„Það kemur auðvitað ekkert í staðinn fyrir spjall yfir góðum kaffibolla og að hittast í raunheimum en við sjáum líka marga jákvæða hluti við fjarfunda fyrirkomulagið.“ #landsnetslífiðátímumCovid


07.10.2020

Framkvæmd

„Við lifum í samfélagi sem er háð rafmagni og þar erum við hjá Landsneti í lykilhlutverki. Á sama tíma og flutningskerfið okkar þarf að vera byggt upp með nútímalegum hætti þarf að ríkja eins breið sátt um framkvæmdir okkar og mögulegt er. Leiðirnar sem við förum þurfa að taka tillit til svo margra hluta, m.a. samfélagsins á hverjum stað, umhverfis og náttúru og því skiptir samtalið svo miklu máli“ segir Elín Sigríður Óladóttir samráðsfulltrúi.
Við tókum fyrsta rafræna bolla dagsins með henni ásamt smá spjalli um samtalið og samráðið sem þessa dagana fer að öllu leyti fram í rafheimum.
„Við höfum auðvitað reynslu af þessu ástandi síðan í vor. Leiðin sem við fórum þá var að fresta fundum og vettvangsferðum að mestu bæði vegna veirunnar og veðurs, notuðum tölvupósta og samfélagsmiðla en tókum líka inn fjarfundi þar sem okkur fannst þeir eiga við. Á þeim tíma litum við á þetta sem tímabundið ástand sem við þyrftum að komast yfir en eins og staðan er nú lítur út fyrir að við þurfum að horfa á þetta breytta ástand til lengri tíma. Við verðum því að finna leiðir í þeim takti til að halda samtalinu og samráðinu áfram."
Margir þekkja þetta fyrirkomulag auðvitað vel en við erum sífellt fleiri að komast á gott ról í þessu og má nefna sem dæmi að fundur með hagsmunaráði Landsnets í síðustu viku var vel sóttur og heppnaðist vel.
„Mér finnst þetta ótrúlega spennandi áskorun og góð viðbót við allt annað sem við höfum verið að gera en ég neita því ekki að ég hlakka til að hitta alla aftur“ segir Ella og bætir við brosandi að þetta sé bara spurning um að kjarna okkur í þetta verkefni eins og sagt sé hjá Hjallastefnunni.
Þegar kemur að heimavinnunni segir hún mikilvægt að halda rútínunni.
„Ég reyni að halda takti í heimavinnunni, tek daginn snemma, stundum er stuttur fundur með fólkinu á sviðinu mínu og svo reyni ég að taka göngu á hverjum degi en ég er svo heppin að búa á besta göngusvæðinu á höfuðborgarsvæðinu með Ásfjall, Hvaleyrarvatn og Helgafellið í bakgarðinum. Þetta er ekkert flókið og ekkert erfitt, höldum okkur heima. Höfum allt til alls, búum í frábæru landi við lúxus aðstæður, nýtum náttúruna til útiveru og andlegrar geðheilsu hvert fyrir sig eða með okkar nánustu. Hlýðum Víði - upp með sokkana - gerum þetta saman.“
 

Aftur í allar fréttir