Stefnt er að því að senda tillögu að matsáætlun Sprengisandslínu til Skipulagsstofnunar í næsta mánuði en frestur til að gera athugasemdir við drög að matsáætlun verkefnisins rennur út 20. nóvember, sem er næstkomandi fimmtudagur, og geta allir sent inn athugasemdir.
Drög að tillögu að matsáætlun Sprengisandslínu hafa verið til kynningar frá 30. október sl. á heimasíðu Landsnets og einnig hafa verið opin hús á fjórum stöðum á landinu, í Þingeyjasveit, á Hellu, í Reykjavík og á Akureyri í gær. Þar mættu á bilinu 70-80 manns á KEA hótel til að kynna sér áform Landsnets um Sprengisandslínu og Vegagerðarinnar um Sprengisandsleið. Var mikið spurt út í leiðarval og valkosti og allmargir spurðust einnig fyrir um jarðstrengsmöguleika.Næstu skref
Athugasemdafrestur við drög að tillögu að matsáætlun rennur út fimmtudaginn 20. nóvember nk. og skal þeim skilað til verkefnisstjóra umhverfismatsins, Gísla Gíslasonar hjá Steinsholti sf., Suðurlandsvegi 1-3, 850 Hellu, eða á netfangið gisli@steinsholtsf.is. Merkja skal athugasemdir: Sprengisandslína, mat á umhverfisáhrifum.
Að athugasemdafresti liðnum verða innkomnar athugasemdir við drögin teknar saman og brugðist við þeim. Athugasemdirnar og svörin verða síðan hluti af tillögu Landsnets að matsáætlun sem send verður Skipulagsstofnun til formlegrar meðferðar. Gert er ráð fyrir að tillagan verði send til Skipulagsstofnunar í desember.
Hluti af málsmeðferð hjá Skipulagsstofnun vegna tillögu að matsáætlun felst í því að óska eftir umsögnum frá fagstofnunum og sveitarfélögum. Einnig mun almenningi og hagsmunaaðilum gefast tækifæri til að senda athugasemdir við tillöguna til Skipulagsstofnunar.
Myndir frá opnu húsi á Akureyri.