Morgunbollaspjallinu, Landsnetslífið á tímum Covid, hefur borist bréf frá verkefnastjóranum okkar í gæðamálum og samfélagsábyrgð, Engilráð Ósk, sem alltaf er kölluð Inga en hún er stödd á Ísafirði þessa dagana.
Kæru vinir og samstarfsfólk
Lognið á Ísafirði er engu líkt enda á það hér lögheimili, þó að það sé stundum aðeins að flýta sér. Að sitja í fjörunni, horfa út í Djúpið og finna fyrir orkunni í fjöllunum á þessum tímum er gefandi. Haustlitirnir speglast í Pollinum og maður heyrir krumma krunka fyrir ofan sig sem minnir mann á ömmu sem rölti ávallt yfir götuna frá heimilinu sínu í fjöruna til að gefa honum smá harðfisk.
Fjarvinnan hefur gengið vel þar sem nóg er um að vera í vinnunni. Alltaf jafn gaman en samt öðruvísi. Maður saknar þess að hitta ekki vinnufélagana en sem betur fer höfum við verið dugleg að eiga samskipti bæði til að taka á stórum verkefnum en líka bara til að taka smá „Pepsi Max“ spjall.
Verkefnin hafa verið að rúlla vel, þó sum betur en önnur. Þau verkefni sem hafa þarfnast rannsóknar, upplýsingar og gagna hafa verið að vinnast vel en önnur, þar sem við erum mörg að koma að, hafa ekki unnist eins vel þar sem erfitt getur verið að ná til allra. Ákvarðanatökur flæða jafnvel ekki jafn vel í gegnum internetið og þegar maður ræður við aðila augliti til auglitis.
Það hefur verið ótrúlegur gangur á innleiðingu á CCQ gæðastjórnunarlausninni hjá okkur núna í sumar og haust þar sem Emma og Björn sumarstarfsmaður hjá okkur stóðu sig ótrúlega vel að halda þeim boltum á lofti. Ferlavæðing á stjórnunarkerfinu, sem við lögðum upp með fyrir tveim árum, er að verða tölvuvædd svo við eigum enn auðveldara með að vinna að stöðugum umbótum, skoða flöskuhálsa og tengja saman rekstrarumhverfi Landsnets í heild. Margir starfsmenn hafa komið að betrumbótum hvað varðar gæðaskjöl og verklag innan sviða og erum við að sjá flottan afrakstur.
Samfélagsábyrgðin með áherslu á umhverfismálin eru enn mikið í umræðunni í samfélaginu og erum við í margs konar verkefnum í tengslum við það. Kolefnishlutlaust Landsnet árið 2030 hefur verið meginverkefnið á seinasta ári. Í ár höfum við helst verið að skoða bindinguna hjá okkur og búnað sem notast við umhverfisvænt gas í stað SF6 í tengivirkjunum okkar. Notkun á grænu bókhaldi hefur verið stöðugt í þróun þar sem við höfum verið að tengja inn aðra þætti eins og flutningstöp, rafmagn, SF6 gas ásamt upplýsingum frá starfsfólki í tengslum við sorpið okkar. Það hefur skipt miklu máli að fá tölfræðina rétta í bókhaldið en með þeim upplýsingum getum við greint hver staðan er og hvar er hægt að gera betur. Síðan má ekki gleym að við erum að leggja af stað í ferðlag að samfélagsskýrslu og tengja vinnulag okkar við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Við fjölskyldan höfum verið dugleg að hrista upp hversdagsleikann með því að fara um helgar að skoða landið okkar, hvort sem það er jeppaferð að Álftavatni eða farið að loka sumarbústaðnum okkar í Leirufirði Jökulfjörðum. Já og spilað á kvöldin.
Rútínan á Ísafirði hefur verið aðeins öðruvísi en sú sem ég er vön þegar ég er heima í Kópavoginum. Í Kópavogi snýst morguninn um að græja Óskar 6 ára fyrir skólann, ég hef þó aldrei fengið að fara inn í Lindaskóla eða hitt kennarana hans, og síðan er að klæða Evu 5 ára í allan útifatnað því að það á að kveðja börnin úti og þau eru fyrsta klukkutímann þar. Síðan er það vinna og reyna að muna að standa upp reglulega. Rútínan á Ísafirði felst í að rölta í Gamla bakaríið á morgnana, vinna, taka röltið í hádeginu og skoða Tungudalsvirkjun og Ísafjarðarlínu, vinna og síðan jafnvel sund seinnipartinn. Já hér á Ísafirði eru engar takmarkanir ennþá og tíminn líður aðeins hægar 😊
Bestu kveðjur að vestan
Inga