,48 krónur samanborið við 3,80 krónur á kWst í útboði haustið 2014. Ekki fengust tilboð í allt magn útboðsins og því liggur endanlegur innkaupakostnaður Landsnets ekki fyrir.

Stærstur hluti útboðsins er vegna svokallaðra grunntapa, eða 323,5 GWst. Þar voru 62% keyptrar orku frá  Landsvirkjun, 28% frá ON og 1% frá HS Orku. Meðalverð Landsvirkjunar vegna grunntapa var 4,0 krónur á kWst, meðalverð ON vegna grunntapa var 4,9 krónur á kWst og meðalverð HS Orku vegna grunntapa var 5,0 krónur á kWst. Ekki fengust tilboð í 10% grunntapanna eða sem samsvarar 33 GWst.

Vegna viðbótartapa voru keyptar 55,5 GWst. Af þeim voru 19% keyptrar orku frá Landsvirkjun og 81% frá ON. Meðalverð ON vegna viðbótartapa var 5,6 krónur á kWst en meðalverð Landsvirkjunar vegna viðbótartapa var 6,1 króna á kWst. HS Orka bauð ekki í viðbótartöpin.

Önnur orkufyrirtæki tóku ekki þátt í útboði Landsnets að þessu sinni.
Enn vantar 10% af orkunni fyrir grunntöp fyrir árið 2016. Upphæðin getur því breyst.

Aftur í allar fréttir